Hoppa yfir valmynd
25. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Barnaverndarþing 2014

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Góðir gestir.

Verið þið öll velkomin til Barnaverndarþings árið 2014 sem markar tímamót, þar sem um er að ræða fyrstu heildstæðu ráðstefnuna um barnavernd sem haldin er hér á landi. Réttur til verndar, virkni og velferðar er yfirskrift ráðstefnunnar sem stendur í tvo daga – og það er ekki að undra þótt tvo daga þurfi til að ræða jafn yfirgripsmikil mál og hér verða til umfjöllunar.

Hér verður spurt fjölmargra áleitinna spurninga um barnavernd – en hvort þeim verður öllum svarað er annað mál. Það er heldur ekki aðalatriðið, heldur umræðan sjálf þar sem mestu skiptir að hún sé frjó og fræðandi, vekjandi og hvetjandi.

Sem dæmi um viðfangsefni ráðstefnunnar eru stórar spurningar eins og;

  • Þarf að stokka upp barnaverndarkerfinu á Íslandi?
  • Er rannsókn á tilkynningum til barnaverndarnefnda áfátt?
  • Er vinnsla barnaverndarmála í lagi?
  • Virkar meðferð fyrir börn og unglinga vegna neyslu og áhættuhegðunar?
  • Er hægt að bæta uppeldisaðstæður á heimilum barna og geta foreldrar orðið betri foreldrar og hvað þarf svo að vel takist til?
  • Hvernig náum við til barna sem hafa verið beitt ofbeldi eða upplifað heimilisofbeldi?
  • Hvaða stuðning er hægt að veita fjölskyldum og börnum sem orðið hafa fyrir ofbeldi eða annars konar áföllum?
  • Er tæling barna gegnum netið algeng?
  • Hvar eiga erfiðustu börnin heima?

Ég ætla mér alls ekki að reyna að svara þessum spurningum – en mun hins vegar fara nokkrum orðum um ýmis stór og mikilvæg verkefni sem unnið er að á vegum velferðarráðuneytisins sem miða að því að bæta hag barna og barnafjölskyldna, - ekki síst með aðstæður þeirra sem mest þurfa á vernd og stuðningi að halda að leiðarljósi – og eins með það að markmiði að stuðla að bættum uppvaxtarskilyrðum barna og aðstæðum barnafjölskyldna þannig að þeim fækki sem verði í sérstakri þörf fyrir vernd og stuðning umfram það sem gerist og gengur.

Fyrst af öllu hef ég ákveðið að styrkja stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar. Þörfin fyrir að gera þetta hefur margoft verið rædd, en ekkert orðið úr framkvæmdinni. Ég mun því skipa nefnd til að skilgreina verkefni og hlutverk sérstakrar eftirlits- og stjórnsýslustofnunar sem ætlað verður að sinna stjórnsýsluverkefnum sem nú eru á hendi velferðarráðuneytisins og varða félagsþjónustu sveitarfélaga og stjórnsýsluverkefni sem eru á hendi Barnaverndarstofu. Auk stjórnsýsluverkefna verður meginhlutverk stofnunarinnar að annast eftirlit með þjónustu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar.

Annað stórmál í vinnslu er gerð tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu til ársins 2020 sem ég mun leggja fyrir Alþingi í vor. Verkefnisstjórn sem að þessu hefur unnið var skipuð í október í fyrra. Drög að stefnunni verða bráðum birt opinberlega til umsagnar – og ég vil nota þetta tækifæri til að hrósa þeim sem að starfinu hafa komið fyrir góða vinnu. Í fyrirliggjandi drögum er lögð áhersla á aðgerðir til að auka félagslegan jöfnuð og réttindi, aðgerðir til að sporna við mismunun, leiðir sem stuðla eiga að jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs og jafnri ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna. Fyrst og síðast eru þetta vel grundaðar tillögur þar sem sjónum er beint að þekktum samfélagslegum vandamálum sem ógna velferð barna og brýnt er að takast á við á markvissan hátt. – Og markmiðið er að tryggja rétt allra barna til umhyggju, verndar og þátttöku í samræmi við megininntak samningsins um réttindi barna.

Í nóvember í fyrra fékk ég í hendur skýrslu nefndar sem hafði það verkefni að fjalla um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Nefndin var sett á fót árið 2012 í kjölfar þess að fulltrúar nokkurra sveitarfélaga leituðu til velferðarráðuneytisins vegna vanda tiltölulega fárra barna og fjölskyldna þeirra sem voru í mikilli þörf fyrir öflug og samhæfð úrræði. Þeir töldu nauðsynlegt að tryggja betur en gert væri samfellda þjónustu ríkis og sveitarfélaga við þessi börn þar sem úrlausn þessara flóknu mála lægi hjá mörgum aðilum og oft óljóst hver bæri meginábyrgð á því að fullnægjandi aðstoð og þjónusta væri veitt.

– Þessi vandi er ekki nýr af nálinni og verður kannski aldrei að fullu leystur þegar sömu einstaklingar þurfa á þjónustu að halda sem veitt er af mörgum aðilum sem heyra ekki undir sama stjórnsýslustig. – Eitt er þó alveg víst að stjórnvöld verða að finna leiðir í málum sem þessum til þess að einstaklingar í miklum vanda gjaldi ekki fyrir kerfisbundin vandamál í samskiptum þjónustustofnana.

Til að takast á við erfið mál sem þessi hef ég skipað teymi sérfræðinga sem veita skal sveitarfélögum ráðgjöf um hvernig best verði háttað þjónustu við einstök börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir þegar fullreynt er að börnin geti búið áfram í foreldrahúsum og þörf er á sérsniðnu búsetuúrræði. Teymið er sett á fót sem tilraunaverkefni til eins árs.

Ísland fer með formennsku í formlegu samstarfi Norðurlandaþjóðanna á þessu ári og hefur því ráðið hvaða málefni hafa verið sett í brennidepil. Mér fannst það strax liggja þráðbeint við að gera umfjöllun um velferð barna og heimila hátt undir höfði. Liður í því var afar vel heppnuð ráðstefna sem efnt var til í byrjun september um Lanzarote saminginn og forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Þá var einnig haldin ráðstefna um fjölskyldustefnur á Norðurlöndunum og velferð barna 5. september síðastliðinn. Færri komust að en vildu en til að mæta þeim sem ekki komust að var sent út beint frá báðum þessum ráðstefnum á Netinu og ég bendi einnig á að upptökurnar eru aðgengilegar áhugasömum á vef velferðarráðuneytisins.

Góðir gestir.

Það er ekki hægt að halda ræðu á Barnaverndarþingi án þess að nefna Barnahús á nafn – sem er kannski eitt þekktasta hús á Íslandi. Það er þó ekki vegna íburðarins, heldur vegna starfseminnar sem þar fer fram og hefur orðið mörgum þjóðum að fyrirmynd sem úrræði fyrir börn sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri misnotkun eða ofbeldi. Barnahúsið okkar hefur fyrir löngu fest sig í sessi og sannað gildi sitt sem leið til þess að samhæfa vinnu þeirra aðila sem koma að rannsókn og meðferð mála, tryggja börnum viðeigandi greiningu og meðferð og stuðla að því að þessi erfiðu mál séu unnin eins og kostur er með þarfir og hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Nú styttist óðum í að Barnahús flytji í stærra og betra húsnæði. Þörfin fyrir það er brýn, eins og sjá má í nýútkominni ársskýrslu Barnaverndarstofu þar sem fram kemur að fjöldi rannsóknarviðtala í Barnahúsi tvöfaldaðist árið 2013 frá fyrra ári.

Það er draumur minn að til framtíðar litið muni Barnahús ekki aðeins sinna þeim börnum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi heldur einnig líkamlegu ofbeldi. Þörfin er svo sannarlega fyrir hendi, eins og UNICEF dró svo vel fram í skýrslunni Staða barna á Íslandi árið 2011 með afar vönduðum og trúverðugum hætti. Á grundvelli viðamikilla upplýsinga sem þar voru birtar komust skýrsluhöfundar að þeirri niðurstöðu að ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi er ofbeldi.

Til að ná árangri í forvörnum gegn ofbeldi þarf að vinna á breiðum grundvelli. Þess vegna óskaði ég eftir því við ráðherra mennta- og menningarmálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins að við myndum sammælast með yfirlýsingu um markvissar aðgerðir og víðtækt samráð til að vinna gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Sérstök áhersla er þar lögð á aðgerðir gegn ofbeldi í garð fatlaðs fólks á öllum aldri og öðrum berskjölduðum hópum. Samstarfsyfirlýsing þessa efnis liggur nú fyrir og verður undirrituð á næstu dögum.

Þessar áherslur munu svo endurspeglast í þeim þingsályktunum sem ég mun leggja fram á þessu þingi en þær eru framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, málefnum innflytjenda og nýrri jafnréttisáætlun.

Ég nefni líka hér að tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd verður lögð fram líkt og lög gera ráð fyrir, en slíka áætlun ber að gera í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Það felast tækifæri í þingsályktunum til þess að koma góðum málum til leiðar og einnig að vekja umræðu um efni sem mikilvæg eru. Það á tvímælalaust við um barnavernd.

Góðir gestir.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn er þekkt afrískt máltæki sem margir hafa gripið til þegar þeir vilja leggja áherslu hversu flókið og margslungið verkefni það er að koma barni heilu og höldnu til manns.

Ég geri þetta að lokaorðum mínum hér í dag – og lýsi jafnframt ráðstefnuna setta.

- - - - - - - - - - - - -

(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum