Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Þing Heilbrigðisvísindasviðs háskóla Íslands 2014

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíusson heilbrigðisráðherra

Heilir og sælir ágætu þinggestir.

Það er kærkomið fyrir mig að fá tækifæri til að segja hér frá áætluninni Betri heilbrigðisþjónusta 2013 – 2017 og gera grein fyrir því helsta sem í henni felst.

Verkefnin sem falla undir áætlunina eru mörg og stór – en ég vil segja það strax strax að áætlunin felur ekki í sér að heilbrigðiskerfinu í núverandi mynd verði kollvarpað eða breytt í grundvallaratriðum. Fyrst og fremst snýst þetta um mikilvægar og nauðsynlegar úrbætur sem miða að því að gera gott kerfi betra. Bætt heilbrigðisþjónusta – aukin gæði hennar – bætt starfsaðstaða heilbrigðisstarfsfólks og betri nýting fjármuna eru leiðarljós þeirra verkefna sem áætlunin tekur til.

Við gerð áætlunarinnar var byggt á umfangsmikilli greiningarvinnu á styrkleikum og veikleikum íslenska heilbrigðiskerfisins sem farið hefur fram á liðnum árum. Markvissasta greiningin sem einkum er byggt á fór fram í velferðarráðuneytinu árin 2011-2012 með aðstoð erlends ráðgjafafyrirtækis og aðkomu hátt í 100 sérfræðinga sem starfa á ýmsum sviðum íslenska heilbrigðiskerfisins. Það liggur alveg fyrir að þótt heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé um margt afar góð og skori jafnan hátt í alþjóðlegum samanburði er engu að síður margt sem hægt er að bæta - og sem þarf að bæta. Þetta kemur skýrt fram í þeirri greiningarvinnu sem hér hefur verið nefnd.

Verkefni áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónusta eiga ekki að koma neinum á óvart því sum hver hafa verið í undirbúningi eða vinnslu um hríð og jafnvel um lengri tíma, eins og til dæmis að gera eina samtengda rafræna sjúkraskrá að veruleika. Það sem vakti fyrir mér með því að setja verkefnin fram í heilstæðri áætlun var að formgera vinnuna við að hrinda þeim í framkvæmd, skapa heildarsýn og leggja áherslu á að framkvæmd þeirra og innleiðing sé samhæfð og stefni að einu marki, þ.e. betri heilbrigðisþjónustu.

Árum saman hefur verið rætt um – og gerðar tilraunir til þess að taka upp þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu. Við eigum þá sérstöðu meðal nágrannaþjóða að beita lítið sem ekkert markvissri stjórnun á því hvert fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu. Þessu skipulagi – eða segjum heldur þessum skorti á skipulagi – fylgja margvíslegir annmarkar. Þetta er ekki í þágu sjúklinga, þetta stuðlar að ómarkvissri þjónustu, þetta ýtir undir sóun og dregur úr skilvirkni. Við vitum þetta og höfum vitað það lengi. Innleiðing þjónustustýringar er því eitt þeirra verkefna sem fellur undir áætlun um Betri heilbrigðisþjónustu.

Á síðustu áratugum hefur verið unnið að því að sameina heilbrigðisstofnanir og mikið hefur unnist í þeim efnum. Enn eru þó sóknarfæri í auknum sameiningum og ákvörðun liggur fyrir um að sameina heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þannig að ein stofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi. Við sameininguna fækkar yfirstjórnum heilbrigðisstofnana úr ellefu í þrjár, þótt starfsstöðvar verði mun fleiri. Reynslan sýnir okkur að sameining heilbrigðisstofnana eflir bæði faglegan og fjárhagslegan styrk þeirra.

Mikilvægt og áhugavert verkefni sem tvímælalaust mun styðja við innleiðingu þjónustustýringar er að koma á fót símaráðgjöf um heilbrigðisþjónustu sem þjóna mun öllum landsmönnum, ásamt gagnvirkri vefsíðu með fræðslu til almennings um þjónustu heilbrigðiskerfisins og leiðsögn um hvert skuli leita. Þetta verkefni er komið vel á veg og ráðgert að símaþjónustan og vefsíðan verði aðgengileg um mitt þetta ár.

Í mars árið 2012 voru málefni sem tengjast rafrænni sjúkraskrá flutt frá velferðarráðuneytinu til Embættis landlæknis. Þar var sett á fót starfseining sem fer með yfirstjórn á öllum þáttum sem tengjast rafrænni sjúkraskrá, sem felur meðal annars í sér þróun, framkvæmd og innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar á landsvísu. Mörgu hefur þegar verið komið til leiðar í rafrænum samskiptum innan heilbrigðiskerfisins og nýtingu upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu en ég vildi með því að fella þetta verkefni undir áætlunina Betri heilbrigðisþjónustu hleypa enn meiri krafti í vinnuna og draga betur fram hvað þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ein rafræn sjúkraksrá á landsvísu fyrir heilbrigðiskerfið stuðlar að auknum gæðum, auknu öryggi, aukinni hagkvæmni og aukinni skilvirkni. Það er því mikið í húfi.

Embætti landlæknis hefur frá árinu 2012 unnið að því að byggja upp nýjan lyfjagagnagrunn sem gerir mögulegt að veita aðgang að honum í rauntíma. Markmiðið er að læknar og almenningur fái rafrænan, öruggan aðgang að þriggja ára sögu um lyfjanotkun. Í þessu felast gríðarmikil tækifæri. Þetta mun auka verulega öryggi við lyfjameðferð sjúklinga og það er einnig fyrirséð að fjárhagslegur ávinningur verði umtalsverður þar sem draga mun úr sóun og fækka innlögnum og legudögum sjúklinga vegna atvika sem tengjast lyfjum. Um þrjúhundruð læknar eru komnir með rafræn skilríki sem veita þeim aðgang að grunninum og geta flett upp lyfjum sjúklinga sinna og reiknað er með að næsta haust verði opnað fyrir aðgang einstaklinga að upplýsingum um sjálfa sig í lyfjagagnagrunninum.

Góðir gestir.

Enn á ég ótalin verkefni sem falla undir áætlun um Betri heilbrigðisþjónustu. Eitt þeirra er innleiðing hreyfiseðla. Með þeim geta læknar á formlegan hátt vísað sjúklingum á hreyfingu eftir því sem þörf krefur. Hreyfiseðlar hafa verið innleiddir í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Innleiðingu þeirra annars staðar á landinu og hjá sérfræðilæknum verður haldið áfram og er stefnt að því að henni verið að fullu lokið fyrir árslok 2016. Þá verða hreyfiseðlar komnir í notkun á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og hjá sérfræðilæknum.

Auk þess sem þegar hefur verið talið felur áætlunin um Betri heilbrigðisþjónustu í sér endurskoðun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Markmiðið er að byggja skynsamlega hvata inn í kerfið, meta árangur á nýjan hátt miðað við ávinning af þjónustunni og ákveða rekstrarframlög til heilbrigðisþjónustu út frá íbúafjölda á viðkomandi þjónustusvæði og ýmsum lýðfræðilegum og félagslegum þáttum. Fyrstu skref á þeirri leið verða breytingar á greiðslukerfi heilsugæslunnar sem fyrirsjáanlega mun taka breytingum samhliða innleiðingu þjónustustýringar.

Mig langar að nefna það hér að lokum að þegar hafa verið haldnir tveir stórir kynningarfundir um áætlunina Betri heilbrigðisþjónusta. Til annars þeirra voru boðaðir stjórnendur stofnana heilbrigðiskerfisins, fulltrúar úr Háskólasamfélaginu og fleiri aðilar. Á hinn fundinn voru boðaðir fulltrúar hagsmunasamtaka sjúklinga- og aðstandenda. Mér fannst afar ánægjulegt hvað undirtektir voru góðar á þessum fundum og tel augljóst að það er frjór jarðvegur fyrir þeim breytingum og umbótum sem hér um ræðir.

Góðir fundarmenn. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en vil að lokum óska ykkur öllum ánægjulegs og fróðlegs þings hér í dag.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum