Hoppa yfir valmynd
28. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Starfs vinnumiðlunar og ráðgjafar ehf. 28. maí 2014

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eygóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Sælir góðir gestir.

Takk fyrir gott boð á ársfund Starfs – vinnumiðlunar og ráðgjafar. Segja má að þótt Starf hafi enn ekki slitið barnsskónum hafi mikið vatn til sjávar runnið og miklar breytingar orðið á vinnumarkaðinum frá því að ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga vorið 2011 sem var grunnurinn að stofnun Starfs og tilraunaverkefnisins sem það byggist á.

Eins og allir hér vita annast Starf tilraunaverkefni til þriggja ára um vinnumiðlun og ráðgjöf, samkvæmt samkomulagi sem gert var milli velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands þann 10. febrúar árið 2012.

Vorið 2011 var skráð atvinnuleysi á landsvísu um 8,6% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, eða með því mesta sem nokkru sinni hefur sést hér á landi. Það var svo sannarlega þörf fyrir þjóðarátak gegn atvinnuleysi og mikið reið á að gera allt sem hægt var til þess að mæta atvinnuleitendum með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum, þjálfun og starfsmenntunarúrræðum til að sporna við þeim alvarlegu afleiðingum sem atvinnuleysi getur haft á einstaklinga og samfélag, ekki síst verði það langvarandi.

Starf – vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. er sprottið upp úr þessum jarðvegi en í fyrrnefndri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var sérstaklega tiltekið að með verkefninu skyldi stuðlað meðal annars „að virkari vinnumarkaðsaðgerðum og vinnumiðlun, sem að umfangi nái til allt að fjórðungs atvinnuleitenda.“

Í samkomulagi um verkefnið var áhersla lögð á að um viðbót skyldi vera að ræða við þá þjónustu sem þegar var fyrir hendi á sviði vinnumiðlunar og ráðgjafar, helst þar sem þörf fyrir aukna þjónustu við atvinnuleitendur væri mest.

Í júní 2013 fór fram hlutaúttekt á tilraunaverkefninu af hálfu velferðarráðuneytisins í samræmi við þjónustusamning við starf frá 25. júní 2012 en þjónusta STARFS við atvinnuleitendur hafði þá staðið yfir í rúma 10 mánuði. Skoðaðar voru þrettán valdar kröfur úr kröfulýsingu og var niðurstaðan sú að miðað við stuttan starfstíma væri starfsemin almennt vel skipulögð, þótt ekki væru allar kröfur sem skoðaðar voru að fullu uppfylltar.

Nú er meiri reynsla komin á þjónustu og ráðgjöf STARFS við atvinnuleitendur en tilraunaverkefninu lýkur 30. apríl 2015 og þá fer fram lokamat á því hvernig til hefur tekist.

Eins og ég sagði hafa aðstæður á vinnumarkaði mikið breyst frá því að ákvörðun um tilraunaverkefni Starfs var tekin vorið 2011 þegar skráð atvinnuleysi var 8,6% á landsvísu. Ísland hefur vakið athygli víða fyrir það hve hratt dró úr atvinnuleysi hér á landi eftir hrun haustið 2008 en í apríl síðastliðnum var skráð atvinnuleysi 4,1% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.

Mörg teikn eru á lofti í efnahagsaðstæðum hér á landi sem gefa tilefni til bjartsýni um batnandi efnahagsástand, atvinnulíf í sókn og þar með fjölgun starfa og minnkandi atvinnuleysi. Ég geri þó alls ekki lítið úr stöðu þeirra sem eru án atvinnu og hafa jafnvel verið í atvinnuleit um langan tíma. Það fólk þarf á allri þeirri þjónustu, stuðningi og ráðgjöf að halda sem gerir því kleift að komast til starfa á ný.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að koma með neinar yfirlýsingar hér um framtíð tilraunaverkefnisins STARFS. Við skulum sjá hvernig málin þróast og spyrja að leikslokum þegar lokamat á verkefninu liggur fyrir. Það er jafnan hollt og gott að reyna eitthvað nýtt, gera tilraunir og bera saman mismunandi leiðir að settum markmiðum. Slíkt skilar þekkingu, reynslu og lærdómi og í því felst ávinningur sem vert er að meta.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum