Hoppa yfir valmynd
18. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 18. september 2014

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Kæru landsfundargestir, það gleður mig að sjá ykkur hér við upphaf tveggja daga fundar þar sem fjallað verður um hinar mörgu hliðar jafnréttis í samfélaginu.

Dagskráin framundan sýnist mér einstaklega áhugaverð og ekki síður líkleg til að verða skemmtileg. Í málstofu á eftir verður dregið fram hvernig það eru jafnan tvær hliðar á öllum málum. Ef einhver er beittur misrétti – býr þá ekki einhver annar við forréttindi? Það er full ástæða til að ræða um það. Það er líka ástæða til að muna að jafnrétti er fyrir alla, ekki bara konur og kalla – líkt og Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar ræður um á eftir – og ég ætla einnig að víkja að nokkrum orðum hér á eftir.

Síðar í dag verður haldin vinnusmiðja þar sem tekist verður á við spurningu sem varðar ekkert minna en hvernig við getum breytt gangi sögunnar? Þetta á svo sannarlega erindi á fundinn hér í dag – þar sem allir fundarmenn eiga sameiginlegan viljann til þess að breyta samfélaginu og sögunni með því að vinna að jafnrétti. Viðfangsefni vinnusmiðjunnar snýst um verkefnið Reconesse Database en það byggist á því að rétta hlut kvenna í sögubókum og miðlum nútímans. Anna Gyða Sigurgísladóttir og Berglind Sunna Stefánsdóttir, tvær af upphafskonum verkefnisins, munu opna augu þátttakenda fyrir áhrifamætti frásagna í baráttunni fyrir auknu jafnrétti í heiminum. Gleymum því ekki að framtíðin er í okkar höndum, líkt og Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra mun minna fundarmenn á í erindi síðar á landsfundinum.

Og meira um dagskrána: Fundargestir munu fræðast um hvernig evrópskur jafnréttissáttmáli getur gagnast íslenskum sveitarfélögum, við fáum innsýn í alls konar verkefni í jafnréttismálum, velt verður vöngum yfir samvinnu sveitarfélaga í jafnréttismálum og hvað sé raunhæft og líklegt til árangurs í þeim efnum. Síðast en ekki síst verður fjallað um kynjaða fjárhagsáætlunargerð – nokkuð sem ég tel að muni skipta geysilega miklu máli í öllu jafnréttisstarfi takist að innleiða þessa aðferðafræði við gerð fjárhagsáætlana almennt.

Ekki veit ég hvað Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur mun upplýsa í erindi síðar í dag um ósýnileika kvenna í afbrotum – en ég er viss um að það verður áhugavert. Í ritinu Sisters in Crime eftir Fredu Adler frá árinu 1975 spáði höfundurinn því að hlutdeild kvenna í glæpum myndi aukast og nálgast hlut karlanna eftir því sem staða kynjanna í samfélaginu yrði áþekkari, ekki síst með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði. Þessi spá hefur ekki gengið eftir – og fyrir því eru eflaust margar ástæður. Við fræðumst um þetta hjá Helga á eftir.

Erindi Helga leiðir aftur huga minn að því hvort og þá hvaða áhrif aukin þátttaka karla í umönnun barna og ábyrgð á heimilisrekstri kann að hafa á viðhorf þeirra og hegðun almennt? Ég veit ekki í hvaða mæli þetta hefur verið kannað en þarna liggja örugglega ýmis áhugaverð rannsóknarefni.

Eins og margoft hefur verið talað um vakti Ísland athygli og aðdáun með öðrum þjóðum þegar lögum um fæðingarorlof var breytt þannig að hluti fæðingarorlofsins var sérmerktur hvoru foreldri um sig og sá réttur hafður óframseljanlegur milli foreldra. Þetta hreyfði svo sannarlega við körlunum og hlutur þeirra í fæðingarorlofi jókst ár frá ári, allt fram að efnahagshruninu þegar þessi þróun snérist illu heilli við og hlutur feðra í orlofstökunni tók að rýrna. Við eigum einhverjar rannsóknir sem sýna að karlar tóku í kjölfar breyttra fæðingarorlofslaga virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Lögin breyttu samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði og höfðu tvímælalaust áhrif á karlímyndina þar sem mjúkir menn og umhyggjusamir feður tóku að ryðja sér til rúms.

Ég hef áhyggjur af þessari afturför í fæðingarorlofstöku karla og óttast að hún geti leitt til bakslags í jafnréttismálum takist ekki að snúa þróuninni við. Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof er að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og auðvelda jafnframt barnafólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Fæðingarorlof er styttra hér á landi en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Flestir eru sammála um að tímabært sé að gera breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni – en það er umdeilt þegar þarf að forgangsraða hvort lengja beri fæðingarorlofið eða hækka frekar greiðslurnar. Þetta verður viðfangsefni fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga í starfshópi sem ég hef ákveðið að skipa og mun gera fljótlega.

Góðir gestir.

Það er engin tilviljun að Ísland hefur ár eftir ár verið í fyrsta sæti þegar mat hefur verið lagt á stöðu jafnréttis kynja meðal þjóða heims og að Norðurlandaþjóðirnar skora jafnan hátt á þessum lista. Þessar þjóðir hafa lengi litið á jafnrétti kynja sem eftirsóknarvert markmið og mikilvæga forsendu vaxtar og velferðar í samfélaginu. Norrænu þjóðirnar hafa átt með sér formlegt samstarf um jafnréttismál í fjörutíu ár og tvímælalaust grætt á því allar saman. Framan af var áherslan á jafnrétti að lögum – síðar meir tók vinnan að snúast um leiðir til að jafna skiptingu valda, umönnunar og áhrifa. Við erum sammála um að konur og karlar skuli hafa sömu réttindi, skyldur og tækifæri á öllum sviðum og að samfélagið sé laust við kynbundið ofbeldi.

Þrátt fyrir góðan árangur bíða enn erfið verkefni frekari úrlausna. Þar nefni ég helst launamun kynja, kynbundið náms- og starfsval, kynbundið ofbeldi og síðast en ekki síst nauðsyn þess að leiða drengjum og körlum fyrir sjónir að jafnrétti kynja í orði og á borði er ekkert síður þeirra hagsmunamál en kvenna.

Stjórnvöld – hvort sem í hlut eiga ríki eða sveitarfélög geta haft mikil áhrif á þróun jafnréttismála með ákvörðunum, aðgerðum og stefnu sinni. Sveitarfélögin gegna veigamiklu hlutverki bæði sem atvinnurekendur og veitendur þjónustu þegar kemur að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þannig geta sveitarfélögin haft töluverð áhrif með því að skipuleggja þjónustu sína með þarfir vinnandi fólks í huga. Sveigjanlegri þjónusta auðveldar launafólki samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og stuðlar að fjölskylduvænna samfélagi. Einnig er mikilvægt að sveitarfélögin tryggi að stofnanir og fyrirtæki í þeirra eigu fari að lögum og setji sér aðgerðarbundnar jafnréttisáætlanir þar sem unnið er að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Sveitarfélögin eiga að vera fyrirmyndarvinnuveitendur með virka jafnréttisstefnu sem auðveldar starfsfólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Ríkið ber ekki síður en sveitarfélögin mikla ábyrð með stefnu sinni og aðgerðum. Við höfum séð áhrifin sem breytt löggjöf um fæðingarorlof hafði í för með sér. Í þeim fólst opinber stefnumótun sem tók tillit til kynjajafnréttis og hefur tvímælalaust aukið lífsgæði í samfélaginu. Með þessa ábyrgð í huga ákvað ég að hrinda af stað vinnu við mótun íslenskrar fjölskyldustefnu sem nú er komin vel á veg – og drög að þeirri stefnu verði birt til umsagnar fljótlega. Rauður þráður í þeirri stefnu verður að tryggja jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs og að jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum