Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2014 Heilbrigðisráðuneytið

15. þing Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Ágætu þingmenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, dömur og herrar.

Ég er ánægður með að fá tækifæri til að hitta ykkur hér svona mörg – og ég vona að ánægjan sé gagnkvæm. Það er eflaust margt sem á ykkur brennur, rétt eins og mér, enda eðlilegt í ljósi þeirra mikilvægu starfa sem þið sinnið og varða heilsu fólks og öryggi um allt land eins og við öll vitum og gerum okkur ljóst.

Það eru reyndar aðeins sjúkraflutningarnir – ekki slökkviliðsstörfin – sem eru á mínu borði sem heilbrigðisráðherra, það er að segja störf ykkar heilbrigðisstarfsmanna. Mér hefur hins vegar alltaf þótt fara vel á því að tengja þetta tvennt saman eins og víða hefur verið gert með góðum árangri, en ég vil líka nefna að ágæt reynsla er af fyrirkomulagi sjúkraflutninga þar sem hún er á hendi heilbrigðisstofnana.

Við þurfum öll að vinna vinnuna okkar og gerum það jafnan flest með glöðu geði. Ykkur er eðlilega umhugað um skjólstæðinga ykkar og berið hag þeirra fyrir brjósti. Þetta sama fólk, þ.e.a.s. fólkið sem þarf á sjúkraflutingum að halda eru sömuleiðis mínir skjólstæðingar sem heilbrigðisráðherra og mér er, líkt og ykkur, umhugað um að tryggja þeim góða og örugga þjónustu.

Eðli málsins samkvæmt standið þið vörð um ykkar eigin hagsmuni sem snúa meðal annars að menntun, starfsöryggi og starfskjörum.

Þetta skil ég að sjálfsögðu og vil auðvitað hag ykkar sem mestan og bestan, enda eru tengsl á milli þess hvernig að ykkur er búið og þjónustunnar sem þið eruð fær um að veita. – En... eðli málsins samkvæmt þarf ég að standa vörð um hagsmuni hins opinbera í þessum efnum sem öðrum. Það er mikilvægur hluti af minni vinnu. Ég þarf á öllum tímum að sjá til þess eins og kostur er að sú þjónusta sem ríkið kaupir og ber ábyrgð á uppfylli kröfur um öryggi og gæði en sé jafnframt eins hagkvæm og kostur er. Það er í þessu efni þar sem ávallt er hætta á ágreiningi milli aðila, líkt og við þekkum ágætlega.

Ágreiningsefni eru til þess að leysa þau og það eru gömul sannindi og ný að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Lausn á ágreiningi felst jafnan í því að ræða málin, skoða þau frá öllum hliðum og kryfja til mergjar. Það þarf að greina á milli aðalatriða og aukaatriða og sjá heildarmyndina. Yfirleitt lyktar málum þannig að báðir aðilar gefa eitthvað eftir og samningar nást. Í versta falli næst ekki saman. Þá þurfa hlutaðeigandi að sýna yfirvegun og sanngirni þannig að skilnaðurinn valdi sem minnstum sársauka hjá þeim sem síst skildi.

Góðir fundarmenn.

Ég ætla ekki að gera skilnaðarmál að meginefni ræðu minnar. Það er miklu uppbyggilegra að ræða um verkefnin sem við blasa og hvernig við getum best unnið saman að því að leysa þau.

Í byrjun þessa árs átti að taka gildi ákvæði í samningi Sjúkratrygginga Íslands og Rauða kross Íslands sem þáverandi heilbrigðisráðherra staðfesti í desember 2012 og fól í sér skipulagsbreytingar á sjúkraflutningum á landsbyggðinni. Samhliða áætlun um endurnýjun sjúkrabifreiðaflotans var gert ráð fyrir fækkun sjúkrabíla úr 77 í 68 og umsjónarlæknum sjúkraflutninga í hverju heilbrigðisumdæmi falið að endurskipuleggja fyrirkomulag sjúkraflutninganna í samvinnu við RKÍ og samráðsnefnd um heilbrigðisþjónustu í umdæmum.

Þessi ákvörðun var umdeild og hún virtist ekki hafa fengið nægan undirbúning til þess að forsvaranlegt væri að hrinda henni í framkvæmd á þeim tíma sem áætlaður var. Í þessu ljósi ákvað ég að fresta framkvæmdinni, fara nánar í saumana á málinu og skoða hvernig betur mætti haga undirbúningi að breytingum.

Ég er ekki í vafa um að það standa efni til þess að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Það er þörf á því að endurnýja bílaflotann og við eigum að leggja áherslu á góða og örugga bíla, frekar en fjölda bíla, svo lengi sem við getum tryggt eðlilegan viðbragðstíma. Samgöngubætur á liðnum árum hafa víða valdið byltingu þannig að leiðir sem áður kostuðu löng og erfið ferðalög eru nú vart meira en skottúr. Sjúkraflug er mikilvægur liður í sjúkraflutningum þegar mikið liggur við og þyrlur Landhelgisgæslunnar koma sterkar inn þegar svo ber undir.

Í samningnum sem ég nefndi áðan varðandi endurskoðun sjúkraflutninga á landsbyggðinni var lögð áhersla á að efla aðkomu heilbrigðisumdæma að skipulagi þessara mála. Þessari áherslu er ég sammála og tel að með sameiningu heilbrigðisstofnana sem áformuð er, með öflugri miðlægri stofnun sem stýrir öðrum starfsstövðum í viðkomandi umdæmi, styrkist grundvöllurinn fyrir aukinni stjórnun heima í héraði, með möguleikum á auknum sveigjanleika og hagkvæmara skipulagi.

Það hefur farið fram ágæt vinna af hálfu velferðarráðuneytisins í samvinnu við fagfólk þar sem greint hefur verið hvernig breyta megi og bæta skipulag sjúkraflutninga á landsbyggðinni. Þar hefur verið bent á að fleiri þættir skipta máli en fjöldi sjúkrabíla og staðsetning þeirra. Vísað hefur verið til þess að efla þurfi menntun sjúkraflutningafólks og fram hafa komið tillögur um að koma á fót formlegu skipulagi vettvangsliða sem hafi getu og þjálfun til að takast á við aðstæður meðan beðið er eftir sjúkraflutningi. Ég styð þetta heilshugar og vil efla sjúkraflutningaskólann í þessu skyni og mun óska eftir fjárveitingu til þess á næsta ári. Þannig mun fjárhagsleg staða skólans verða mun tryggari en nú er og geta hans til að efla kennslu sjúkraflutningafólks aukast til muna.

Gott fólk.

Það þarf ekki að koma á óvart að staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikið til umræðu og umfjöllunar síðustu mánuði og misseri. Það er slæmt hvað þessi mál virðast komin í mikinn hnút en ég hef þó ekki gefið upp alla von um að samningar muni takast.

Ef við skoðum sjúkraflutninga á landsbyggðinni er staðan alls ekki slæm. Í byrjun árs staðfesti ég samning sem Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Ísafjarðarbær gerðu með sér um að Slökkvilið Ísafjarðar annist sjúkraflutninga á þjónustusvæði stofnunarinnar. Samningurinn gildir til ársloka 2018.  Unnið er að samningum um sjúkraflutninga hjá Akureyrarbæ og á Suðurnesjum og ég er vongóður um að þeim viðræðum lykti með farsælli lendingu, jafnvel í næstu viku. Á nokkrum stöðum eru sjúkraflutningar í höndum heilbrigðisstofnana og þar gengur allt snurðulaust.

Ég ræddi það stuttlega í upphafi að auðvitað getur farið svo þegar aðilar ná ekki saman að skilnaður sé óhjákvæmilegur. Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur raunar farið fram á það við mig að hefja undirbúning að verklokum þjónustu SHS vegna sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við samningsákvæði um verklok og aðskilnað. Þetta er vissulega alvarleg staða og ég hef að sjálfsögðu látið kanna hvaða aðrar leiðir séu færar til að tryggja örugga sjúkraflutninga fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins ef kemur til skilnaðar. Það er allt hægt þegar viljinn er fyrir hendi og það er ekkert launungarmál að ég óskaði eftir því við Landsspítalann að gerð yrði verk- og kostnaðaráætlun um sjúkraflutninga. Ítarleg úttekt forráðamanna spítalans leiðir í ljós að hægt er að sinna sjúkraflutningaþjónustu án þess að fórna öryggi, fyrir töluvert lægri fjárhæð en stjórn SHS hefur talið nauðsynlegt að ríkið greiði á hverju ári. 

Þá hefur einnig, á vegum velferðarráðuneytisins, verið unnið að áætlunum um að efla sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu og að það verði sérstakt samstarfsverkefni Landspítalans, Neyðarlínunnar og lögreglunnar.

Það væri mikið ábyrgðarleysi af minni hálfu að kanna ekki möguleika á að tryggja sjúkraflutninga á höfuðborðarsvæðinu með öðrum hætti en nú er gert. Það væri ábyrgðarleysi gagnvart íbúum, gagnvart skattgreiðendum og gagnvart sjúkraflutningamönnum sem þurfa að búa við óþolandi óvissu (á fundi sem ég átti með fulltrúum þeirra fyrir nokkru lýsti einn fundarmanna ástandinu þannig að sjúkraflutningamönnum liði eins og skilnaðarbörnum – sem eru klemmd á milli foreldra sem koma sér ekki saman um eitt eða neitt).

Um það verður ekki deilt að sjúkraflutningar í höndum SHS hafa að verið farsælir og það ríkir mikið traust í garð þeirra sem sinna þessum erfiðum verkefnum. Það er hins vegar ekki skynsamlegt af mér að vera með miklar yfirlýsingar um framtíðina hvað þá að gefa vonir um að samningar muni takast á næstunni. Ég segi það eitt að það ber mikið í milli.

Ágætu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, dömur og herrar. Við skulum öll halda áfram að vinna vinnuna okkar. Liður í okkar starfi framundan er augljóslega að leysa ágreining og komast að farsælli niðurstöðu, hver sem hún verður.

Að því sögðu finnst mér liggja beint við að ljúka þessum orðum með því því að óska okkur öllum velfarnaðar í störfum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum