Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norrænt samstarf um jafnrétti kynjanna í 40 ár

Grein eftir Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
Birtist í Fréttablaðinu 19. ágúst 2014

Árið 1974 hófst formlegt samstarf á sviði jafnréttismála á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Ákvörðun þessi hefur án efa átt sinn þátt í að kynjajafnrétti mælist hvergi meira en á Norðurlöndunum. Samstarfið hefur aukið þekkingu okkar, samráð og samvinnu sem hefur skilað árangri og fært okkur nær markmiðinu um norræn samfélög réttlætis og lýðræðis. Ísland fer í ár með formennsku í starfi norrænu ráðherranefndarinnar og það kemur í okkar hlut að boða til hátíðarráðstefnu í tilefni afmælisins. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu þann 26. ágúst næstkomandi og er markmið hennar að fjalla um árangur og framtíðarmarkmið samstarfsins.  Þar verður meðal annars lögð áhersla á jafnrétti á vinnumarkaði, menntun, og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi. Um þessar mundir er fagnað aldarafmæli kosningaréttar kvenna á Norðurlöndum og af því tilefni verður hugað að stöðu lýðræðis með hliðsjón af stjórnmálaþátttöku kvenna. Ráðstefnan er öllum opin.

Á þeim 40 árum sem liðin eru frá upphafi norræns samstarfs hafa miklar breytingar átt sér stað.  Menntun og atvinuþátttaka kvenna hefur aukist gríðarlega, konum hefur fjölgað verulega á þjóðþingum, í ríkisstjórnum og í sveitarstjórnarmálum þar sem karlar voru áður alls ráðandi. Innan fjölskyldna hafa orðið breytingar á verkaskiptingu, ekki síst hefur feðrahlutverkið breyst með auknum réttindum feðra til fæðingar- og foreldraorlofs. Á þessum tíma hafa Norðurlöndin tekið forystu í alþjóðlegum samanburði og skipað sér í efstu sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem árlega mælir árangur ríkja á sviði jafnréttismála. Ný mál hafa verið sett á dagskrá stjórnmálanna ekki síst baráttan gegn kynbundnu ofbeldi, samstarf við Eystrasaltslöndin eftir hrun járntjaldsins og nú síðast þær áskoranir sem felast í loftlagsbreytingum og þeim vaxandi áhuga sem beinist að norðurslóðum. Mikilvægt er að hafa kynjasjónarmið í huga við stefnumótun og framkvæmdir í þessum málum því þau hafa mismunandi áhrif á líf kvenna og karla. 

Norðurlöndin hafa farið mismunandi leiðir í jafnréttisstarfi með mismunandi stofnanauppbyggingu og aðgerðum en það sem mestu máli skiptir er að við höfum öll náð árangri. Mikilvægt er þó að hafa hugfast að þessi árangur kom ekki af sjálfu sér heldur er hann afrakstur mikillar vinnu og baráttu kvennahreyfinga fyrir jafnrétti kynjanna. Við þurfum að halda vöku okkar til að ekki verði bakslag. Við stöndum enn frammi fyrir miklum áskorunum og erfiðum verkefnum. Við munum mæta þessum áskorunum og halda áfram að byggja upp norræn samfélög jafnréttis og lýðræðis. Samfélög þar sem konur og karlar njóta sömu tækifæra og jafnrar stöðu á vinnumarkaði og samfélög þar sem allir leggjast á eitt um að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Við þurfum að auka þekkingu á því að jafnrétti kynja er ekki eingöngu réttlætis- og lýðræðismál heldur er það einnig efnahagsleg nauðsyn og grundvöllur norrænna velferðarsamfélaga. Mikil atvinnuþátttaka kvenna er einn af hornsteinum hagvaxtar og velferðar og við eigum að halda áfram að ryðja úr vegi jafnt formlegum sem óformlegum hindrunum fyrir jafnri þátttöku kynjanna á öllum sviðum. Jafnréttismál eru ekki afmarkað svið heldur snerta þau líf okkar allra. Upplýsingar og þekking á stöðu mála eru undirstaða þess að við getum haldið áfram að vinna að markmiðum opinberrar jafnréttisstefnu. Norræn samvinna stendur traustum fótum. Með vináttu okkar, rótgrónu samstarfi og sameiginlegum hugsjónum og hagsmunum náum við árangri. Megi afmælisárið og hátíðarráðstefnan verða okkur öllum hvatning til dáða og frekari samvinnu.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum