Hoppa yfir valmynd
24. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins 2015

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Komið þið sæl öll sömul, starfsfólk Tryggingastofnunar og aðrir góðir gestir.

Verkefni Tryggingastofnunar ríkisins eru mörg og flókin og samofin velferð og afkomu fjölda landsmanna. Þótt verkefnin gangi jafnan sinn vana gang þarf stofnunin engu að síður að vera vel á verði, fylgjast með þróun mála og gæta eins og kostur er að hagsmunum viðskiptavina sinna og tryggja þeim bestu mögulega þjónustu.

Samkvæmt starfsáætlun Tryggingastofnunar fyrir árin 2014 – 2015 eru þar meðal áherslna stofunarinnar að tryggja betur réttmæti greiðslna frá Tryggingastofnun og er það vel. Samkvæmt fjárlögum ársins 2015 mun stofnunin greiða út tæplega 90 milljarða króna í bætur til einstaklinga samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þessi áhersla er því mikilvæg. Málið snertir öll starfssvið stofnunarinnar og nauðsynlegt er að tryggja góða leiðsögn og kynningu á réttindakerfinu. Ákvarðanatökuferillinn þarf að vera skýr, verklag og vinnubrögð rétt og réttindi ákvörðuð samkvæmt lögum. Tryggja þarf að greiðslur skili sér til þeirra sem eiga tilkall til þeirra og stofnunin þarf alltaf að leitast við að greiða út réttar bætur, á réttum tíma til réttra aðila. Stofnunin þarf á öflugu eftirliti að halda og hafa eftirlitsheimildir hennar nýlega verið stórauknar með lagabreytingum í því skyni að stuðla að því að bætur séu greiddar út samkvæmt þeim lögum og reglum sem við búum við hverju sinni.

Öllum má vera ljóst að Tryggingastofnun hefur lyft grettistaki í rafrænum samskiptum og verið þar í fararbroddi. Nýlega barst mér plagg sem inniheldur m.a. stefnu stofnunarinnar í rafrænum samskiptum og hvað sé framundan í  þeim efnum. Þetta er afar mikilvægt þar sem stofnunin hefur samskipti við mikinn fjölda einstaklinga og einnig við fjölmargar stofnanir og aðila eins og lífeyrissjóði, banka og fyrirtæki, auk erlendra samskipta. Mínar síður hafa verið í stöðugri þróun og sífellt fleiri bætast í hóp þeirra sem nýta sér rafræna þjónustu stofnunarinnar. Tryggingastofnun leggur áherslu á öfluga rafræna þjónustu við einstaklinga og fagaðila. Ávinningur af auknum rafrænum samskiptum eru m.a. sjálfsafgreiðsla viðskiptavina TR, aukin miðlun upplýsinga og bætt aðgengi að þeim, minna skrifræði og innsláttur upplýsinga, réttari upplýsingar, aukin skilvirkni, hraði og hagkvæmni við úrvinnslu mála og samnýting upplýsinga.

Mér finnst ánægjulegt að sjá áform TR um að efla enn fekar einstaklingsþjónustuna á Mínum síðum og frekari þróun rafrænna samskipta, meðal annars með innleiðingu þjónustugáttar fyrir fagaðila þar sem þeir munu geta sent eyðublöð, vottorð og önnur gögn á rafrænan og öruggan hátt.

Því má bæta við að Tryggingastofnun tekur þátt í verkefni á vegum velferðarráðuneytisins um samnýtingu upplýsinga nokkurra stofnana til að auka skilvirkni og koma í vega fyrir misnotkun á velferðarkerfinu. Velferðarráðuneytið fól TR að leiða þetta verkefni sem unnið verður í samvinnu við Vinnumálastofnun, Sjúkratryggingar Íslands og sveitarfélögin.

Gert er ráð fyrir að Tryggingastofnun taki við nýju verkefni um næstu áramót sem felur í sér að annast greiðslu húsnæðisbóta. Um 15.400 heimili njóta nú húsaleigubóta en  gert er ráð fyrir að í nýju kerfi bætist við 2.500-3.500 heimili til viðbótar. Þetta er um 16-23% fjölgun miðað við núverandi kerfi.

Fólki á leigumarkaði hefur fjölgað ört en nú eru um 31.000 heimili á leigumarkaði.

Árið 2007 bjuggu rúm 15% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2013 var það hlutfall orðið næstum því 25%. Aukningin hefur verið einna mest meðal ungs fólks á aldrinum 25-34 ára, hjá einstæðum foreldrum og fólki í lægri tekjuhópum.

Leigjendum hefur fjölgað mest meðal þeirra sem hafa lægstar tekjur, þ.e. þeim sem eru í lægstu tekjutíundinni. Þannig voru 9,5% heimila á almennum leigumarkaði á lægsta tekjubilinu árið 2007 en árið 2013 hafði sú tala rúmlega þrefaldast í 28,9%.

Staða þessa hóps er erfið. Lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2013 leiddi í ljós að hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum er næstum fjórum sinnum hærra á almennum leigumarkaði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt áherslu á að bæta úr þessari erfiðu stöðu leigjenda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Það verður gert með því að auka stuðninginn við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga og jafna húsnæðisstuðning ríkisins vegna eignaríbúða, leiguíbúða og búsetuíbúða þannig að fólk eigi raunverulegt val á milli ólíkra búsetuforma.

Meginmarkmið frumvarpsins um húsnæðisbætur er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda sem og að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera óháð búsetuformi.  

Húsnæðisbótakerfið verður byggt upp á svipaðan hátt og lífeyriskerfið, þ.e. gert er ráð fyrir að umsækjendur og þeir sem njóti húsnæðisbóta áætli tekjur sínar, síðan fer fram endurreikningur og uppgjör bótanna þegar endanlegar tekjur liggja fyrir. Það er ekki að ástæðulausu að Tryggingastofnun var falin framkvæmdin en stofnunin hefur langa reynslu af slíku fyrirkomulagi. Undirbúningur er þegar hafinn í samstarfi við velferðarráðuneytið og ég efast ekki um að þessu mikilvæga verkefni mun reiða vel af hjá Tryggingastofnun.

Áætlað er að heildarútgjöld húsnæðisbótakerfisins verði um 6,6 mia.kr. á ári frá og með 2017 þegar lögin koma að fullu til framkvæmda en það er 46% árleg útgjaldaaukning miðað við útgjöld til almennra húsaleigubóta 2014.

Endurskoðun almannatryggingakerfisins.

Enn er unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í nefnd sem kennd er við formann hennar, Pétur Blöndal. Meginmarkmiðið er að einfalda regluverk almannatrygginga þannig að lífeyrisþegar og fólk almennt skilji réttindi sín, en svo er alls ekki í dag. Bætur almannatrygginga hafa margs konar frítekjumörk sem auka flækjustig kerfisins. Í nefndinni er rætt um að öll slík frítekjumörk verði aflögð í því skyni að einfalda regluverkið. Hugsunin er sú að almannatryggingar greiði einn lífeyri til ellilífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Þessi lífeyrir lækki síðan um 45% af samanlögðum tekjum viðkomandi.

Framfærsluuppbót almannatrygginga, sem tekin var upp árið 2008 og er ætlað að koma til móts við þá sem hafa mjög lágar eða jafnvel engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga, er góðra gjalda verð. Hún hefur aftur á móti þann mikla ókost í för með sér að hún skerðist um krónu á móti hverri krónu sem einstaklingurinn hefur í tekjur. Með breytingunni myndi uppbótin aðeins skerðast um 45% tekna og krónu á móti krónu skerðingin væri afnumin.

Samhliða þessu hefur verið rætt talsvert um hækkun ellilífeyrisaldurs úr 67 árum í 70 ár í þrepum. Ekki liggur fyrir endanleg útfærsla á þessu en ljóst er að koma verður í veg fyrir að fyrirsjáanleg útgjaldaaukning í þessum málaflokki verði óviðráðanleg. Undanfarna ártugi hafa lífslíkur fólks hækkað um allan heim. Sífellt fleiri lifa lengur og eru jafnframt heilsuhraustari. Hækkun á lífeyrisaldri er þó vandmeðfarin, því fólk hefur réttmætar væntingar um að geta farið á lífeyri við ákveðinn aldur. Slík hækkun þarf því að gerast í mörgum litlum skrefum og á löngum tíma. Enn fremur þarf að huga vel að því hvort ákveðinn aðlögunartími sé ekki nauðsynlegur í þessu efni frá samþykkt laga þar til þau öðlist gildi.

Þótt hækkun ellilífeyrialdurs verði ekki endilega vinsæl hjá öllum þarf að hafa að hugfast að slík hækkun mun létta á almannatryggingum og getur að einhverju leyti komið til móts við aukinn tilkostnað við þá kerfisbreytingu sem talin er felast í þeim tillögum sem ræddar hafa verið í nefnd Péturs Blöndal.

Í tengslum við þetta verið viðraðar hugmyndir um sveigjanleg starfslok. Megininntakið er að heimilt verði að fresta töku lífeyris hjá almannatryggingum til 80 ára aldurs gegn hækkun lífeyris. Er það talið endurpegla viðhorfsbreytingu í afstöðu til loka starfsævinnar og gildi þess að geta unnið lengur en núverandi starfslokaaldur segir til um. Skilningur á gildi vinnunnar fyrir andlega og líkamlega líðan fer vaxandi og þá er horft til verðmætis vinnu eldra fólks og þeirrar reynslu sem það býr yfir.

Fleira mætti telja sem upp hefur komið í umræðu um endurskoðun almannatryggingalaganna, t.d. að starfslokaaldur opinberra starfsmanna hækki úr 70 í 75 ár. Hvað sem öðru líður þá er það mikilvægt að löggjöfin sé í takt við tíðarandann hverju sinni og að því er nú unnið. Þessi vinna er vandasöm og hefur tekið tíma. Nú styttist í að nefndin skili skýrslu sinni og í framhaldi af því þarf að vinna tillögunum brautargengi, ekki bara í ríkisstjórn og á Alþingi heldur meðal þjóðarinnar allrar.

Í nefnd Péturs er einnig rætt um að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats. Í starfsgetumati er litið til getu einstaklinga til að vinna í stað þess að horfa til þess sem þeir geta ekki og á sama tíma leitast við að endurhæfa fólk til vinnu og koma sem flestum út á vinnumarkaðinn. Þetta er þýðingarmikið mál og eins og þið vitið alls ekki nýtt af nálinni, þar sem þessi áhersla var kynnt í skýrslu um endurskoðun örorkumats árið 2007. Höfundar þeirrar skýrslu töldu brýnt að breyta framkvæmd örorkumats og leggja stóraukna áherslu á endurhæfingarúrræði. Eins þyrftu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins að taka höndum saman um að stórefla fyrirbyggjandi aðgerðir sem til lengri tíma litið komi í veg fyrir ótímabæra skerðingu starfsorku.

Faghópur sem fjallaði um aðferðir við mat á starfshæfni skilaði skýrslunni Drög að starfshæfnismati í september 2009, en þau drög byggja á tillögum nefndarinnar frá árinu 2007.

Ég bind vonir við að nefnd Péturs Blöndal geti leitt hugmyndavinnu vegna starfsgetumats til enda svo nýtt kerfi verði að raunveruleika þar sem fyrst og fremst verður horft til getu einstaklinga til að vinna og afla sér tekna. Líta þarf á fyrirkomulag þessara mála hjá nágrannaþjóðum okkar og reynslu þeirra og einnig reynslunnar hér á landi sem byggst hefur upp hjá Virk-starfsendurhæfingarsjóði.

Ég vil þó halda því til haga að við sækjum engar töfralausnir til nágrannaþjóða í þessu máli, þótt við getum lært af reynslu þeirra. Við verðum að vanda til verka og gæta vel að því að nýtt kerfi verði hagstætt þeim sem ekki hafa fulla vinnugetu.

Flóknasta viðfangsefni endurskoðunar almannatryggingakerfisins lýtur að framfærslu einstaklinganna. Í nefnd Péturs hafa verið skoðaðar mismunandi leiðir í því sambandi en áhersla er lögð á að gera kerfið ekki of flókið – enda ómögulegt að mæla starfsgetu fólks með mikilli nákvæmni. Viljinn stendur til þess að hverfa frá því flækjustigi sem við búum við í dag og skapa einfaldara og sanngjarnara kerfi. Það þarf að vera fjárhagslegur hvati til að auka starfsgetuna í nýju kerfi þannig að fólk sjái ávinning af starfi sínu, ekki bara fjárhagslegan heldur ekki síður félagslegan.

Atvinnurekendur hafa hlutverki að gegna, því aðbúnaður á vinnustað, sveigjanleiki og aðlögun getur skipt sköpum um hvort fólki með skerta starfshæfni sé unnt að gegna tilteknum störfum eða ekki. Það þarf enn fremur að tryggja það að til séu störf sem henta þeim hópi fólks sem býr við skerta starfsgetu.

Rétt er að taka fram að þegar nýtt kerfi kemur til framkvæmda er miðað við að þeir sem nú fá greiddar örorkubætur geti verið áfram í óbreyttu kerfi en standi til boða að koma inn í nýtt kerfi starfsgetumats kjósi þeir það frekar.

Góðir gestir.

Síðastliðið haust lagði ég fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um stjórnsýslu, þ.e. um Tryggingastofnun, hlutverk hennar, stjórn og forstjóra. Einnig er kveðið á um stjórnsýslukærur og nýja úrskurðarnefnd velferðarmála, lagt er til ákvæði um markmið laganna, sem er að mínu mati löngu tímabært og orðskýringum er bætt við. Þá er fjallað um gildissvið og hverjir njóti tryggingaverndar samkvæmt lögunum, lagðar eru til breytingar sem lúta að greiðslum bóta, réttarstöðu sambýlisfólks, greiðslum til fanga og til þriðja aðila, svo eitthvað sé nefnt.

Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að vinnusamningar öryrkja færist frá Tryggingastofnun til Vinnumálastofnunar. Það er ekki vegna þess að Tryggingastofnun hafi sinnt því verkefni illa, síður en svo, heldur vegna þess að þessi málaflokkur hefur svo mikil tengsl við vinnumarkaðinn að það þykir fara betur á því að hýsa hann hjá Vinnumálastofnun.  Síðast en ekki síst er lagt til að sá kafli laganna sem fjallar um slysatryggingar, falli brott, en samhliða þessu frumvarpi var lagt fram frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Verði frumvörp þessi að lögum mun meginefni laga um almannatryggingar því vera um lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum, sem felur í sér talsverða einföldun fyrir starfsfólk Tryggingastofnunar og viðskiptavini hennar.

Umfjöllun um frumvarpið er lokið í velferðarnefnd og vona ég að það takist að ljúka málinu fyrir þinglok. Fleiri mál sem varða Tryggingastofnun eru óafgreidd í þinginu, t.d. frumvarp um skipan úrskurðarnefndar velferðarmála sem gert er ráð fyrir að öðlist gildi um næstu áramót. Með því mun úrskurðarnefnd almannatrygginga verða lögð niður og hin nýja nefnd mun taka við hlutverki hennar. Ég bind einnig vonir við að unnt verði að ljúka því máli fyrir sumarleyfi.

Góðir gestir.

Það er alltaf nóg að snúast á stórri stofnun eins og Tryggingastofnun og við lifum á þeim tímum þegar tíðar breytingar eru hluti af samfélagslegum veruleika okkar. Stofnun eins og Tryggingastofnun er mjög næm fyrir margvíslegum breytingum, einfaldlega vegna þess að hún er lifandi þjónustustofnun sem verður að vera í takt við nútímann, alltaf. Þetta finnst mér Tryggingastofnun alla jafna takast býsna vel og fyrir það er ég ykkur þakklát.

Ég vil að lokum, góðir gestir, þakka forstjóra TR fyrir gott samstarf, ykkur starfsfólkinu fyrir vel unnin störf og sömuleiðis færi ég stjórn og formanni stjórnar mínar bestu þakkir fyrir þeirra störf.

Góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum