Hoppa yfir valmynd
22. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2014

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, á ársfundi Alþýðusambands Íslands, 22. október 2014.

Forseti ASÍ, ágætu ársfundarfulltrúar.

Hartnær 100 ár eru liðin frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Margvíslegar framfarir átt sér stað frá þeim tíma sem hafa tryggt félagslegt öryggi okkar.

Eitt af þeim grundvallaratriðum sem leitt hafa til þessara framfara og mótað okkar góða samfélag er skipulag vinnumarkaðarins. Þar höfum við verið ásátt um að samtök atvinnurekenda og launafólks eigi að hafa gott svigrúm til að semja sín á milli um kaup og kjör á vinnumarkaði án afskipta stjórnvalda.

Mikil ábyrgð felst í ákvörðunum um kaup og kjör og kjarasamningar hafa mikla efnahagslega þýðingu fyrir afkomu heimilanna. Þessi skipan hefur reynst farsæl, bæði hér á landi og í nágrannaríkjum okkar.

Annað grundvallaratriði er þríhliða samstarf samtaka atvinnurekenda, samtaka launafólks og stjórnvalda um ýmis málefni, einkum þau er varða vinnumarkaðinn og félagsleg málefni. Við höfum öll hagsmuni af því að hægt sé að ná hagfelldri niðurstöðu fyrir allt samfélagið.

Þetta samstarf á að vera vettvangur skoðanaskipta þar sem aðilarnir hlusta hver á annan. Auðvitað eru menn ekki alltaf sammála um öll mál og þá ber að virða andstæð sjónarmið í þeirri viðleitni að ná sáttum á vinnumarkaðnum. Stundum tekst það, stundum þurfum við að sættast á málamiðlanir, stundum erum við ósammála um niðurstöðuna.

Það er ekki að ástæðulausu sem ég nefni þetta hér, því framundan eru viðræður um kjarasamninga.

Með samstilltu átaki þeirra aðila sem ég nefndi áðan hefur tekist að auka kaupmátt og koma verðbólgu niður fyrir markmið Seðlabankans. Það er ekki síst að þakka samningum félagsmanna ykkar þar sem launahækkunum var stillt í hóf en sérstaklega gætt að þeim sem fá laun samkvæmt lægstu töxtum. Samningar á opinbera markaðnum voru breytilegri – en almennur samanburður er erfiður vegna víðtækra skipulagsbreytinga sem þar eru boðaðar.  

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur spáð nærri þriggja prósenta hagvexti á Íslandi í ár og heldur meiri vexti árið 2015. Seðlabanki Íslands er jafnvel enn bjartsýnni.

Horfur í íslensku efnahagslífi eru góðar, en forsenda þess er stöðugleiki og ábyrg stjórn efnahagsmála. Miklu skiptir sú ábyrgð sem aðilum vinnumarkaðarins er falin við gerð kjarasamninga, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera.

Þessi ábyrgð er ekki eingöngu bundin við kjarasamningsborðið heldur snertir alla þá sem koma að einstökum launaákvörðunum á vinnumarkaði.

Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar frá í sumar er því spáð að launavísitalan hækki um 5,2% árið 2014 umfram meðaltal ársins 2013 en það er launaskrið sem verður ekki skýrt með launahækkunum nýlegra kjarasamninga einum saman. Þessu megum við hvorki gleyma né þreytast á að minna á. Við viljum ekki fá aftur ójöfnuð áranna fyrir hrun með ofurlaunum einstakra stétta.

Hér má enginn sofna á verðinum.

 

Ágætu ársfundargestir.

Það eru fleiri jákvæð teikn á lofti í íslensku efnahagslífi. Staðan á vinnumarkaði er góð og framtíðarhorfur bjartar. Atvinnuþátttaka eykst stöðugt en samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar jókst fjöldi ársverka um 3,4% árið 2013 og er það mesta hlutfallslega styrking frá árinu 2007. Starfandi fólki hefur haldið áfram að fjölga á fyrri hluta þessa árs.  Þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að draga muni enn frekar úr atvinnuleysi á þessu ári og að það verði í 3,5% árið 2015.

Annað grundvallaratriði til að tryggja stöðugleika er ábyrg stjórnun ríkisfjármála. Ég stóð því frammi fyrir erfiðri ákvörðun hér á sumardögum þegar ljóst var að þrátt fyrir góðar horfur í efnahagslífi þjóðarinnar þyrfti að skera niður í ríkisfjármálum. Þetta voru verulegar fjárhæðir sem sneru að málefnasviðum míns embættis og þá ber að hafa í huga að um 90% útgjaldanna felast í svoköllum tilfærslum sem ætlaðar eru til framfærslu fólks.

Ég er sannfærð um að það hafi verið rétt ákvörðun að verja það framlag til almannatrygginga sem fór í að draga til baka skerðingarnar sem lífeyrisþegar sættu í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Atvinnuleysistryggingakerfið var varið fyrstu árin eftir hrun enda fækkaði þá störfum og atvinnuleysi jókst gríðarlega. Aðstæður nú eru gjörbreyttar og því ákvað ég að leggja til styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins úr 36 mánuðum í 30 mánuði sem er nær því sem háttar annars staðar á Norðurlöndunum. Ég ákvað á móti að verja fjármagni til virkra vinnumarkaðsaðgerða og þá einnig að auka það fé sem Vinnumálastofnun hefur til að sinna þeim sem ekki teljast lengur tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, hvort sem þeir óska eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eða ekki.

Það sem styður mig enn frekar í þessari ákvörðun er að sífellt fækkar í hópi þeirra sem eru án atvinnu lengur en eitt ár.  Um 75% þeirra sem skráðu sig án atvinnu hjá Vinnumálastofnun árið 2013 voru á skrá skemur en tólf mánuði.

Í september síðastliðnum mældist atvinnuleysi meðal kvenna á landinu öllu ívið meira en hjá körlum og fleiri konur voru í hópi langtímaatvinnulausra. Á þessu þarf að taka sérstaklega.

Margt í samfélaginu hefur ólík áhrif á kynin og því mikilvægt að hafa kynjagleraugun ætíð við hendina. Ég legg í mínu starfi mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og finnst því einkar ánægjulegt hve mikið og gott samstarf er milli stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um jafnrétti. Vísa ég þá sérstaklega til aðgerðahóps um launajafnrétti kynja og samstarfs um gerð jafnlaunastaðals.

Hluti samvinnunnar felst í tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals sem nú stendur yfir með þátttöku tuttugu og eins fyrirtækis og stofnana. Einnig stendur aðgerðahópurinn að rannsókn á stöðu kynjanna á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Háskóla Íslands. Markmiðið er að safna upplýsingum sem geta nýst til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Ég legg einnig áherslu á árangursríkar leiðir til að brjóta upp kynskiptingu starfa og tel átak í þeim efnum óhjákvæmilegt. Konur virðast frekar taka áskorunum um að sækja í hefðbundin karlastörf en verr gengur að fá karlana til að söðla um.

Rannsóknir á kynbundnum launamun eru mikilvægur liður í því að útrýma honum og ég legg áherslu á að þær verði samræmdar svo sátt náist um mælingar og niðurstöður þeirra.

Ég vil minnast þess sérstaklega að nú eru 100 ár liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar, stofndagurinn var 25. október árið 1914. Meira en aldalöng barátta kynsystra minna hefur miklu skilað, þótt ekki sé jafnréttið enn í höfn – en ég spyr mig hvernig þær hafi séð framtíðina fyrir sér þegar þær stofnuðu félagið á sínum tíma. Löngu síðar, árið 1975, ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að það ár skyldi vera ár kvenna. Íslenskar konur gerðu því máli skil svo eftir var tekið um allan heim með víðfrægum aðgerðum 24. október 1975, svokölluðu kvennafríi. Þessi dagur er stofndagur Sameinuðu þjóðanna – en er og verður ætíð minnst hér á landi sem kvennafrídagsins og í hávegum hafður sem slíkur.

Ágætu ársfundargestir.

Gerð nýrrar vinnumarkaðsstefnu stendur nú yfir og jafnréttismálum verður haldið vel til haga í þeirri stefnumótun. Markmið slíkrar opinberrar stefnu er að stuðla að velferð fólks á vinnumarkaði og þá skiptir einnig máli að vel takist til við mótun nýrrar vinnuverndarstefnu sem er í bígerð. Meginmarkmið beggja stefna verður að tryggja virka þátttöku sem flestra á vinnumarkaði ævina á enda.

Ég hef jafnframt í hyggju að skipa sérstaka nefnd um framtíðarskipan fæðingarorlofs með fulltrúum atvinnulífsins, ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fæðingarorlof á Íslandi sé styttra en annars staðar á Norðurlöndunum og jafnframt sé hér lengsta bilið sem foreldrar þurfa að brúa frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst. Forsenda breytinga sé hins vegar að sem mest sátt og samstaða sé um leiðir til að ná sem best markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og auðvelda jafnframt barnafólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Innleiðing starfsgetumats er liður í endurskoðun almannatryggingakerfisins þar sem horft er til starfsgetu fólks frekar en vangetu. Í samvinnu þurfum við að meta hvernig við viljum breyta kerfinu heildstætt til að ná settum markmiðum. Við erum öll sammála um mikilvægi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar þótt ég hafi ekki farið dult með þá skoðun að núverandi kerfi sé of kostnaðarsamt og þá einkum í samanburði við aðra þjónustu sem ríkinu er ætlað að veita.

Árangur atvinnutengdrar starfsendurhæfingar er mikið til umræðu en spyrja má hver sé hinn raunverulegi árangur til framtíðar ef engin störf eru í boði fyrir fólk með skerta starfsgetu? Er atvinnulífið reiðubúið að axla þá samfélagslegu ábyrgð sem felst í því að ráða til starfa fólk með skerta starfsgetu? Svörin hafa verið á þá leið að nóg sé af hlutastörfum. Talsmenn öryrkja segja þá hins vegar mæta hindrunum á almennum vinnumarkaði þannig að þeir fái einfaldlega ekki störf. Þetta er afleitt og ég bendi á niðurstöður samráðsvettvangs um aukna hagsæld þar sem fram kemur að meirihluti öryrkja hefur bæði starfsgetu og starfsvilja en lítill hluti þeirra finnur sér starf.

 

Ágætu ársfundargestir.

Eitt af því sem ég hef látið mig varða eru húsnæðismál landsmanna, ekki hvað síst uppbygging á leigumarkaði. Í nýrri könnun varasjóðs húsnæðismála kemur fram að enn fjölgar sveitarfélögum sem telja skort á leiguhúsnæði hjá sér. Sama niðurstaða fékkst í könnun verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Aðeins eitt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu telur jafnvægi vera í framboði á leiguhúsnæði en það er Garðabær. Á sama tíma fjölgar fólki stöðugt á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði. Samkvæmt könnun sem ég stóð fyrir í sumar hjá sjö stærstu sveitarfélögunum eru um 1.800 manns á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og þorri þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Stuttu eftir að ég tók við starfi sem félags- og húsnæðismálaráðherra skrifaði ég grein þar sem ég minnti á samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins, ríkis og borgar frá 1965 um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, svokallað júlísamkomulag. Benti ég á að í aðdraganda erfiðra kjarasamninga gætu samningar af þessum toga reynst skynsamlegir.

Því ætti það ekki að koma neinum hér á óvart þegar ég segi að mér finnst vel koma til greina að þið sem hér sitjið væru þeir aðilar sem gætu stofnað og rekið leigufélög án gróðasjónarmiða fyrir félagsmenn ykkar. Þið hafið reynsluna, þið hafið árum saman rekið leigufélög í gegnum orlofssjóðina ykkar og þekkið hvernig á að standa að þessu.

Ég bið ykkur hér með, beint og án milliliða, að ígrunda þessi mál vel, ekki síst félögin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er hvað mest.

Ég minni einnig á að í allnokkrum kjarasamningum er fengin reynsla af samkomulagi ykkar við atvinnurekendur um framlög í fræðslusjóði, orlofssjóði og sjúkrasjóði og síðast árið 2011 náðist samkomulag við atvinnurekendur um að þeir greiddu rúman milljarð króna í starfsendurhæfingarsjóði á ári.

Því spyr ég: Hvers vegna ekki að semja um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir félagsmenn?

Í tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála eru gerðar ýmsar tillögur til að liðka fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til útleigu án hagnaðarsjónarmiða, til að lækka kostnað og auka hagkvæmni. Meðal annars er lagt til að vaxtaniðurgreiðslum lána verði breytt í stofnstyrki auk skattaívilnana til félaganna. Unnið er að fjórum frumvörpum í ráðuneytinu í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem verða lögð fram á þessu þingi sem ættu öll að geta stutt við þessar hugmyndir um nýtt júlísamkomulag.

Ég vil líka minna á það hér að lífeyrissjóðir veita lán til húsnæðiskaupa og í stjórnum þeirra sitja fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. Þar ætti að vera lag fyrir ykkur til þess að hafa áhrif á vaxtakjörin í þágu launafólks.

 

Ágætu ársfundargestir.

Ég hef tæpt hér á nokkrum atriðum sem eru mér hugleikin. Þar hef ég lagt áherslu á samvinnu samtaka atvinnurekenda, launafólks og stjórnvalda sem og ábyrgð aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga. Einnig hef ég gert grein fyrir þeirri leið sem ég taldi skásta af mörgum slæmum sem stóðu mér til boða í ríkisfjármálum þrátt fyrir þær góðu horfur sem eru framundan í efnahagslífi þjóðarinnar sem og atvinnulífi.

Ég vona að þið eigið framundan góðan ársfund. Það er ánægjuefni að sjá hvað jafnréttismálum eru gerð góð skil í dagskrá fundarins. Ég vonast einnig til að þið sjáið ástæðu til að fjalla um hvernig þið getið komið betur að húsnæðismálum félagsmanna ykkar í anda gamalla gilda verkalýðshreyfingarinnar.

Þegar við horfum til framtíðar verðum við jafnframt að líta reglulega um öxl til að nýta okkur fyrri reynslu og læra af fortíðinni. Það reynir ekki síst á okkur núna að finna árangursríkar leiðir til að viðhalda stöðugleikanum í samfélaginu og standa vörð um þau gildi sem við viljum að einkenni samfélag okkar. Við viljum tryggja að allir fái notið sín til fulls en styðja jafnframt við þá sem minna mega sín. Við berum öll samfélagslega ábyrgð sem okkur er skylt að axla til að byggja hér upp framtíðarsamfélag sem einkennist af lýðræði, samvinnu og réttlæti.

Þakka ykkur fyrir.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir.)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum