Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Setning ráðstefnu í tilefni 40 ára jafnréttissamstarfs Norðurlandanna

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
Ráðstefnan var haldin í Hörpu, 26. ágúst 2014

Frú Vigdís Finnbogadóttir,

Góðir gestir.

Norðurlandasamstarf á sviði jafnréttismála fagnar á þessu ári 40 ára afmæli.  

Við megum vera stolt af samstarfinu og þeirri staðreynd að hvergi mælist kynjajafnrétti meira en á Norðurlöndunum. Samstarfið hefur aukið þekkingu okkar, samráð og samvinnu – það hefur skilað árangri og fært okkur nær markmiðinu um norræn samfélög velferðar, réttlætis og lýðræðis.

Á þessum fjórum áratugum hafa Norðurlandaþjóðirnar borið saman bækur hvað varðar stöðu kynjajafnréttis á vinnumarkaði. Ráðherranefndin hefur stutt rannsóknasamstarf sem hefur kortlagt og sýnt fram á áhrif kynjabreytunnar á skipulag og inntak stjórnmálanna – hvernig kyn heldur áfram að móta náms- og starfsval ungmenna sem við vitum að viðheldur kynjaskiptingu starfa og launamisrétti á vinnumarkaði – svo aðeins sé minnst á tvö dæmi.

Málefni unga fólksins hafa verið sett á dagskrá, til að mynda hvað varðar jafnréttisfræðslu í skólum og jafnréttisuppeldi. Unnið hefur verið gegn staðalmyndum um kynin og norræna samstarfið hefur haft bein og óbein áhrif á umræður og stjórnvaldsákvarðanir við breytingar á skipulagi foreldra- og fæðingarorlofs. Síðast en ekki síst hefur allan þennan tíma verið lögð áhersla á samvinnu og stuðning við frjáls félagasamtök sem láta sig jafnréttismál varða.

Við höfum barist gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali, lagt áherslu á samstarf við Eystrasaltslöndin eftir hrun járntjaldsins – og þær miklu áskoranir sem felast í loftlagsbreytingum og breyttum lífsskilyrðum á norðurslóðum. Mikilvægt er að hafa kynjasjónarmið í huga við stefnumótun á þessum sviðum því þau snerta líf kvenna og karla á mismunandi hátt.

Á sviði alþjóðamála hafa Norðurlandaþjóðirnar leitast við að tala einni röddu – einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Á síðasta fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna áréttuðu norrænir ráðherrar jafnréttismála vilja Norðurlanda til að samþætta kynjajafnrétti inn í sjálfbæru þróunarmarkmiðin sem taka við af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna árið 2015 og að sérstakt markmið verði sett um réttindi og valdeflingu kvenna með áherslu á efnahagsleg og pólitísk réttindi, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og bætt kyn- og frjósemisheilbrigði.

Þannig vilja Norðurlöndin styðja baráttu fyrir grundvallarmannréttindum kvenna víða um heim;

Baráttu fyrir réttindum sem við á Norðurlöndum teljum sjálfsögð eins og að ráða yfir eigin líkama – að hafa stjórn á eigin barneignum – að hafa aðgang að getnaðarvörnum og fóstureyðingum. Baráttuna um að kveða niður limlestingar á kynfærum stúlkubarna – barnagiftingar og þvinguð hjónabönd.  Norðurlöndin hafa lagt áherslu á náið samstarf við UN Women vegna endurmats á Peking framkvæmdaáætlunni frá árinu 1995 sem fram fer á 20 ára afmæli áætlunarinnar á næsta ári. 

Á undanförnum árum og mánuðum höfum við horft á skelfilegar styrjaldir og átök þar sem konur og börn eru varnarlaus og þar sem árásum er jafnvel beint að þeim sérstaklega. Ofbeldi og nauðgunum er markvisst beitt til að niðurlægja og brjóta fólk niður. Í framkvæmdaáætluninni frá Peking er að finna kafla um konur og vopnuð átök sem ætti að vera okkur leiðarljós í baráttu fyrir friði. Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig samþykkt sérstaka ályktun nr. 1325/2000 um konur, frið og öryggi þar sem áhersla er lögð á að konur komi að samningaborðum og taki þátt í friðarviðræðum. Hvað skyldu margar konur hafa verið kallaðar til Kairó undanfarnar vikur til að koma á vopnahléi á Gaza? Að því er virðist vera: Engin.

Slíkt er ólíðandi þegar við vitum að vopnuð átök bitna hvað harðast á konum og börnum.

Á næsta ári verður haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna í Danmörku og á Íslandi. Áður hafa Finnar og Norðmenn haldið upp á þessi tímamót og röðin kemur að Svíum árið 2021.  Slík tímamót gefa okkur kost á að minnast frumkvöðlanna, líta yfir farinn veg, vega og meta árangur og móta framtíðarmarkmið.

Jafn kosningaréttur og kjörgengi kynja var einn mikilvægasti áfangi lýðræðisþróunar á Norðurlöndum því í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif á mótun samfélagsins. – Í raun er ótrúlega stutt síðan að það þótti sjálfsagt að konur nytu ekki sömu grunnréttinda og karlar – og alls staðar á Norðurlöndum leið langur tími þar til konum fór að fjölga á þjóðþingum og í sveitarstjórnum. Kerfi stjórnmálanna var byggt upp af körlum sem héldu konum nánast alfarið utan við hið opinbera vald.  Víða urðu konur að grípa til sértækra aðgerða: Kvennaframboða á Íslandi, skipulegra kosningaaðgerða í Noregi og leynilegra bandalaga í Svíþjóð.  Og enn finna konur sig knúnar til að taka til sinna ráða eins og hið sænska framboð Feministisk Initiativ ber okkur vitni um. 

Ég er nýkomin frá Álandseyjum –  þar heyrði ég að konur eru langþreyttar á að ná ekki sama framgangi í stjórnmálum og karlar.  Saga stjórnmálaþátttöku kvenna á Norðurlöndum kennir okkur að lýðræði og kynjajafnrétti eru ekki og hafa aldrei verið sjálfsögð.  Það tók okkur heila öld að ná þeim árangri að konur næðu 40% hlut kjörinna fulltrúa á löggjafarsamkundum okkar og enn þurfum við að vera á varðbergi til að ekki verði bakslag. Í vestrænum lýðræðisríkjum er lærdómurinn er alls staðar sá sami – jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér og sá árangur sem náðst hefur er afrakstur langrar baráttu utan sem innan stjórnmálanna.


Mörg erfið verkefni á sviði jafnréttismála bíða enn frekari úrlausna.

Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála.

Ég hef áður vakið máls á að breytingar á íslenska fæðingarorlofinu um sjálfstæðan rétt karla til töku orlofs hafa haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála. Rannsóknir sýna að karlar taka í kjölfar lagasetningarinnar virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Lögin hafa breytt samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði og síðast en ekki síst hafa þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar um karlmennsku. Í dag þykir flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn sín –  það þykir töff að vera umhyggjusamur pabbi.

Fæðingarorlofsmálin eiga að vera okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði allra í samfélaginu.

Góðir gestir,

Á þingi Norðurlandaráðs í október næstkomandi verður kynnt ný samstarfsáæltun Norðurlandanna í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára.  Ný verkefni og áskoranir sem tengjast fjölmenningarsamfélagi dagsins í dag annars vegar og aukinni þátttöku karla í öllu jafnréttisstarfi hins vegar eru rauður þráður í áætluninni.  Stefnumótun í málaflokknum þarf í auknum mæli að taka mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. En karlar þurfa einnig sjálfir að finna til ábyrgðar og taka stóraukinn þátt í umræðu um jafnréttismál.

Norræn samvinna stendum traustum fótum. Með vináttu okkar, rótgrónu samstarfi og sameiginlegum hugsjónum munum við halda áfram að vinna að markmiðinu um aukið jafnrétti kvenna og karla. Framundan er glæsileg dagskrá með framsögum og umræðum sérfræðinga frá öllum Norðurlöndum. Ég vona að afmælisárið og ráðstefnan hér í dag verði okkur innblástur og hvatning til góðra verka og frekari samvinnu á sviði jafnréttismála. 

Takk fyrir!

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum