Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Fíkniefnalöggjöfin og kostir í stefnumótun: Refsistefna eða afglæpavæðing?

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Fyrir tæpum tveimur mánuðum var ég frummælandi á fundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, um ólögleg fíkniefnamál þar sem leitast var við að svara spurningunni: Er refsistefnan að virka?

Það kom mörgum á óvart og það vakti athygli að ég sem heilbrigðisráðherra skyldi halda því fram að refsistefnan hefði ekki náð tilgangi sínum. Að margt bendi til að við Íslendingar séum á villigötum og að refsistefnan hneppi ungt og efnilegt fólk í gildru sem það á erfitt að losna úr. Ég benti á að það væri eitthvað öfugsnúið við að á sama tíma og fíkniefnabrotum fjölgar, hefur okkur tekist sérstaklega vel upp í forvörnum hvað varðar áfengi og tóbak; notkunin hefur minnkað ár frá ári meðal ungs fólks.

Árið 1997 samþykktu ríkisstjórn Íslands og Reykjavíkurborg stefnumörkun sem bar yfirskriftina Vímuefnalaust Ísland árið 2002. Við vitum öll hvernig til hefur tekist.

Það er alveg öruggt, í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum frá lögreglunni um fíkniefnabrot, að vandinn er aðeins að vaxa. Lögreglan, sem vinnur sitt starf af miklum dugnaði, leggur eðli máls, mestu áhersluna á að koma í veg fyrir innflutning ólöglegra fíkniefna, sölu og dreifingu og framleiðslu þeirra. Síðan „slæðast“ með einstaka aðilar sem teknir eru í rassíum fyrir vörslu og meðferð fíkniefna. Alls voru 1.725 brot vegna vörslu og meðferð fíkniefna skráð hjá lögreglunni á síðasta ári. Þetta eru nær tvöfalt fleiri brot en árið 2009.

Við getum því með engum hætti haldið því fram að við séum á réttri braut eða að árangur hafi náðst og allra síst að markmiðið um Vímuefnalaust Ísland árið 2002 hafi náðst. Langt í frá. Við erum líklegast fjær markmiðinu í dag en árið 1997.

Það er andspænis þessum staðreyndum sem ég hef talið nauðsynlegt að hugleiða aðrar leiðir – ræða opinskátt og fordómalaust um það hvernig við getum best tekist á við þau vandamál sem glímt er við. Verkefni mitt sem heilbrigðisráðherra er að nálgast viðfangsefnið af heiðarleika og með opnum hug, þannig að sameiginlega getum við sem þjóðfélag unnið betur bug á þeirri ógn sem steðjar að íslensku samfélagi vegna vímuefnanotkunar.

Ég er ekki talsmaður þess að lögleiða fíkniefni, þvert á móti. Ég skal taka þátt í rökræðunum – öfgalausum skoðanaskiptum um kosti þess og galla að lögleiða fíkniefni sem nú eru ólögleg. En ég hef hægt og bítandi sannfærst um að sú refsistefna sem við höfum fylgt er ekki að skila þeim árangri sem við viljum ná. Og því spyr ég:

Ætlum við að horfa upp á þetta ganga með þessum hætti? Mitt svar er afdráttarlaust í þeim efnum: Nei, við getum það ekki, við eigum ekki að gera það og okkur ber siðferðisleg skylda til að leita allra leiða til að taka betur á í þessum efnum.

Í þessum efnum, eins og svo mörgum öðrum, verð ég að styðjast við álit okkar bestu manna – og ég hef m.a. sótt í fræðakistu Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings og prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem hefur sagt:

„Þessi refsistefna hefur margvíslega galla eins og þann að krakkar sem ekki eru í öðrum brotum geta lent í klóm réttvísinnar og á sakaskrá sem getur haft afleiðingar fyrir þau í framtíðinni.“

Með öðrum orðum; við erum að setja ungt fólk í vítahring og við erum að gera það erfiðara en ella að ná til fíkla sem þurfa á hjálp og aðstoð okkar að halda. Ég væri ekki vanda mínum vaxinn sem heilbrigðisráðherra, ef ég lokaði á nýjar leiðir til að koma í veg fyrir ungt fólk festist í vítahring sem getur eyðilagt framtíð þess. Og hvers konar heilbrigðisráðherra væri sá sem ekki er tilbúinn til að fara inn á nýjar brautir til að hjálpa fíklum?

Það er fagnaðarefni að Félagsfræðingafélag Íslands skuli efna til málþings um fíkniefnalöggjöfina og þá kosti sem við stöndum frammi fyrir: þ.e. Refsingu eða afglæpavæðingu?  Þegar fræðasamfélagið sest niður og ræðir umdeild mál af yfirvegun skilar það okkur fram á veginn.

Gangi ykkur vel.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum