Hoppa yfir valmynd
4. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir,

Á ári hverju tengjum við á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi með alþjóðlegu sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið hefst á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum þann 25. nóvember og lýkur á alþjóðlega mannréttindadeginum þann 10. desember.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka Jafnréttistofu og Aflinu fyrir að eiga frumkvæði að þessu málþingi um þetta mikilvæga málefni sem varðar okkur öll.

Ofbeldi í nánum samböndum, heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi eru mannréttindabrot sem brjóta gegn grundvallarfrelsi einstaklinga. Sem aðili að ýmsum alþjóðlegum mannréttindasamningum er íslenskum stjórnvöldum skylt að virða, vernda og uppfylla mannréttindi. Hér má nefna sem dæmi Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálann sem lögfestur var hér á landi árið 2013 en þar er kveðið á um rétt barna til æsku og lífs án ofbeldis. Mikilvægasta forvörnin felst í því að upplýsa og fræða börn og því er ánægjulegt að segja frá því hér að í gær undirritaði ég samning við Brúðuleikhúsið Tíu fingur sem tryggir áframhaldandi sýningar á brúðuleikritinu Krakkarnir í hverfinu sem er ætlað til að fræða alla nemendur í öðrum bekk grunnskóla um ofbeldi gegn börnum og þau úrræði sem standa þolendum ofbeldis til boða.

Fyrir rúmum mánuði var haldinn upphafsfundur landssamráðs gegn ofbeldi. Þar er um að ræða víðtækt samráð lykilaðila sem ákveðið hefur verið að efna til í því skyni að vinna gegn öllum tegundum ofbeldis í samfélaginu. Þetta starf er byggt á samstarfsyfirlýsingu sem ég tel til tímamóta – yfirlýsingu sem þrír ráðherrar undirrituðu þann 18. desember í fyrra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í yfirlýsingunni sem að standa - auk mín – mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra segir að við séum einhuga um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála“. Í yfirlýsingunni er tilgreint að samstarfið muni beinast að aðgerðum til að sporna við ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum.

Eitt fyrsta verkefni landssamráðsins var að taka þátt í Evrópudegi um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi þann 18. nóvember. Bréf var sent til allra grunnskóla á landinu með hvatningu til starfsfólks skóla um taka nýja teiknimynd Evrópuráðsins með íslensku tali og texta til sýningar í öllum skólum landsins í tilefni dagsins. Í teiknimyndinni eru börn á aldrinum 9 – 13 ára upplýst um að íslensk stjórnvöld hafi gefið ýmis loforð um að tryggja öryggi barna með lögfestingu Lanzarote samnings Evrópuráðsins og að börn sem leiti sér hjálpar vegna kynferðislegs ofbeldis verði tekin alvarlega og fái hjálp við að ná bata.

Barnahús veitir börnum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi þjónustu og meðferð og hefur frá því að það var sett á laggirnar árið 1998, vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Evrópuráðið telur íslenska Barnahúsið vera fyrirmynd annarra barnahúsa og á hverju ári koma hingað til lands fjölda sendinefnda í þeim tilgangi að skoða Barnahús og fá fræðslu um verklag hússins og aðferðafræði. Þá tryggjum við jafnframt að börn og ungmenni sem sýnt hafa af sér óeðlilega kynhegðun fái viðeigandi meðferð með samningi ráðuneytisins við fagteymi sérfræðinga sem hafa sérhæft sig í slíkri meðferð.

Ísland hefur síðastliðin ár verið efst á lista World Economic Forum yfir þau lönd þar sem kynjajafnrétti er mest og þeim árangri ber að fagna. Sem ráðherra jafnréttismála legg ég ríka áherslu á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Við þurfum að byrja á grunninum og skapa mannvænna samfélag sem  byggir á virðingu og jákvæðum samskiptum, með því að breyta staðalmyndum og viðhorfum og ekki síst orðræðunni, en hatursorðræða gegn einstaklingum og hópum og þá sérstaklega á netinu er tiltölulega ný birtingarmynd ofbeldis sem við þurfum að bregðast við.

Mikilvægur áfangi í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi er fyrirhuguð lögfesting Istanbul samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Nú liggur fyrir frumvarp innanríkisráðherra þar sem lagðar eru til breytingar á almennum hegningarlögum svo fullgilda megi samninginn, en meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til er að sett verði nýtt ákvæði í lögin sem gerir heimilisofbeldi að sérstöku broti. Þá felur fullgildingin einnig í sér að við þurfum að formfesta ramma utan um ýmis verkefni sem nú þegar eru til staðar að einhverju leyti eins og rekstur athvarfs, starfrækslu neyðarnúmers, þjónustu við þolendur og meðferð fyrir gerendur.

Mikið hefur þegar áunnist í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Á vegum velferðarráðuneytisins hefur starfað samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis frá árinu 2013 sem hefur m.a það hlutverk með höndum að hafa umsjón með því að fylgt sé samræmdri heildarstefnu um heimilisofbeldi. Þá er samstarfsteyminu einnig ætlað að koma á föstu samstarfi milli þeirra aðila sem hafa aðkomu að málaflokknum. Samstarfsteymið hefur staðið fyrir námskeiðshaldi um forvarnir og aðgerðir gegn heimilisofbeldi um land allt. Með námskeiðunum hefur þeirri þekkingu verið miðlað sem skapast hefur í tengslum við samstarfsverkefni embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og félagsþjónustu sveitarfélaga á Suðurnesjum sem ber yfirskriftina „Að halda glugganum opnum“. Markmið verkefnisins var að bæta rannsóknir í heimilisofbeldismálum með markvissari viðbrögðum lögreglu, fækkun ítrekunarbrota, bættri tölfræðivinnslu, markvissari aðstoð við þolendur og gerendur og því að nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Á námskeiðunum hafa ábyrgir aðilar á hverjum stað verið hvattir til þess að taka upp sambærilegt verklag. Fyrsta námskeiðið var haldið hér á Akureyri í desember  á síðasti ári, í samvinnu við Jafnréttisstofu og þann 25. febrúar sl., var svo undirituð samstarfsyfirlýsing Akureyrarbæjar og embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um átak gegn heimilisofbeldi og sambærileg þróun hefur átt sér stað um allt land.

Velferðarráðuneytið hefur einnig aukið aðstoð til þolenda ofbeldis með því að veita geðsviði Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri framlag til að fjármagna nýjar stöður sálfræðinga sem veita  þolendum ofbeldis aðstoð og meðferð vegna áfallastreituröskunar og þunglyndis. Öllum þolendum sem leita á Neyðarmóttökuna hjá Landspítalanum er boðin sálfræðiþjónusta. Þeir sem þiggja er vísað í þjónustuna og fá símtal frá sálfræðingi, oftast næsta virkan dag. Í fyrstu viðtölunum er lögð áhersla ááfallahjálp og sálrænan stuðning ásamt því að meta afleiðingar kynferðislega ofbeldisins. Ef áfallastreituröskun greinist er boðið upp á sérhæfða, áfallamiðaða, hugræna atferlismeðferð. Þeir sem ekki þurfa formlega meðferð fá stuðning eftir þörfum. Áskoranir í þjónustunni eru að tryggja að þolendur sem leita á Neyðarmóttökuna og eru undir 18 ára aldri þurfi ekki að bíða vegna tafa hjá barnavernd. Brottfall úr þjónustunni er hátt, sérstaklega á fyrstu stigunum og er þetta í samræmi við erlendar rannsóknir og reynslu annarra af þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Þar verður að spyrja; er þjónusta í samræmi við þarfir þolandans? Í erlendum rannsóknum hefur komið í ljós góður árangur af meðferð sem veitt er í gegnum netið, þar sem brottfall úr þjónustu virðist minna en annars, sérstaklega hjá ungum þolendum. Þessi leið væri einkar áhugaverð, ekki hvað síst ef það gæti líka auðveldað aðgengi að þjónustu um allt land, óháð búsetu.

Frá því að sjúkrahúsin tvö á Akureyri og í Reykjavík fengu aukið framlag til að sinna þessum málum hafa þau unnið að því að byggja upp meðferð fyrir þolendur sem glíma við afleiðingar brota fyrir löngu síðan. Þar eru margvíslegar áskoranir. Brotaþolar fást oft við líkamleg veikindi samhliða geðrænum vandamálum og hafa lifað lengi með afleiðingum ofbeldisins án meðferðar og lífsgæði þeirra því mjög skert. Þar kemur líka í ljós að brottfall úr meðferð er hátt, enda er eitt af einkennum áfallstreituröskunar að forðast allt sem minnir á áfallið. Þörfin er hins vegar mjög skýr og mikilvægt að mínu mati að þetta verði unnið áfram.

Við höfum líka lært að það er hægt að vinna með gerendur, þá sem ofbeldinu beita. Þar vil ég nefna meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar fyrir þá sem vilja losna úr viðjum ofbeldisbeitingar, sem kynnt verður hér á eftir og er   fjármagnað af velferðarráðuneytinu.

Markmiðið um að uppræta ofbeldi í íslensku samfélagi kallar á stefnu sem byggir á heildstæðri sýn og samræmdum aðgerðum, en á næsta ári mun landssamráðið vinna aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda til fjögurra ára gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í undirbúningi er vinnufundur fagaðila í janúar á næsta ári þar sem helstu sérfræðingar á þessu sviði munu koma saman og vinna að tillögum um aðgerðir. Það hefur sýnt sig að með samstilltu átaki má ná árangri í baráttunni gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Þetta vil ég gera að mínum lokaorðum, höldum áfram á þessari braut og vinnu saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum