Hoppa yfir valmynd
15. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Afmæliskveðja ráðherra í tilefni 25 ára afmælis Landssambands eldri borgara

Afmæliskveðja frá Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
Birtist í ritinu Listin að lifa, afmælisriti vorið 2014

Kæru lesendur.

Ég óska félögum í Landssambandi eldri borgara til hamingju með tímamótin og 25 ára afmæli þessara mikilvægu heildarsamtaka hinna eldri og reyndari borgara í landinu.

Við sem yngri erum höfum margt að læra af ykkur sem eigið lengra líf að baki, fjölbreytta reynslu úr lífi og starfi og margvíslega menntun, hvort sem hennar hefur verið aflað í hefðbundnum skólum eða í skóla lífsins.

Viðhorf til eldra fólks og staða þess í íslensku samfélagi hafa tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina. Segja má að eftir að þriggja kynslóða fjölskyldugerð sveitasamfélagsins leið undir lok hafi skapast áður óþekkt gjá á milli kynslóða. Elsta kynslóðin bar skarðan hlut frá borði við þennan aðskilnað þar sem yngra fólkið missti sýn og skilning á mikilvægi þeirrar þekkingar og kunnáttu sem fólk aflar sér með árum og lífsreynslu. Félagslegu tengslin breyttust og margir hinna eldri fengu tilfinningu fyrir því að hafa glatað hlutverki sínu og verið settir til hliðar.

Umræða um málefni eldri borgara endurspeglaði breytt og verri viðhorf. Um langt skeið mátti á henni skilja að eldri borgarar væru upp til hópa óvirkir, heilsulausir og hjálparvana og að einu málefni samfélagsins sem þá vörðuðu væru heilbrigðismál og bygging og rekstur hjúkrunarheimila. Nú er þessi tími liðinn, sem betur fer.

Eftir því sem ég fæ best séð hafa á liðnum árum orðið mikilvægar breytingar á viðhorfum samfélagsins til eldra borgara og þeir hafa styrkt stöðu sína á ný. Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist hratt, eldra fólki fjölgar hlutfallslega mest, lífslíkur aukast og heilsufar fer batnandi. Við vitum öll að aldur er afstæður og meðan fólk heldur andlegri og líkamlegri heilsu er aldur engin fyrirstaða fyrir virkri þátttöku í samfélaginu. Hinir svokölluðu eldri borgarar þessa lands eru nú stór og fjölbreyttur hópur fólk sem lætur til sín taka í samfélagsumræðunni og er ekkert óviðkomandi.

Landssamband eldri borgara á tvímælalaust mikilvægan þátt í því hvernig viðhorf til eldra fólks hafa breyst til betri vegar og staða þess í samfélginu sömuleiðis. Allar kynslóðir eru mikilvægar og hafa eitthvað fram að færa sem skiptir máli í heildarsamhenginu. Þetta ætti nú öllum að vera orðið ljóst.

Framundan eru margvísleg og stór viðfangsefni. Kjör eldri borgara ber þar hátt og ég mun áfram vinna að því að skila til baka þeim skerðingum sem þeir hafa sætt á undanförnum árum. Að mörgu fleiru er þó að hyggja, hvort sem um ræðir húsnæðismál, atvinnumál, lífeyrismál og svo mætti áfram telja. Ég legg almennt áherslu á víðtækt samráð og samvinnu í þeim málaflokkum sem ég ber ábyrgð á sem félags- og húsnæðismálaráðherra. Þannig eru mestar líkur á skynsamlegum niðurstöðum í vandasömum verkefnum.

Um leið og ég ítreka hamingjuóskir til Landssambands eldri borgara á tímamótum óska ég þess að eiga framundan gott samstarf við þessi mikilvægu samtök, líkt og verið hefur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum