Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing í tilefni 150 ára afmælis Genfarsamninganna um átakasvæði og flóttafólk

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Kæru fundargestir.

Til hamingju með daginn. Það er rík ástæða til að minnast þess hvenær og hvers vegna fyrsti Genfarsamningurinn var gerður fyrir 150 árum og hve mikilvægur grunnur samningurinn og hugmyndafræðin að baki honum hefur verið í samningum þjóða síðar meir til að stuðla að vernd fólks á ófriðartímum sem ekki eru beinir þátttakendur átaka.

Jean-Henry Dunant hét maðurinn sem var upphafsmaður Genfarsáttmálans eftir að hafa beitt sér fyrir hjálparstarfi á vígvelli Heljarslóðarorystu árið 1859 við Solferínó á Ítalíu þar sem á einum degi særðust og féllu um 40.000 manns. Dunant lagði í kjölfarið fram hugmyndir um að stofnaðar yrðu óháðar hjálparsveitir sem nytu griða á vígvöllum. Á þeim grunni var Alþjóða Rauði krossinn stofnaður og árið 1864 var fyrsti Genfarsamningurinn fullgerður. Öll helstu stórveldi Evrópu staðfestu samninginn innan þriggja ára.

Genfarsáttmálinn var endurskoðaður eftir seinni heimsstyrjöldina, markmið samninganna voru ítrekuð og nýr samningur mótaður til verndar óbreyttum borgurum. Í árslok 2003 höfðu næstum öll ríki heims eða 191 ríki gerst aðili að Genfarsamningunum.

Góðir gestir.

Við megum vera stolt af þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland hefur undirritað og tekið þátt í að móta og þróa. Þeir hafa aukið samstöðu milli ríkja um ábyrgð á mannúð og óhlutdrægni í aðstoð. Þótt slíkir samningar komi af illri nauðsyn og okkur kunni að finnast styrjaldir nútímans tímaskekkja miðað við þá þekkingu sem mannfólkið býr yfir þá verða þeir til þess að fórnarlömb þessara skelfilegu styrjalda geta fundið málum sínum farveg og lífi sínu skjól.

Þjóðir sem búa við stöðugleika og frið hafa skyldum að gegna gagnvart fólki sem þarfnast verndar og skjóls vegna átaka og ofsókna. Ísland hefur efnt skyldur sínar í þessum efnum, m.a. með móttöku flóttafólks. Frá árinu 1956 höfum við boðið 560 flóttamönnum til landsins og viðhaft sérstök móttökuverkefni. Fram til 1996 stóð Rauði krossinn að móttökunni en frá þeim tíma hafa stjórnvöld sinnt þessu hlutverki og gert samninga við tiltekin móttökusveitarfélög og rauða krossinn um móttökuþjónustuna.

Flóttafólkið sem kemur til okkar hefur hlotið vernd vegna þeirra samninga sem gerðir hafa verið og fengið tækifæri til að hefja nýtt líf á Íslandi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið náið með íslenskum stjórnvöldum og kortlagt aðstæður á Íslandi m.t.t. þeirra hópa sem þurfa á vernd að halda. Íslensk stjórnvöld hafa frá 2005 tekið á móti hátt í 30 fjölskyldum sem samstanda af einstæðum mæðrum með börn sín, þá er sérstaklega horft til kvenna í neyð við móttökuna eða þess hóps sem flóttamannastofnunin kallar – women at risk. Íslenskt samfélag þykir almennt umburðarlynt gagnvart fjölbreyttum fjölskylduformum og hefur mótað innviði sína þannig að fjölbreytileikinn fær notið sín.

Annar viðkvæmur hópur sem við tökum nú á móti er hinsegin fólk. Mörg samfélög líta á samkynhneigð sem sjúkdóm og beita ýmsum aðferðum sem jafngilda pyntingum til að ,,lækna sjúkdóminn“. Samkynhneigð er víða bönnuð með lögum og almenn borgaraleg réttindi samkynhneigðra fótum troðin. Hinsegin fólk sætir ekki einungis ofsóknum og mannréttindabrotum í heimalöndum sínum heldur verður jafnvel einnig fyrir ofsóknum þar sem það hefur sótt um vernd. Réttindi hinsegin fólks hafa verið vel varin hér á landi og mikið áunnist í réttindabaráttu hópsins. Hér ríkir samfélagsleg sátt um að kyn og kynhneigð fólks sé þess einkamál. Íslensk stjórnvöld geta því lagt lóð sín á vogarskálarnar með því að taka á móti hinsegin flóttafólki og er sá hópur nú að hluta til kominn til landsins.

Auk þess höfum við samþykkt að taka á móti 13 einstaklingum frá Sýrlandi sem staðsettir eru í Tyrklandi. Þeir eru í ríkri þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og eru væntanlegir til landsins á næstu mánuðum.

Eins og fyrr segir hafa íslensk stjórnvöld áralanga reynslu af móttöku hópa flóttafólks og hafa viðhaft sérstakt verkferli í kringum hana. Annar hópur flóttafólks er okkur fremur nýr en það er sá hópur sem fær stöðu sína viðurkennda eftir hælismeðferð. Fram til ársins 2007 hafði aðeins einum hælisleitanda verið veitt staða flóttamanns hér á landi en frá þeim tíma hefur fjöldi þeirra einstaklinga vaxið og fjölgað fremur hratt frá árinu 2010. Frá þeim tíma og fram til dagsins í dag hafa um 85 einstaklingar fengið hér dvalarleyfi eftir hælismeðferð. Sú vernd er ekki síður tengd alþjóðasáttmálum en hjá öðru flóttafólki.

Velferðarráðuneytið hefur skoðað stöðu þessa hóps undanfarið og meðal annars gefið út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um móttöku og félagslega þátttöku þeirra sem fá hér leyfi eftir hælismeðferð eða á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þessar reglur staðfesti ég sl. vor en markmiðið með þeim er að jafna stöðu flóttafólks, hvort sem það kemur til landsins í hópum eða fær viðurkenningu á stöðu sinni eftir hælismeðferð.

Genfarsamningarnir snúa að vernd og virðingu og er mikilvægt að halda þeim einkunnarorðum áfram þegar kemur að þjónustu við hópinn í verndarríkinu. Sveitarfélögin og Rauði krossinn hafa staðið sig vel í að sinna þessu hlutverki og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með faglegri þróun í móttökuverkefnunum undanfarin ár.

Genfarsamningarnir, sem og aðrir alþjóðlegir samningar, minna okkur á hlutverk okkar til þess að vernda og gæta mannúðar í alþjóðlegu samhengi. Stríðsátök heimsins koma okkur við og við getum ekki horft aðgerðarlaus á þær hörmungar sem eiga sér stað svo víða í veröldinni.

- - - -  - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum