Hoppa yfir valmynd
24. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

37. þing Sjálfsbjargar, 24. maí 2014

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir.

Það er ánægjulegt fyrir mig að hitta ykkur öll sem hér eruð saman komin á 37. þingi Sjálfsbjargar, þessa rótgróna landssambands fatlaðs fólks, sem mér reiknast svo til að verði 55 ára þann 4. júní næstkomandi.

Mér hefur lengi verið ljóst hve mikill auður liggur í félögum á borð við Sjálfsbjörg og því hef ég í embætti félags- og húsnæðismálaráðherra lagt áherslu á að eiga samráð og samstarf við félagið – ekki aðeins af því að það sé rétt og skylt, heldur ekki síður vegna þess að það er gagnlegt og nauðsynlegt. Hjá ykkur hefur byggst upp og safnast í sarpinn reynsla og þekking sem er mikilvægt að eiga aðgang að og ég er virkilega þakklát fyrir það góða samstarf sem ég hef átt við félagið hingað til – og treysti á að verði áfram í framtíðinni.

Það hafa orðið miklar og margvíslegar breytingar varðandi málefni fatlaðs fólks á liðnum árum, ekki síst í tengslum við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem unnið er að því að fullgilda hér á landi undir stjórn innanríkisráðuneytisins.

Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks var í mörgum efnum byggð á sáttmálanum og í henni endurómar sú áhersla á mannréttindi og bætta stöðu fatlaðs fólk sem er leiðarstef sáttmálans. Á þeim grunni voru sett lög um réttindagæslu fatlaðs fólks, komið á fót réttindagæslumönnum, sett reglugerð um persónulega talsmenn og reglugerð um framkvæmd lagaákvæðis um bann við nauðung fatlaðs fólks svo fátt eitt sé talið.

Margt fleira mætti telja sem tíðindum sætir, en auðvitað er kannski flestum ofarlega í huga sú stjórnsýslubreyting sem var með yfirfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011.

Eftir því sem ég kemst næst er almennt talið að yfirfærslan hafi gengið vel og ekki annað séð en að sveitarfélögin sinni þessu verkefni af heilindum og trúmennsku. Ég hef mikla trú á sveitarfélögunum í þessu efni og tel að þjónustu við fólk, nánast hvaða nafni sem hún nefnist, sé best stýrt á heimavelli – eða í héraði eins og oft er sagt. Þar á nærþjónustan að vera að mínu mati en að sjálfsögðu hefur ríkið þá skyldu að setja þjónustunni ákveðinn ramma og skilgreina kröfur um gæði og þjónustustig.

Í samræmi við lög er nú unnið að endurmati á faglegum og fjárhagslegum árangri yfirfærslunnar og á því mati að vera lokið í enda þessa árs. Vinnan gengur samkvæmt áætlun, nú er unnið að öflun allra nauðsynlegra upplýsinga sem matið mun byggjast á og er ráðgert að gagnasöfnun ljúki um mitt árið. Þá geta viðræður hafist milli ríkis og sveitarfélaga á grundvelli þeirra gagna. Ég vil einnig geta þess að í tengslum við endurmat á yfirfærslunni stendur nú yfir heildarendurskoðun á málefnum fatlaðs fólk og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem stýrt er af Willum Þór Þórssyni alþingismanni. Meðal þess sem þar er í athugun er hvort æskilegt sé að semja heildarlöggjöf um félagslega og sértæka aðstoð. Með því móti væri horfið frá sérlögum um tiltekna hópa en áherslan lögð á þjónustuna sem fólk þarf, óháð því hvort það er fatlað, aldrað eða fellur undir einhverjar aðrar skilgreiningar. Mér hugnast vel að stíga þetta skref, því ég tel sérlögin fela í sér aðgreiningu sem er úrelt í nútímasamfélagi og í raun stríða gegn hugmyndafræðinni um eitt samfélag fyrir alla.

Eins og ég sagði felur endurmat á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga bæði í sér fjárhagslega skoðun og faglega. Þótt mér skiljist að almennt talið hafi ágætlega tekist til hef ég þó heyrt þær raddir að nokkur munur sé á því hvaða þjónustu fatlað fólk nýtur eftir því hvar það býr, þ.e.a.s. eftir þjónustusvæðum. Ég geri ráð fyrir að faglega endurmatið leiði í ljós hvort svo sé og ef svo er hvað það felur í sér. Sveitarfélögin hafa töluvert sjálfræði varðandi framkvæmd þjónustunnar og það tel ég jákvætt – að því gefnu að þjónustustigið og gæði þjónustunnar sem fatlað fólk fær séu sambærileg um allt land.

Við yfirfærsluna á sínum tíma var gerð viðamikil könnun á viðhorfum notenda og aðstandenda þeirra til þjónustu við fatlað fólk eins og hún var hjá ríkinu. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vinnur nú að gerð sambærilegrar könnunar þar sem viðhorf notenda og aðstandenda til þjónustunnar eins og hún er nú hjá sveitarfélögunum verða skoðuð. Með því móti ætti að fást greinargóð mynd af því hvernig málum er háttað um allt land. Fyrirtækið KPMG vinnur jafnframt að könnun á því hvernig til hefur tekist að ná stjórnsýslulegum markmiðum yfirfærslunnar – sem jafnframt mun verða góður grunnur við mat á því hvernig til hefur tekist.

Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða bifreiðamál hreyfihamlaðra – og raunar hefur töluverð vinna átt sér stað í því skyni, þótt litlar breytingar haf verið gerðar á fyrirkomulaginu enn sem komið er. Síðustu breytingar á lögum og reglum um bifreiðamál hreyfihamlaðra voru gerðar árið 2009 en í grundvallaratriðum hafa litlar sem engar breytingar verði gerðar um árabil og því er byggt á gömlum grunni.

Staðreyndin er sú að mikil viðhorfsbreyting hefur orðið í samfélaginu á liðnum árum, bæði varðandi notkun einkabíla og almenningssamgangna, en ekki síður varðandi nauðsyn þess að rjúfa félagslega einangrun og auðvelda fötluðu fólki að komast leiðar sinnar. Í þessu ljósi er löngu tímabært að endurskoða bifreiðamál hreyfihamlaðra. Þess skal einnig getið að ráðuneytinu hafa borist ýmsar ábendingar og kvartanir vegna gildandi reglna á þessu sviði, úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur kveðið upp nokkra úrskurði sem gefa tilefni til endurskoðunar og eins hefur umboðsmaður Alþingis gefið álit sem ástæða er til að bregðast við. Síðast en ekki síst hefur Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, átt drjúgan þátt í því að hvetja til endurskoðunar og lagt fram tillögur að breytingum á gildandi reglum.

Með allt þetta í huga ákvað ég að skipa starfshóp til að fara í saumana á þessum málum og koma með tillögur til úrbóta og var hann skipaður 27. janúar síðastliðinn.

Ég nefndi áðan hvað það skiptir miklu máli að geta leitað í reynslusjóð Sjálfsbjargar og hvað ég er þakklát fyrir gott samstarf við félagið í mikilvægum málum. Ég heyri það á fulltrúum mínum í nefndinni sem endurskoðar bifreiðamálin að Bergur Þorri Benjamínsson, sem á þar sæti fyrir hönd Sjálfsbjargar hefur reynst betri en enginn í starfinu, sýnt mikla drift og verið sannkallaður Haukur horni. Nefndin hefur þegar haldið sjö fundi frá því hún var skipuð. Þar situr einvalalið fólks sem þekkir vel til þessara mála, vinnur vel saman og leggur áherslu á að skila af sér vönduðum og vel útfærðum tillögum. Ég veit líka að hópurinn hefur leitað út fyrir landsteinana til þess að kynna sér hvernig bifreiðamálum hreyfihamlaðra er háttað hjá nágrannaþjóðum okkar. Þannig er kapp lagt á það í nefndinni að nýta reynslu og þekkingu annarra og það er jafnan heilladrjúgt. Fyrirkomulag þessara mála eins og þeim er háttað í dag er allt of flókið – ég nefni til dæmis hvernig þau skiptast milli tveggja stofnana á grundvelli laga, annars vegar hjá Tryggingastofnun ríkisins og hins vegar Sjúkratryggingum Íslands. Ég tel að það skorti líka heildarsýn þar sem horft er til allra möguleika fatlaðs fólks til að komast leiðar sinnar. Það er alveg ljóst að sveigjanleiki verður að vera meiri, með áherslu á að mæta einstaklingsbundnum þörfum. Allt þetta mun nefndin sem er að störfum hafa í huga og skoða vel og ég bind miklar vonir við tillögur hennar sem ég vænti þess að fá til skoðunar í haust.

Góðir gestir.

Samfélagið tekur sífelldum breytingum á svo mörgum sviðum – sífellt koma fram einhverjar nýjungar, og við verðum því að vera vakandi og reiðubúin til þess að taka mál til endurskoðunar í ljósi þess. Annars dögum við uppi og missum af mikilvægum tækifærum sem leitt geta til framfara. Íslenskt samfélag stendur á næstu árum og áratugum frammi fyrir krefjandi verkefnum á sviði velferðarþjónustu. Eldri borgurum mun fjölga verulega, nýir notendahópar koma fram á sjónarsviðið og kröfur til þjónustunnar taka á sig fjölbreyttari og víðtækari mynd. Þetta kallar á sérhæfingu með aukinni samþættingu og góðri yfirsýn. Til þess að bregðast við þessum aðstæðum hafa stjórnvöld víða um lönd leitað leiða til nýsköpunar og skoðað á hvern hátt unnt sé í meira mæli að beita tæknilegum lausnum í velferðarþjónustunni.

Dagana 4. og 5. júní næstkomandi verður efnt til norrænnar ráðstefnu um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu í Hofi á Akureyri og er ráðstefnan liður í formennskuári Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni. Ég vonast til að sjá einhver ykkar á ráðstefnunni sem örugglega verður mjög áhugaverð og hleypir vonandi auknum krafti í þessi mál hér á landi. Ég vil líka geta þess að í byrjun þessa árs skipaði ég samráðshóp um mótun stefnu í nýsköpun og tækni í félagsþjónustu og er ráðgert að á grundvelli stefnunnar verði gerð áætlun um framkvæmd hennar til ársins 2020. Velferðartækni er ekki afmörkuð við eitthvað eitt málefnasvið heldur snertir hún marga málaflokka, t.d. heilbrigðismál, félagsmál, menntamál og vinnumál, auk þess að hafa áhrif á samfélagið í heild sinni.

Eitt er það málefni sem ég vil nefna sérstaklega hér en það er sú sameining þjónustustofnana við fatlað fólk sem stendur fyrir dyrum og hefur verið unnið að í ráðuneytinu að undanförnu, í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og að höfðu samráði við fulltrúa þeirra notenda þjónustunnar sem málið varðar. Stofnanirnar sem um ræðir eru Greiningar- og ráðgjafarstöðin, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Til að gera langa sögu stutta er það niðurstaða verkefnisstjórnarinnar sem unnið hefur að undirbúningnum að sameining þessara stofnana í eina geti stuðlað að markvissari og skilvirkari þjónustu við þá sem í hlut eiga - og muni styrkja sérhæfingu og samhæfingu í starfi þeirra fagstétta sem nú starfa hjá þessum aðskildu stofnunum. Jafnframt er lagt til að Tölvumiðstöðin – TMF – verði hluti af sameinaðri stofnun. Verkefnisstjórnin telur að sameiningin muni fela í sér ótvíræðan fjárhagslegan ávinning til frambúðar, meðal annars vegna minni kostnaðar hjá yfirstjórn og vegna samlegðaráhrifa í stoðþjónustu. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að ávinningur af sameiningunni verði notaður til að efla þjónustu sameinaðrar stofnunar.

Ég vil einnig vekja athygli á því að tillögur verkefnisstjórnarinnar gera ráð fyrir að sú þjónusta sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin hefur sinnt og miðast við börn að 18 ára aldri – að sú þjónusta verði útvíkkuð og nái einnig til þeirra sem eru 18 ára og eldri. Fólk með þroskaraskanir eldra en 18 ára hefur til þessa fengið þjónustu sem fólgin er í ráðgjöf, stuðningi og meðferð hjá ýmsum aðilum, m.a. Reykjalundi, Endurhæfingu ehf., Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, Sjónarhóli og víðar. Ný sameinuð miðstöð mun styrkja þjónustu við þennan hóp og veita fleirum aðgang að henni.

Það eru eflaust ýmsir hér inni sem þekkja tillögur verkefnisstjórnarinnar, enda hef ég lagt mikla áherslu á að möguleg sameining þessara stofnana sé metin, skoðuð og undirbúin í nánu samráði við stjórnendur stofnananna og starfsfólk þeirra og eins að veita hagsmunafélögum þeirra sem þjónustunnar þurfa með kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Ég hef mikla trú á því að þessi sameining feli í sér margvísleg tækifæri og verði mjög til góðs, jafnt fyrir þá sem þurfa á þjónustu nýrrar stofnunar að halda og fagfólksins sem veitir þjónustuna. Það er töluvert stór hópur fólks sem í dag þarf að leita til tveggja eða jafnvel fleiri stofnana eftir þjónustu. Það segir sig sjálft að fyrir þetta fólk er mikið hagræði fólgið í því að geta fengið þjónustuna á einum stað – og eins ætti að vera auðveldara að samræma þjónustuna þegar svo háttar og sníða hana betur að þörfum hvers og eins. Það er einnig óhætt að ætla að sameinuð og þar með nokkuð stór stofnun eigi betri kosti en litlar stofnanir á því að styðja við faglegt starf og efla það, og stuðla að aukinni nýsköpun, þróunarstarfi og rannsóknum.

Góðir gestir. Ég hef talað heldur lengur en ég ætlaði mér og vonandi hef ég ekki sett dagskrá ykkar úr skorðum. Þau málefni sem varða Sjálfsbjörgu eru ótal mörg og varða margvísleg málefni sem mörg hver varða ráðuneyti velferðarmála – og ekki síst verkefnasvið mitt sem félags- og húsnæðismála. Þar með talin eru húsnæðismál og atvinnumál sem ég hefði raunar gjarna viljað gera einhver skil hér í dag, en tíminn leyfir það ekki. Við ræðum þau mál örugglega síðar, því ég reikna með því að við eigum eftir að eiga samræður og samráð um mörg stór og brennandi málefni á næstu misserum og árum. Af nógu er að taka  - en til þess eru verkefnin að leysa þau.

Bestu þakkir öll fyrir þessa stund og megi þingið sem framundan er verða áhugavert og til gagns og góðs.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum