Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna um sveigjanleg starfslok og atvinnumál 50 ára og eldri

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Heil og sæl öll sömul og takk, þið sem standið að þessari ráðstefnu um málefni sem mörgum er hugleikið, enda mikilvægt og hefur á sér margar hliðar.

Heiti þeirra erinda sem flutt verða hér á eftir varpa ljósi á hvað þetta málefni er margþætt. Í fyrsta lagi er spurt; Má ég, get ég, vil ég? Eins og staðan er á opinberum vinnumarkaði hafa þessar spurningar enga þýðingu. Þegar fólk hefur náð 70 ára aldri má það ekki vinna þótt það sjálft bæði geti það og vilji.

Í öðru lagi er spurt; Kiknar vinnandi fólk undan ellibyrðinni? Þetta er nokkuð sem margir velta fyrir sér í ljósi mikilla breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum og áratugum, þar sem fólki á lífeyrisaldri fjölgar ört en fólki á vinnualdri fækkar.

Við þurfum nýja kynslóðasátt, og forseti ASÍ ræðir á eftir hvort slík sáttagjörð sé möguleg. Síðan skiptir svo sannarlega máli að vinnandi fólk fái notið sín í starfi, að vinnustaðir leggi sitt af mörkum til að stuðla að og viðhalda starfsánægju, ekki síst hjá þeim sem eru komnir á síðari hluta starfsævinnar og eins þarf að huga að því hvernig hægt er að bæta samkeppnisstöðu aldraðra á vinnumarkaðinum.

Öldruðum á Íslandi fjölgar hratt og fólk er almennt heilbrigðara nú en fyrir nokkrum áratugum. Fólk er meðvitaðra um gildi vinnunnar fyrir andlega og líkamlega líðan og það hlutverk sem vinnan veitir fólki. Eldra fólk býr oft yfir mikill reynslu sem hinir yngri búa ekki yfir í sama mæli og verðmæti vinnu eldra fólks er því mikið. Í ljósi alls þessa tel ég afar mikilvægt að skoða möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka og þá einkum í þeim tilgangi að fjölga fólki á vinnumarkaði með aukinni atvinnuþátttöku fólks á efri árum.

Fyrir um það bil ári síðan skipaði ég nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga sem starfar undir forystu Péturs H. Blöndal alþingismanns. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar helstu hagsmunasamtaka, meðal annars Landssambands eldri borgara. Við skipun nefndarinnar var áherslan lögð á tvo meginþætti, annars vegar innleiðingu nýs starfsgetumats sem komi í stað núgildandi örorkumats - hins vegar fjárhæðir lífeyrisgreiðslna og  kosti þess og galla að hækka lífeyrisaldur í áföngum, samhliða því að auka möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka.

Samkvæmt gildandi reglum getur fólk frestað töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins til 72 ára aldurs og hækkar lífeyrir um 0,5% fyrir hvern frestaðan mánuð eða 6% á ári. Lífeyrisaldur er nú 67 ár og fresti menn töku lífeyris til 72 ára aldurs getur aldurshækkunin því numið allt að 30%.

Í endurskoðunarnefndinni hefur meðal annars verið rætt um að heimila ætti að fresta töku ellilífeyris frá almannatryggingum til 80 ára aldurs í stað 72 ára aldurs nú. Auk þess hefur verið rætt um hækkun hlutfalls fyrir hvern mánuð sem lífeyristöku er frestað og er það rökstutt þannig að viðkomandi taki lífeyri skemur en ella og eigi að vera jafnsettur óháð því hvenær taka lífeyris hefst.

Ég tel þessar hugmyndir áhugaverðar og að við eigum að gera allt sem hægt er til að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks og að því verði gert kleift að vinna sem lengst. Er rétt að minnast á það hér að sumarið 2013 voru gerðar breytingar á almannatryggingalögum geta eldri borgarar nú unnið sér inn um 110.000 kr. á mánuði án þess að það hafi áhrif á lífeyrisgreiðslur þeirra frá almannatryggingu. Þetta frítekjumark var stórhækkað sumarið 2013 í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar auk þess sem ýmsar aðrar breytingar voru gerðar sem leiddu til hækkunar lífeyrisgreiðslna til eldri borgara.

Ég tel einnig afar mikilvægt að þær hugmyndir sem ræddar hafa verið á þessum vettvangi í tengslum við endurskoðun almannatryggingalaga verði í samræmi við þær hugmyndir sem ræddar hafa verið í nefnd fjármálaráðherra um endurskoðun lífeyrismála. Sú nefnd mun einnig hafa fjallað um sveigjanleika núverandi lífeyrissjóðakerfis og rætt ýmsar hugmyndir um frekari sveigjanleika þess.

Í nefndinni um endurskoðun almannatryggingalaganna hafa einnig verið ræddar tillögur um að opinberir starfsmenn þurfi ekki að láta af störfum fyrr en þeir verða 75 ára í stað 70 ára nú. Vilja sumir jafnvel ganga enn lengra enda höfum við fjölmörg dæmi um fullfríska einstaklinga sem hefur verið gert að láta af störfum fyrir aldurs sakir án þess að séð væri að neinar aðrar ástæður gætu legið þar að baki. Er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að fyrir hendi þurfa að vera hlutastörf og  sveigjanleiki af hálfu atvinnurekenda í samskiptum við starfsmenn sem vilja halda áfram störfum en jafnframt minnka starfshlutfallið. 

 

Góðir gestir.

Ísland hefur lengi haft algjöra sérstöðu meðal vestrænna þjóða vegna mikillar og almennrar atvinnuþátttöku – og alveg sérstaklega vegna mikillar atvinnuþátttöku kvenna og eldra fólks. Þetta hefur tvímælalaust verið mikill styrkur fyrir íslenskt samfélag, og mikilvægt fyrir fámenna þjóð eins og okkur. Raunar er atvinnuþátttaka fólks með örorku eða langvarandi sjúkdómi líka mun meiri hér á landi en annars staðar því samkvæmt könnun Þjóðmálastofnunar frá árinu 2010 var atvinnuþátttaka í þessum hópi rúm 61% en um 43% að meðaltali í OECD ríkjunum.

Ég er ekki í vafa um að við eigum áfram að byggja á þessari sérstöðu og halda áfram að virkja vilja og getu fólks til vinnu eins og kostur er. Við þurfum á því að halda og ef rétt er að málum staðið ætti það að fela í sér ávinning fyrir alla.

Það þekkja það flestir hvað vinnan er stór hluti af lífi hvers og eins, hvað hún er ríkur þáttur í sjálfsmyndinni og hvað hún skiptir flesta miklu máli félagslega. Vinnan snýst um svo miklu meira en verkefnin sem starfið felur í sér og launin fyrir að leysa þau af hendi.

Þótt margir ljúki starfsævinni sáttir og reiðubúnir fyrir starfslok, held ég að þeir séu miklu fleiri sem gætu vel hugsað sér að vera lengur á vinnumarkaði, en myndu gjarna vilja minnka við sig starfshlutfall eða breyta að einhverju leyti um verkefni.

Miðað við meðalævi Íslendinga getur fólk reiknað með að lifa í um 20 ár eftir að lífeyrisaldri er náð – og meðalævin heldur áfram að lengjast.

Fólk lifir ekki aðeins lengur, heldur lifir það við betri heilsu fram á efri ár en áður. Lífeyrisaldurinn og reglur um starfslok hafa ekki tekið mið af þessu, en ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að breytingar séu tímabærar.

Breytingar í þessum efnum mega hins vegar ekki eingöngu snúa að lögum og reglum. Atvinnulífið þarf að taka virkan þátt í breytingunum eins og ég nefndi áðan með auknum sveigjanleika. Endur- og símenntun þarf að taka mið af þörfum þeirra eldri og eflaust þarf sitthvað fleira að koma til.

Erlendar rannsóknir og kannanir hafa leitt í ljós að aldurstengd mismunun viðgengst á vinnumarkaði en mér er ekki kunnugt um að sýnt hafi verið fram á slíka mismunun hér með óyggjandi hætti, þótt vísbendingar séu fyrir hendi.

Við eigum það hins vegar nokkuð vel staðfest, bæði í hérlendum og erlendum könnunum, að eldra fólk er upp til hópa jákvæðara í garð vinnu sinnar en yngra fólk og það er sjaldnar frá vinnu vegna veikinda.

Í ljósi staðreynda og stórkostlegra breytinga sem orðið hafa á lífslíkum, meðalaldri og heilsufari – og breytinga sem orðið hafa á eðli starfa og aðstæðum á vinnumarkaði yfirleitt, þá hlýtur að vera orðið tímabært að endurskoða þau aldursmörk sem nú er almennt miðað við.

 - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum