Hoppa yfir valmynd
8. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norræn ráðstefna gegn staðalmyndum og kynferðislegri áreitni innan hótel-,veitinga og ferðaþjónustunnar

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Málþingsgestir,

Kæru norrænu gestir verið innilega velkomin til Íslands.

Ég þakka fyrir það tækifæri að ávarpa ráðstefnu norrænu starfsgreinasambandanna sem snýr að baráttunni gegn staðalmyndum og kynferðislegri áreitni innan hótel-, veitinga-, og ferðaþjónustunnar.

Ég þakka ykkur fyrir að efna til þessarar ráðstefnu.

Ferðaþjónustan er mikilvæg og vaxandi atvinnugrein hér á landi líkt og á hinum Norðurlöndunum. Heildarfjöldi starfandi í ferðaþjónustutegndum greinum var 21.600 á árinu árið 2014 og hafði þeim sem starfa í ferðaþjónustutegndum greinum fjölgað um tæp 40% frá árinu 2010 á meðan starfandi fólki fjölgaði alls um rúmlega 6% á sama tíma. Greinin skapar flest störf fyrir bæði kynin en þó fjölgar konum hlutfallslega mun hraðar í þessari atvinnugrein.  Mikilvægi þess að huga að öryggi og vinnuaðstæðum fólks í þessum greinum liggur því beinlínis í augum uppi.  

Dagskráin framundan er áhugaverð og mun ráðstefnan án efa verða til þess að auka umræður og þekkingu á þessu brýna viðfangsefni sem fléttir saman jafnréttismál og vinnuvernd.  Þekkingarsköpun sem felst í rannsóknum, kortlagningu og umræðu er forsenda þess að við getum mótað stefnu og framkvæmt verkefni sem miða að réttlátu samfélagi sem tryggir konum og körlum sömu möguleika í lífinu. Þá er mikilvægt að stjórnvöld eigi náið samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir sem varða jafnréttismál á vinnumarkaði og vinnuverndarlöggjöfina. 

Jafnrétti kynjanna – eða öllu heldur skorturinn á því – hefur margvíslegar birtingarmyndir og margir samverkandi þættir hafa áhrif á stöðu kvenna og karla.  Staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynbundið náms- og starfsval, verkaskipting á heimilum, fæðingarorlof, möguleikar kvenna og karla á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, völd og áhrif og mismunandi starfsþróunarmöguleikar eru meðal þeirra þátta sem móta ólíka stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.  Jafnrétti kynjanna á að vera og er stórmál vegna þess að aukið kynjajafnrétti eykur lífsgæði jafnt karla sem kvenna og það er mikilvægt að öllum sé þetta ljóst.

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðar um launajafnrétti sem starfað hefur frá því í byrjun 2013 hér á Íslandi birti fyrir nokkru tvær skýrslur um launamun kvenna og karla og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Á meðan kynbundinn launamunur fer minnkandi er enn mikill munur á atvinnutekjum karla og kvenna og mikil kynjaskipting starfa á íslenskum vinnumarkaði er áhyggjuefni.

Talnaefni skýrslnanna sýnir þó jákvæðar breytingar en í dag er algengara en áður að ungar konur velji hefðbundnar karlagreinar eins og verkfræði og raungreinar og konum hefur fjölgað verulega í stétt lækna, lögfræðinga og presta. Á hinn bóginn skila karlar sér í mjög litlum mæli í greinar eins og hjúkrunarfræði, félagsráðgjöf eða leikskólakennarafræði og hérlendis er hlutfall karla af vinnuafli í umönnunarstörfum lægra en á hinum Norðurlöndunum. 

Af þessu má ljóst vera að staðalmyndir um karla og konur ráða enn miklu um námsval ungmenna sem síðar hefur áhrif á starfsval og atvinnuþátttöku og hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir jafnrétti á vinnumarkaði, til dæmis hvað varðar sveigjanleika, atvinnuleysi, launamyndun, möguleika einstaklinga á starfsframaþróun og lífeyrisgreiðslur til karla og kvenna.  Það er því mikið þjóðhagslegt hagsmunamál að vinna að auknu jafnrétti á vinnumarkaði.

Staðalmyndir kynja, sem hér eru til umræðu, er oft erfitt að greina en við vitum þó að þær endurspegla algengar hugmyndir um útlit og eiginleika fólks og fjölmargar rannsóknir staðfesta að slíkar hugmyndir leiða til mismununar á vinnumarkaði.  

Mismunun á grundvelli staðalmynda birtist meðal annars í því að einstaklingur af því kyni sem er í minnihluta á vinnustað mætir óviðeigandi hegðun sem orkar neikvætt á viðkomandi. Rannsóknir eru til um nokkrar atvinnugreinar þar sem kynjuð vinnustaðamenning er áberandi og reynist kvenfólki erfið – til dæmis í blaðamennsku, lögreglustörfum og hugbúnaðargeiranum. Hún birtist oft í kynferðislegri áreitni og einelti. Karlmenn í störfum sem gjarnan eru kölluð kvennastörf fara heldur ekki varhluta af kynbundnum fordómum samfélagsins þó oft sé mismununin með öðrum formerkjum.  Þannig upplifa karlar í umönnunarstörfum ákveðna fordóma og „sexuliseringu“, þeim er jafnvel legið á hálsi að hafa afbrigðilegar hvatir gagnvart börnum, þeir eru álitnir samkynhneigðir hver svo sem kynhneigð þeirra er - af þeim sökum upplifa þeir sig oft einangraða eða á jaðrinum. Karlmenn í „kvennastörfum“ hafa því tilhneigingu til að nota karlmennsku sína til að fjarlægast starfsmannahópinn, með því að sérhæfa sig eða fara í stjórnunarstörf.  Í framhaldi af þessu er nauðsynlegt að skoða hvort kynferðisleg áreitni gagnvart konum og sexualisering gagnvart körlum leiði til brottfalls þeirra úr störfum og atvinnugreinum þar sem kyn þeirra er í minnihluta.

Rannsóknirnar sem hér hefur vísað til sýna fram á að kynjaskipting vinnumarkaðarins er samfélagslega í svo föstum skorðum að hún virðist geta staðið af sér efnahagshrun og mikinn samdrátt á vinnumarkaði.  Mikið atvinnuleysi meðal karlmanna á almennum markaði í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi varð til dæmis ekki sjálfkrafa til þess að þeim fjölgaði  í störfum sem í menningunni eru álitin kvenlæg.

Þessi hefðbundnu kvenna- og karlastörf sem við sjáum eins og hverja aðra staðreynd í okkar samfélagi eru hamlandi fyrir bæði kynin og draga úr sveigjanleika vinnumarkaðarins.  Við vitum einnig að tímabundin átök í þá veru að brjóta upp kynjaskiptingu starfa skila einungis árangri til skamms tíma. Við verðum að viðurkenna skaðleg áhrif fordóma og staðalmynda og huga að langtíma stefnumótun eigi árangur að nást.

Um nokkurt skeið hafa legið fyrir í velferðarráðuneytinu drög að nýrri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.  Frumvarp sem veitir reglugerðinni lagastoð og fjallar um breytingar á vinnuverndarlöggjöfinni liggur nú fyrir Alþingi.  Þegar misbrestur verður á að skapa gott og jákvætt vinnuumhverfi með tilliti til félagslegra og andlegra þátta aukast líkur á margs konar vanda sem getur meðal annars aukið vanlíðan hjá starfsfólki og jafnvel leitt til heilsutjóns til lengri eða skemmri tíma, dregið úr starfsánægju, skert framleiðni og aukið starfsmannaveltu en framangreindar aðstæður eru neiðkvæðar fyrir hvaða vinnustað sem er.

Góðir gestir,

Auk þess að vera ráðherra jafnréttismála gegni ég embætti samstarfsráðherra Norðurlandanna og vil ekki láta hjá líða að minnast þess að norrænt samstarf á sviði jafnréttismála fagnaði í fyrra 40 ára afmæli. 

Við megum vera stolt af norrænu samstarfi og þeirri staðreynd að hvergi mælist kynjajafnrétti meira en á Norðurlöndum.  Samstarfið hefur aukið þekkingu okkar, samráð og samvinnu. Það hefur skilað árangri og fært okkur nær markmiðinu um norræn samfélög velferðar, réttlætis og lýðræðis. En þrátt fyrir þann árangur eru ærin verkefni framundan á sviði jafnréttismála og með það í huga göngum við ákveðin til verks. Lærdómurinn af jafnréttisstarfi er sá að kynjajafnrétti er ekki og hefur aldrei verið sjálfsagður hlutur, það hefur orðið að berjast fyrir því jafnt og þétt – jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér og sá árangur sem náðst hefur er afrakstur langrar baráttu utan sem innan stjórnmálanna.

„Burt með fordóma og annan eins ósóma“ sungu íslensku Pollapönkararnir svo eftirminnilega í júrósvisjón árið 2014. Ég hvet alla til að taka undir þann söng um leið og við ryðjum úr vegi hindrunum sem felast í valda- og samfélagskerfi sem fyrir löngu er orðið úrelt. 

Ryðjum jafnframt úr vegi hindrunum hugarfarsins   vinnum að lausnum og framförum með jákvæðu og uppbyggilegu hugarfari.

Takk fyrir.

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum