Hoppa yfir valmynd
24. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Afmælisráðstefna Endurhæfingar - þekkingarseturs

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Góðir gestir.

Þetta er stórglæsileg ráðstefna sem Endurhæfing-þekkingarsetur efnir til hér í dag, í tilefni tíu ára afmælis starfseminnar.

Tíminn líður hratt og ég hugsa að mörgum sé í fersku minni þegar þetta einkarekna heilbrigðisfyrirtæki tók að sér þjónustu við það fólk sem var á endurhæfingardeild Landspítalans í Kópavogi, ýmist fjölfatlað fólk sem bjó á Landspítala eða á sambýlum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég get ímyndað mér að mörgum hafi þótt þetta verkefni býsna stórt og vandasamt fyrir lítið fyrirtæki og jafnvel haft einhverjar efasemdir um hversu skynsamlegt og vænlegt þetta væri til árangurs.

Hafi einhverjir haft efasemdir um getu fyrirtækisins til að sinna verkefninu þá veit ég að þær eru löngu að engu orðnar. 

Eitt er alveg víst að það ræðst enginn í verkefni af þessu tagi án þess að vera brennandi af áhuga og eldmóði. Hér er um að ræða endurhæfingu fólks sem býr við hvað mesta fötlun og afar fjölþætt vandamál og þarfnast því mjög sérhæfðrar meðferðar. Öflun þekkingar og miðlun hennar er ríkur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Áhersla er lögð á frumkvöðlavinnu og nýsköpun á sviði meðferða, rannsókna og þróunar og það skilar sér til þeirra sem endurhæfingarinnar njóta. Þá er ekki síður mikilvægur sá þáttur sem lýtur að því að styðja og fræða aðstandendur og umönnunaraðila.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að taka mikið af tíma ykkar þar sem framundan eru áhugaverð erindi fagfólks á þessu sérhæfða sviði. Ég vil hins vegar geta þess að dagskrá ráðstefnunnar hér í dag segir meira en mörg orð um gott orðspor afmælisbarnsins. Virtir fyrirlesarar og fræðimenn, hérlendir og erlendir, koma hér saman til að deila þekkingu sinni hver með öðrum. Þetta er mikilvægt og mikils virði, því eins og við vitum öll er þekking lykillinn að öllum framförum.

Enn og aftur – til hamingju með daginn og megið þið eiga áhugaverðan og góðan dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum