Hoppa yfir valmynd
5. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Landsfundur Landssambands eldri borgara

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
5. maí 2015

Heilir og sælir, virðulegu eldri borgarar og góðir landsfundargestir.

Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna ber ég sem félags- og húsnæðismálaráðherra ábyrgð á málefnum aldraðra, að undanskildum málum sem varða hjúkrunar- og dvalarheimili, dagvistun og Framkvæmdasjóð aldraðra sem heyra undir heilbrigðisráðherra.

Samkvæmt forsetaúrskurðinum fer ég líka með húsnæðismál, málefni félagsþjónustu sveitarfélaga, vinnumál og lífeyrismál þar sem undir falla lífeyristryggingar og eftirlaun til aldraðra. Það er augljóst fyrir hvern sem skoðað forsetaúrskurðinn að málefnin sem heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra varða flest allt fólk í landinu á einn eða annan máta og þar eru aldraðir ekki undanskildir. –  Fólk með ólíkar þarfir og mismunandi aðstæður.

Landssamband eldri borgara hefur verið óþreytandi í kjarabaráttu síns fólks og verið öflugt í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það var ekki erfitt að taka undir með kröfum eldri borgara um afnám skerðinga síðustu ríkisstjórnar. Þar hafði verið seilst djúpt í vasa aldraðra til að mæta vanda ríkissjóðs og því fannst mér mikilvægt að draga þessar skerðingar til baka eins fljótt og auðið var.

Landssamband eldri borgara hefur tekið virkan þátt í stefnumótun stórra mála á verkefnasviði ráðuneytisins, eins og í nefndum um almannatryggingar, velferðartækni, skipan húsnæðismála og í Velferðarvaktinni. Aukið samstarf ráðuneytisins og Landssambandsins varð tilefni til að endurskoða framlög ráðuneytisins til LEB og voru þau tvöfölduð, þ.e. úr fimm milljónum í tíu. Ég met mikils gott samstarf við Landssamband eldri borgara og efast ekki um að með samvinnu getum við komið góðum málum til leiðar. Um leið vil ég líka nota þetta tækifæri til að þakka Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, formanni landssambandsins sérstaklega fyrir samstarfið sem hefur verið einkar ánægjulegt.

Góðir gestir.

Ég þykist vita að þið hafið hug á að heyra svolítið um gang mála varðandi endurskoðun laga um almannatryggingar í nefndinni sem Pétur H. Blöndal alþingismaður stýrir og ætla að fara aðeins yfir stöðuna og áherslur í starfinu.

Meginmarkmið nefndarinnar er að einfalda regluverk almannatrygginga þannig að lífeyrisþegar og fólk almennt skilji réttindi sín, en svo er alls ekki í dag. Bætur almannatrygginga hafa margs konar frítekjumörk sem auka flækjustig kerfisins. Í nefndinni er rætt um að öll slík frítekjumörk verði aflögð í því skyni að einfalda regluverkið. Hugsunin er sú að almannatryggingar greiði einn lífeyri til ellilífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Þessi lífeyrir lækki síðan um 45% af samanlögðum tekjum viðkomandi.

Framfærsluuppbót almannatrygginga, sem tekin var upp árið 2008 og er ætlað að koma til móts við þá sem hafa mjög lágar eða jafnvel engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga, er góðra gjalda verð. Hún hefur aftur á móti þann mikla ókost í för með sér að hún skerðist um krónu á móti hverri krónu sem einstaklingurinn hefur í tekjur. Með breytingunni myndi uppbótin aðeins skerðast um 45% tekna og krónu á móti krónu skerðingin væri afnumin.

Samhliða þessu hefur verið rætt talsvert um hækkun ellilífeyrisaldurs úr 67 árum í 70 ár í þrepum. Ekki liggur fyrir endanleg útfærsla á þessu en ljóst er að koma verður í veg fyrir að fyrirsjáanleg útgjaldaaukning í þessum málaflokki verði óviðráðanleg. Undanfarna ártugi hafa dánarlíkur lækkað og lífslíkur hækkað um allan heim. Sífellt fleiri lifa lengur og eru jafnframt heilsuhraustari.  Hækkun á lífeyrisaldri er þó vandmeðfarin, því fólk hefur réttmætar væntingar um að geta farið á lífeyri við ákveðinn aldur. Slík hækkun þarf því að gerast í mörgum litlum skrefum og á löngum tíma. Enn fremur þarf að huga vel að því hvort ákveðinn aðlögunartími sé ekki nauðsynlegur í þessu efni frá samþykkt laga þar til þau öðlist gildi.

Þótt hækkun ellilífeyrialdurs verði ekki endilega vinsæl hjá öllum þarf að hafa að hugfast að slík hækkun mun létta á almannatryggingum og geta komið að einhverju leyti til móts við aukinn tilkostnað við þá kerfisbreytingu sem talin er felast í þeim tillögum sem ræddar hafa verið í nefnd Péturs Blöndal.

Í tengslum við þetta verið viðraðar hugmyndir um sveigjanleg starfslok. Megininntakið er að heimilt verði að fresta töku lífeyris hjá almannatryggingum til 80 ára aldurs gegn hækkun lífeyris. Er það talið endurpegla viðhorfsbreytingu í afstöðu til loka starfsævinnar og gildi þess að geta unnið lengur en núverandi starfslokaaldur segir til um. Skilningur á gildi vinnunnar fyrir andlega og líkamlega líðan fer vaxandi og þá er horft til verðmætis vinnu eldra fólks og þeirrar reynslu sem það býr yfir.

Fleira mætti telja sem upp hefur komið í umræðu um endurskoðun almannatryggingalaganna, t.d. að starfslokaaldur opinberra starfsmanna hækki úr 70 í 75 ár. Hvað sem öðru líður þá er það mikilvægt að löggjöfin sé í takt við tíðarandann hverju sinni og að því er nú unnið. Þessi vinna er vandasöm og hefur tekið tíma. Nú styttist í að nefndin skili skýrslu sinni og í framhaldi af því þarf að vinna tillögunum brautargengi, ekki bara í ríkisstjórn og á Alþingi heldur meðal þjóðarinnar allrar.

Eitt er það málefni sem reglulega kemur til umræðu en það eru greiðslur fólks fyrir búsetu á hjúkrunarheimilum og svokallað vasapeningafyrirkomulag. Nú hefur um skeið verið unnið að tillögum í ráðuneytinu sem miða að því að breyta þessu þannig að aldraðir njóti meira sjálfræðis. Byggt er á því að einstaklingar greiði milliliðalaust fyrir alla þjónustu sem þeir fá á hjúkrunarheimilum, aðra en heilbrigðisþjónustu og aðra umönnun. Greiðslufyrirkomulagið yrði þannig tvíþætt, þar sem annars vegar væru daggjöld ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og umönnun en einstaklingarnir myndi greiða fyrir almenna framfærslu að öðru leyti. Að auki er svo gert ráð fyrir húsaleigukostnaði sem tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu viðkomandi. – Ég bind vonir við að hægt verði að taka upp breytt kerfi áður en langt um líður en til umræðu er að prófa það fyrst sem tilraunaverkefni í ljósi þess að þetta er umtalsverð breyting sem þarf að vanda vel til.

Góðir gestir.

Öldruðum fjölgar hratt um allan heim og aldurssamsetning þjóða breytist. Íslendingar 70 ára og eldri eru nú rúmlega 29.000. Eftir tuttugu ár verða þeir um tvöfalt fleiri. Þetta er ekki vandamál – heldur er þetta staðreynd sem taka þarf mið af við þróun samfélagsins og forgangsröðun verkefna.

Við þurfum að snúa opinberri umræðu um málefni aldraðra frá vandamálum að lausnum. Samhliða þurfum við að sinna stefnumótun sem tekur mið af staðreyndum og raunhæfum tækifærum. Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda, sama hver veitir hana.

Við þurfum þjónustu í samræmi við þarfir notenda. Það sem við þurfum ekki – en höfum í of miklum mæli – er þjónusta sem er hólfuð niður í lokuð box með merkimiðum og aðgangsstýringu eftir því hver veitir þjónustuna, fremur en eftir þörfum notendanna. Það má líkja þessu fyrirkomulagi við skipurit sem segir okkur að svona sé þjónustan og notendur skuli laga sig að því – í stað flæðirits sem lýsir þjónustuferli frá A – Ö og hvernig þjónustan er aðlöguð þörfum notendanna.

Fyrir fáum áratugum þótti eðlilegt og sjálfsagt að eldra fólk flytti inn á stofnun gæti það ekki auðveldlega séð um sig sjálft að mestu eða öllu leyti. Aldraðir voru hlutfallslega fáir og því var eflaust ekki horft í kostnaðinn sem af þessu hlaust á sama hátt og nú. Það var heldur ekki mikið rætt um hvort þetta væri raunverulega það sem fólkið sjálft vildi eða hvort einhverjar aðrar leiðir væru mögulegar og æskilegar.

Eftir að hafa loksins spurt, vitum við nú að aldraðir vilja ekki flytja á hjúkrunarheimili eigi þeir kost á góðri heimaþjónustu og geta búið við öryggi heima hjá sér. Skipulag þjónustu og veiting hennar tekur í sívaxandi mæli mið af þessu og ég held að flestir séu sammála um að þetta er betra og einnig hagkvæmara ef vel er að þessu staðið. Þótt ég segi að þjónustan eigi að vera hagkvæm á ég ekki við að það eigi að velja ódýrustu leiðirnar á kostnað gæða. Með því köstum við krónum fyrir aura og í því felst sóun ekkert síður en í því að beina fólki í dýrari úrræði en það þarf á að halda.

Ég tel engan vafa á því að við þurfum að samþætta þjónustu. Árið 2004 hófst vinna við að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun í Reykjavík, þrátt fyrir að ábyrgðin væri enn skipt milli ríkis og borgar. Þótt samþættingin gengi hægt komu kostirnir fljótt í ljós. Því var ákveðið að stíga skrefið til fulls með sameiningu. Reykjavíkurborg tók að sér rekstur heimahjúkrunar og til varð heildstæð þjónusta við fólk í heimahúsum undir einum hatti.

Samþætt þjónusta er betri -  og fram á það hefur verið sýnt með mælingum að þjónusta við fólk í heimahúsum í borginni hefur batnað eftir að heimahjúkrunin og heimaþjónustan var sameinuð – og sennilega kom það engum á óvart.

Góðir gestir.

Eins og ýjaði að í upphafi er ekki laust við að mér finnist stundum full langt gengi í því að flokka menn og málefni í ákveðin hólf – sem gerir það að verkum að yfirsýn skerðist, hætta skapast á þröngsýnni nálgun og við verðum að einhvers konar þrælum eigin skipulags sem aftur dregur úr hugmyndaauðgi og skapandi lausnum. Við þurfum að rífa okkur út úr þessu, horfa fram á vegin og sjá tækifærin sem alls staðar eru ef að er gáð. Ef við grípum þau mun okkur vel farnast.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum