Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundur um landssamráð gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Eygló Harðardóttir á samráðsfundinum gegn ofbeldi
Eygló Harðardóttir á samráðsfundinum gegn ofbeldi

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Kæru gestir, ég býð ykkur öll velkomin á þennan mikilvæga fund þar sem formlega verður ýtt úr vör víðtæku samráði lykilaðila til að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu, hvaða nafni sem það nefnist.

Þetta starf er byggt á samstarfsyfirlýsingu sem ég tel til tímamóta – yfirlýsingu sem þrír ráðherrar undirrituðu þann 18. desember í fyrra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Eins og þið vitið eru það innanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra sem standa að baki yfirlýsingunni – og sú staðreynd ein og sér segir mikið um hve víða þarf að vera á verði gegn ofbeldi hvers konar – raunar á öllum sviðum samfélagsins.

Stundum er sagt að orð séu til alls fyrst – og ég hugsa að mörgum kunni að þykja það klisjukennt – en í tengslum við umræðu um ofbeldi held ég reyndar að þetta orðatiltæki sé mjög lýsandi.

Við þurfum ekki að fara mjög langt aftur í tímann til þess að sjá ákveðin svið ofbeldis sem aldrei voru rædd – aldrei færð í orð – eða klædd með orðum í búning sem gerði lítið úr alvarleikanum eða jafnvel snéri öllu á haus þar sem gerendur ofbeldisins voru nánast settir á stall en lítið gert úr þolendunum.

Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg misnotkun var helst ekki rædd, og alls ekki með því nafni, hvorki gegn fullorðnum né börnum. Kynferðisleg misnotkun barna var algjört tabú og gagnvart því ríkti algjör afneitun. Litið var svo á að hvorki drengir né karlmenn gætu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða misnotkun og einnig að konur gætu ekki verið gerendur. Karlar sem leituðu á konur gegn vilja kvennanna voru einfaldlega kvensamir og allt í lagi með það – og konurnar vildu þetta eflaust en vissu það bara ekki sjálfar! Nei þýddi já og svo framvegis.

Í þessum efnum hefur okkur svo sannarlega miðað í rétta átt, þ.e. að viðurkenna vandann og þar með nauðsyn þess að vinna gegn honum.

Ég ætla að tala meira um orð og orðnotkun, því það er mjög áhugavert í samhengi við alla ofbeldisumræðu. Það er til að mynda ekkert óskaplega langt síðan að einelti var ekki til sem hugtak og þar af leiðandi voru engir þolendur eineltis eða áætlanir til að sporna gegn því. Það sem við myndum núna kalla einelti var trúlega kallað stríðni eða kerskni, kannski ótuktarskapur en ef það var ekki þeim mun alvarlegra var áherslan frekar lögð á að málið væri fyndið og þolandinn sem tók gríninu illa var í besta falli einhver sem sagt var að auðvelt væri að stríða - eða álitinn og kallaður aumingi.

Í þessum efnum hefur okkur líka miðað í rétta átt, við höfum viðurkennt vandann og þar með nauðsyn þess að vinna gegn honum.

Það er raunar ótrúlegt að hugsa til þess hve samfélagið var lengi skeytingarlaust gagnvart kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri misnotkun og gagnvart einelti. Afneitun, tepruskapur, þekkingarskortur og jafnvel ákveðið miskunnarleysi í samfélaginu er það sem manni dettur í hug þegar horft er um öxl í þessu samhengi. Nú er flestum ljóst hve alvarleg þessi málefni eru og hve skelfilegar afleiðingar það getur haft á allt líf fólks þurfi það að sæta misnotkun, ofbeldi eða einelti eins og hér er til umræðu. Eflaust markar ofbeldi dýpst spor þegar börn eiga í hlut, en það er alltaf alvarlegt og við verðum að vinna gegn ofbeldi og afleiðingum þess á öllum sviðum samfélagsins, jafnt gagnvart börnum og fullorðnum, stúlkum og drengjum, konum og körlum.

Og áfram um orð. Hatursorðræða er til þess að gera nýtt hugtak sem við erum smám saman að öðlast betri skilning á hvað felur í sér og nálgast þannig sameiginlega skilgreiningu. Samstarfsyfirlýsing ráðherranna þriggja sem ég vísað til í upphafi tekur einnig til hatursfullrar orðræðu sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, svo sem vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns. Alvarleg áhrif hatursfullrar orðræðu er vandi sem ég held að sé smám saman að skýrast okkur og þar með eykst vitundin og viljinn til að vinna gegn háttsemi af því tagi.

Góðir gestir.

Ég leyfi mér að endurtaka að orð eru til alls fyrst í þeirri umræðu og þeim verkefnum sem hér eru til umfjöllunar. En orðin duga auðvitað ekki ein og sér. Þekking er algjörlega bráðnauðsynlegur grundvöllur fyrir markvissum aðgerðum til að sporna gegn ofbeldi af öllu tagi. Við þurfum að viðurkenna ofbeldi, við þurfum að hafa innsýn í hugarheim þeirra sem beita ofbeldi og við hvaða aðstæður ofbeldi er helst beitt – við þurfum upplýsingar um umfang ofbeldis, um afleiðingar ofbeldis – um viðkvæma hópa sem líklegri eru til að verða fyrir ofbeldi en aðrir og svo mætti áfram telja. Um allt þetta snýst landssamráðið gegn ofbeldi sem hér er formlega verið að ýta úr vör, þótt þegar hafi átt sér stað umfangsmikil vinna til þess að kortleggja þessi mál og skipuleggja samráðið, hverjir eigi að koma að því og hvað sé líklegt til að skila árangri.

Ég sagði áðan að eftir því sem samfélagið hefði viðurkennt ofbeldi sem vandamál hefði okkur miðað í rétta átt því þar með hefði verði viðurkennd nauðsyn þess að berjast þessari samfélagsógn. Margt hefur verið gert í þessum efnum – það hafa verið unnar mikilvægar rannsóknir á umfangi og afleiðingum ofbeldis og það hefur verið ráðist í margvísleg verkefni og komið á fót starfseiningum og ákveðnu verklagi til að takast á við ofbeldismál.

Þar má til dæmis nefna Barnahús og Neyðarmóttöku vegna nauðgana, verkefnið Karlar til ábyrgðar sem er meðferðararúrræði fyrir karla sem beitt hafa ofbeldi en hefur nú verið víkkað út og nær einnig til kvenna undir nýja heitinu Heimilisfriður og ég nefni einnig geðdeildir Landspítalans og sjúkrahúsins á Akureyri í þessu samhengi. Þá er ótalið afar mikilvægt starf félagasamtaka sem hafa verið frumkvöðlar, ýtt úr vör og sinnt þjónustu sem hefur reynst ómetanleg fórnarlömbum ofbeldis, ekki síst konum og mæðrum með börn sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldis eða annars konar líkamlegu ofbeldi, en nú er sjónum líka í auknum mæli beint að ofbeldi gegn fötluðu fólki, fólki af erlendum uppruna og eins að körlum og drengjum sem þolendum.

Gefið hefur verið út fræðsluefni fyrir fagstéttir sem líklegar eru til að mæta þolendum ofbeldis í störfum sínum – sem ég veit að hefur reynst vel og verið mikil eftirspurn eftir.

Okkur miðar í rétta átt – og eftir því sem þekkingin eykst sjáum við betur hvernig best er að nálgast ofbeldisvandann sem verkefni og viðfangsefni. Það sýnir sig æ betur hve samráð og þverfaglegt samstarf er mikilvægt til að ná árangri og við höfum nú þegar reynslu af þónokkrum verkefnum sem sýna þetta svo ekki verður um villst.

Ingibjörg Broddadóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, ætlar að ræða um nokkur slík verkefni hér á eftir. Ég aftur á móti ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni – en vil að lokum lýsa ánægju minni og bjartsýni vegna þessa fundar sem hér er að hefjast – ég er viss um að hann er upphafið að stórstígum framförum í meðferð ofbeldismála og aðgerðum til að draga úr ofbeldi í samfélaginu og vinna gegn alvarlegum afleiðingum þess.

Þakka ykkur fyrir og það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum