Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynningarfundur um Þróunarsjóð í málefnum innflytjenda

Fundarstjóri,

Góðir fundargestir,

Verið velkomin til kynningarfundar um Þróunarsjóð innflytjendamála. Dagskráin er tvíþætt: Við munum hlýða á erindi styrkþega fyrri ára þar sem þau gera grein fyrir verkefnum sínum og hins vegar verða áherslur stjórnvalda við styrkúthlutun árið 2015 kynntar.

Þróunarsjóðurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2007 og rúmlega eitt hundrað verkefni hafa hlotið styrk úr sjóðnum. Sjóðurinn hefur 10 milljónir króna til ráðstöfunar árlega – og við hverja úthlutun leggja stjórnvöld áherslu á ákveðna þætti sem þau telja ástæðu til að styrkja sérstaklega.

Mér er sérstök ánægja að greina frá því að fyrsta lögbundna framkvæmdaáætlunin í málefnum innflytjenda verður lögð fyrir Alþingi á vorþingi. Áherslur Þróunarsjóðsins byggja á framkvæmdaáætluninni en í henni er lögð áhersla á kosti fjölmenningarsamfélagsins og virka þátttöku innflytjenda og félagasamtaka í samfélaginu. Framkvæmdaáætlunin er sett saman úr úr fjórum stoðum sem snúa að samfélaginu, málefnum fjölskyldna, menntun og vinnumarkaði. Framkvæmdaáætlunin nær til áranna 2015-2018 og tilgreinir 24 verkefni á málefnasviðum þriggja ráðuneyta. Gerð er tillaga að margvíslegum verkefnum sem meðal annars snúa að mælingum á viðhorfum samfélagsins til innflytjenda og fjölmenningar,  greiningu og aðgerðum gegn brottfalli nemenda af erlendum uppruna í framhaldsskólum landsins og veitingu hvatningarverðlauna til þeirra sem gera vel í málefnum innflytjenda svo einhver dæmi séu nefnd.

Umsagnarferli vegna framkvæmdaáætlunarinnar lauk fyrr í þessari viku og barst fjöldi umsagna. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þær athugasemdir og breytingatillögur sem sendar voru inn.

Þróunarsjóðurinn leggur í ár áherslu á eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi er líkt og árið 2014 lögð áhersla á að styðja við félög sem hafa það að markmiði að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu og vinna að hagsmunamálum þeirra.

Ég tel afar mikilvægt að stjórnvöld efli möguleika innflytjenda og félagasamtaka þeirra til þátttöku í samfélaginu. Projekt Polski er gott dæmi um slík samtök en hér á eftir hlýðum við einmitt á erindi þeirra um verkefnið Þróun á sambandi milli pólskrar og íslenskrar menningar sem hlaut styrk úr sjóðnum á síðasta ári. Grasrótarsamtök eins og Projekt Polski eru nauðsynleg og geta áorkað miklu með því að vekja athygli á því sem betur má fara, bera fram tillögur til úrbóta og veita stjórnvöldum aðhald.

Í öðru lagi er lögð áhersla á nærþjónustu við innflytjendur á öllum stigum stjórnsýslunnar og í samfélaginu almennt. Ríkisstofnanir, sveitarfélög og fagfólk á vettvangi velferðarþjónustu þurfa að aðlaga sig að fjölmenningarsamfélaginu og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að opna fyrir aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu. Fagfólki sem vinnur á sviði innflytjendamála hafa borist ábendingar um að innflytjendum finnist kerfið flókið og að upplýsingagjöf fyrst eftir komuna til landsins sé ábótavant.

Fagfólk hefur einnig kallað eftir aukinni fræðslu og þjálfun og viljum við með þessari áherslu opna fyrir verkefni á þessu sviði. Ég sé einnig sóknarfæri í því að opinber þjónusta og félagasamtök vinni saman að bættri þjónustu.

Í þriðja lagi er lögð áhersla á að styrkja þróunarverkefni sem snúa að því hvernig fjölmenning eykur félagsauð og styrkir innviði samfélagsins. Orð hafa árif. Ljóst er af atburðum síðustu vikna í Evrópu og umræðu síðustu daga á Íslandi að mikilvægt er að hafa augu og eyru opin og hlúa vel að samfélagsumræðunni. Ef við leyfum meiðandi og niðurlægjandi tón í umræðunni fer hann að þykja sjálfsagður. Fræðsla er besta vopnið gegn fordómum og félagsleg virkni innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins er fyrirbyggjandi og kemur í veg fyrir að ákveðnir þjóðfélagshópar einangrist.

Fjórða og síðasta áherslan snýr að því að styrkja rannsóknir og þróunarverkefni um aukin tækifæri innflytjenda til endurmenntunar og starfstengds náms sem og verkefni sem stuðla að bættri stöðu innflytjenda á vinnumarkaði.

Mikil atvinnuþátttaka innflytjenda hér á landi vakti athygli fyrir efnahagshrunið en þá mældist vart atvinnuleysi meðal þeirra. Í kjölfar hrunsins jókst atvinnuleysi mikið og nú þegar dregið hefur úr því sitja innflytjendur eftir þó vissulega hafi ástandið meðal þeirra lagast nokkuð.  Brýnt er að auka möguleika innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði, m.a með áherslu á endurmenntun og þjálfun en ekki síst með aðgerðum sem gera innflytjendum auðveldara fyrir að nýta menntun sína og finna störf við hæfi.

Góðir gestir.

Verkefnin eru mörg, krefjandi og spennandi.  Ég hef nú kynnt þær megináherslur sem lagðar eru til grundvallar við val á verkefnum og ákvörðun um styrki þessa árs.

Ég vonast til þess að fundurinn í dag veiti fólki innblástur að hugmyndum um góð og gagnleg verkefni í þágu samfélagsins alls.

Takk fyrir. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum