Hoppa yfir valmynd
14. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Nýsköpunarstyrkir Landspítala

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Nýsköpunarstyrkir veittir, 14. mars 2014

Góðir gestir.

Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hve mikill kraftur er í vísindastarfi á sviði heilbrigðismála og hve margir hafa brennandi áhuga fyrir því að leggja þekkingu sína af mörkum til framfara og nýsköpunar. Þetta er ekki sjálfgefið og það veltur á miklu að vísindastarf sé ræktað á markvissan hátt og vísindafólk fái hvatningu og aðstæður til að sinna mikilvægum rannsóknum.

Í október síðastliðinn hélt Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands í fyrsta sinn nýsköpunarráðstefnu til að kynna verkefni og hugmyndir um nýsköpun í heilbrigðisvísindum. Þar var sérstaklega litið til tilgangs og gagns verkefnanna fyrir samfélag og atvinnulíf og á hagnýtingu sem leiðir til ávinnings og virðisauka. Þetta var vel heppnuð ráðstefna og sýndi vel hvað Háskólasamfélagið er mikilvægur akur nýsköpunar. Háskóli sem er lifandi, opinn og fordómalaus – þar sem virðing er borin fyrir öllum fræðigreinum og áhersla lögð á samstarf og samvinnu leggur mikilvægan grunn að vísindastarfi framtíðarinnar.

Hlutverk Landspítalans sem háskólasjúkrahús verður seint ofmetið og það er gleðilegt að sjá að þrátt fyrir þrengingar undanfarinna ára hefur tekist að verja mennta- og vísindahlutverk Landspítalans. Ég veit að stjórnendur og starfsfólk Landspítala hafa lagt mikla áherslu á þetta og það hefur gengið vonum framar. Doktorsnemum tengdum spítalanum hefur fjölgað, meistaranemum sömuleiðis og rannsóknarstarfið stendur traustum fótum. Þetta er ómetanlegt og ég er sannfærður um að framtíðin er björt.

Ég vil að lokum óska þeim innilega hamingju sem hljóta Nýsköpunarstyrkina í dag, þeim Einari Stefánssyni, Orra Þór Ormarssyni og Páli Torfa Önundarsyni. Öll sú vinna sem hér um ræðir hefur það markmið að verða til hagsbóta fyrir sjúklinga, heilbrigðisþjónustuna og þar með samfélagið. Það eru verðug verkefni.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum