Hoppa yfir valmynd
20. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kyn, starfsframi og laun - Staða karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði

Morgunverðarfundur, 20. maí 2015 kl. 08.00 – 10:00 á Grand Hótel Reykjavík

Eygó Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir,

Verið öll velkomin á morgunverðarfund aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Hér verða kynntar niðurstöður rannsóknaverkefna aðgerðahópsins – annars vegar um launamun kynjanna og hins vegar um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Við sem hér erum vitum að margir samverkandi þættir hafa áhrif á kynjajafnrétti. Sterk kvennahreyfing og mikil samstaða íslenskra kvenna um nauðsynlegar þjóðfélagslegar umbætur og breytingar á karllægri samfélagsgerð hafa skipt sköpum um framþróun jafnréttismála hér á landi – tæp 40 ár eru frá baráttufundi íslensku kvennahreyfingarinnar á Lækjartorgi árið 1975 og á næsta ári verða 55 ár liðin frá því að fyrstu lögin um launajöfnuð kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi.  Þó margt hafi áunnist er enn tilefni til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, vinna að launjafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum.

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti hefur meðal annars það hlutverk að samræma rannsóknir, tryggja uppsprettu nýrra hugmynda og miðlun nýrrar þekkingar á sviði launajafnréttismála.  Þessi nýja þekking er forsenda stefnumótunar því hún mun undirbyggja tillögur aðgerðahópsins til ráðherra um framkvæmdaáætlanir um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs annars vegar og hins vegar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval. Þekking er undirstaða þess að við getum mótað stefnu og framkvæmt verkefni sem miða að réttlátu samfélagi sem tryggir konum og körlum sömu möguleika í lífinu.

Jafnrétti kynjanna – eða öllu heldur skorturinn á því – hefur margvíslegar birtingarmyndir og eins og áður sagði hafa margir samverkandi þættir áhrif á stöðu kvenna og karla. Staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval, verkaskipting á heimilum, fæðingarorlof, möguleikar kvenna og karla á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, völd og áhrif og mismunandi starfsþróunarmöguleikar eru meðal þeirra þátta sem móta ólíka stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.  Jafnréttismálin eru heldur ekki hagsmunamál annars kynsins eins og stundum má ætla af umræðunni. Jafnrétti kynjanna á að vera og er stórmál og eykur lífsgæði jafnt karla sem kvenna og það er mikilvægt að öllum sé þetta ljóst.

Við getum verið sammála um að of fáir karlar hafa tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttunni en reynslan af fæðingarorlofslögunum og nýjar rannsóknir sýna þó að karlar auka hlut sinn í umönnun barna og á sviði heimilisstarfa. Við vitum einnig að stuðningur almennings og atvinnurekenda við fæðingarorlofskerfið og lög um kynjakvóta frá 2013 hefur aukist mikið – það sýnir að lagasetning getur breytt lífsseigum viðhorfum og stöðluðum hugmyndum um hlutverk kvenna og karla – lagasetning og aðgerðir móta viðhorf og því óþarfi að bíða þess að þau breytist með tímanum. Að þessu sögðu er nauðsynlegt að stefnmótun í málaflokknum sé heildstæð og tryggi framfarir á öllum þeim sviðum sem hér hafa verið nefnd.

Á næstu dögum lýkur störfum nefnd, sem ég skipaði í september 2014, sem unnið hefur að mótun tillögu að vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála. Megintilgangur stefnumótunarinnar er að stuðla að velferð þeirra sem eru þátttakendur á vinnumarkaði og að tryggja virka atvinnuþátttöku sem flestra í því skyni að auka samkeppnishæfni Íslands. Jafnframt hefur nefndin kannað þörf fyrir sértækar vinnumarkaðsaðgerðir til að skapa störf í samræmi við menntun. Jafnrétti á vinnumarkaði, þar með talið kynjajafnrétti, hefur verið leiðarljós í starfi nefndarinnar.

Ég mun á næstunni leggja fram þingsályktun um stefnu í málefnum fjölskyldunnar þar sem meðal annars er fjallað um umönnun barna og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.  Hvað viðkemur fæðingarorlofsmálum þá kveður stefnan á um að unnar verði tillögur um hvernig ná megi markmiðum laganna, um  að tryggja barni samvistir við báða foreldra, verði sem best náð á sama tíma og foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Tryggja þarf að röskun á tekjum heimila verði sem minnst þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi til að annast börn sín. Jafnframt verði skoðað hvernig tryggja megi samfellu í umönnun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur, þar með talið hvernig megi lögleiða rétt barna til leikskóladvalar.

Ég hef nú þegar brugðist við þessum tillögum með því að skipa starfshóp um mótun tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum hér á landi.

Skipan fæðingarorlofsmála er ekki síst mikilvæg í ljósi þess að nýjar tölur sýna að fæðingum fer fækkandi á Íslandi eins og annars staðar á Vesturlöndum.  Miðað er við að frjósemi þurfi að vera 2,1 barn á ævi hverrar konu til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið en árið 2013 var hlutfallið komið niður í 1,93 börn samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.  Í kjölfar efnahagsþrenginganna sem hófust hér á landi haustið 2008 þyngdist fjárhagur margra barnafjölskyldna þar sem gríðarlegar breytingar áttu sér stað, svo sem óöryggi á vinnumarkaði, kaupmáttur lækkaði og skuldir heimilanna jukust. Gera má ráð fyrir að margar fjölskyldur standi frammi fyrir því að ekki sé fjárhagslegt svigrúm til barneigna, meðal annars hafa hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi lækkað en þær greiðslur eru vafalaust hluti af því sem fólk lítur til þegar barneignir eru skipulagðar.

Kynjaskipting starfa á íslenskum vinnumarkaði er enn mjög mikil og það er áhyggjuefni. Konur vinna í ákveðnum störfum sem fáir karlar sinna og öfugt. Talnaefni skýrslna aðgerðahópsins sýnir þó jákvæðar breytingar en í dag er mun algengara en áður að ungar konur velji hefðbundnar karlagreinar eins og verkfræði og raungreinar og konum hefur fjölgað verulega í stétt lækna, lögfræðinga og presta. Á hinn bóginn skila karlar sér í mjög litlum mæli í greinar eins og hjúkrunarfræði, félagsráðgjöf eða leikskólakennarafræði og hérlendis er hlutfall karla af vinnuafli í umönnunarstörfum lægra en á hinum Norðurlöndunum.  Af þessu má ljóst vera að staðalímyndir um karla og konur virðast enn ráða miklu um námsval ungmenna sem síðar hefur áhrif á starfsval og atvinnuþátttöku og hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir jafnrétti á vinnumarkaði, til dæmis hvað varðar launamyndun, möguleika einstaklinga á starfsframaþróun og lífeyrisgreiðslur til karla og kvenna. Það er því mikið þjóðhagslegt hagsmunamál að vinna að auknu jafnrétti á vinnumarkaði.

Góðir gestir,

Rannsóknir sýna að stór hluti launamunar kynjanna er innbyggður í hugarfar okkar og væntingar.  Hefðir og félagsmótun geta leitt til þess að störf karla og karlastétta séu meira metin en störf kvenna. Vanmat á einkum við um kennslu- og umönnunarstörf og önnur störf sem áður voru unnin inni á heimilum. Þá byggist hið rótgróna viðhorf um að eðlilegt sé að karlar hafi hærri laun en konur á þeirri gömlu hefð að karlar séu fyrirvinnur heimilisins. Þessi viðhorf eru ekki í samræmi við veruleika dagsins í dag og þau þarf að uppræta.

Aðgerðahópur um launajafnrétti hefur tekið eftir miklum áhuga karla á því að auka hlut sinn í hefðbundnum kvennastörfum og að vera virkir þátttakendur í því starfi sem miðar af því að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað.

Ég nefni þetta hér vegna þess að ég tel að við stöndum frammi fyrir mjög áþekkum vandamálum þegar kemur að því að fjölga einstaklingum af því kyni sem er í minnihluta á starfssviði A eða B. Okkur hefur gengið erfiðlega að eyða kynbundnum launamun og þar hallar vissulega á konur. En við skulum velta fyrir okkur fleiri hliðum málsins en þeirri fjárhagslegu. Þetta snýst líka um jöfn tækifæri karla og kvenna til að mennta sig og velja sér starfsvettvang. Þessi hefðbundnu kvenna- og karlastörf sem við sjáum eins og hverja aðra staðreynd í ýmsum greinum eru hamlandi fyrir bæði kynin og ganga gegn hagsmunum samfélagsins.  

Rannsóknir sýna að fólki líður betur á blönduðum vinnustöðum þar sem ekki er litið á einstaklinga sem fulltrúa annars kynsins. Í störfum verkfræðinga, lögreglunnar, félagsráðgjafa eða hjúkrunarfræðinga svo nefnd séu dæmi, er þjónusta við almenning ríkur þáttur starfsins og snertir því bæði karla og konur. Því er mikilvægt og í rauninni sjálfsögð krafa að sú þjónusta taki mið af báðum kynjum og að starfsumhverfið sé aðlaðandi vettvangur fyrir einstaklinga óháð kyni.

Tími aðgerða er runnin upp.

Á liðnum árum hefur verið ráðist í ýmis átaksverkefni til að jafna kynjahlutföll í hinum ýmsu starfsgreinum. Átaksverkefni ein og sér duga ekki til, heldur þarf stefnumótun, framtíðarsýn og markvissar aðgerðir sem byggja á langtímaáætlunum til að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað. Gerð slíkrar langtímaáætlunar er verkefni aðgerðahóps um launajafnrétti og rannsóknarverkefnin eru eingöngu byrjunin á því verkefni. 

Takk fyrir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum