Hoppa yfir valmynd
7. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Áfengismisnotkun er ekki einkamál

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

Grein Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra.
Birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2014

"Það er mikill léttir þegar einhver er edrú um hátíðir, þá þarf maður ekki að stressa sig." Þetta voru orð 16 ára stúlku sem rætt var við í útvarpinu í fyrradag en hún á föður sem er alkóhólisti. Hún, ásamt nokkrum öðrum börnum alkóhólista á aldrinum 14 - 18 ára tók þátt í sérfræðingahópi sem Umboðsmaður barna setti á fót í þeim tilgangi að draga fram sjónarmið barnanna og hvað brýnt væri að gera til að bæta stöðu þeirra.

Það var margt viðtalinu við þessa 16 ára stúlku sem snart mig og vakti mig til umhugsunar og sömuleiðis skilaboð sérfræðingahóps barnanna til fagfólks og fjölskyldna sem byrja á þessum orðum: „Við erum ekki vandamálið, en við glímum við það...“

Það er skelfilegt hlutskipti fyrir börn að búa við stöðugt óöryggi og óvissu á heimili sínu, að vita ekki hvað að þeim snýr frá degi til dags af hálfu sinna nánustu af því að bakkus gerir sig heimakominn og getur umturnað fjölskyldulífinu fyrirvaralaus, hvenær sem er. „Þegar fólk er drukkið þá er það ekki það sjálft eins og það er þegar maður þekkir það...“ Þessi orð viðmælanda RÚV segja mikið um vandann sem snýr að börnum alkóhólista og þau þurfa að glíma við. Börn hafa óendanlega mikla þolinmæði gagnvart foreldrum sínum og þykir vænt um þá, nánast sama hvað á dynur. Það er því sorglegt til þess að vita að fjöldi fullorðins fólks sem hefur ákveðið að eignast börn og þykir að sjálfsögðu vænna um þau en allt annað, skuli missa stjórnina á áfengisneyslu sinni og skaða með því bæði sig og börnin gegn betri vitund og vilja.

Áfengismisnotkun er ekki einkamál þess sem drekkur. Samfélagið í heild ber mikið tjón af ofneyslu áfengis og fíkniefna og fórnarlömin eru mörg og líða oft mikið. Talið er að yfir tuttugu þúsund íslensk börn eigi foreldra eða aðra aðstandendur sem glíma við alkóhólisma eða fíknivanda. Þessi börn eiga betra skilið.

Það ríður á miklu að sporna við misnotkun áfengis. Börn og ungmenni þurfa góðar fyrirmyndir og við fullorðna fólkið verðum að axla okkar ábyrgð. Enginn vill verða bakkusi að bráð og missa þannig stjórn á lífi sínu. Við þurfum með virkum forvörnum að fyrirbyggja áfengismisnotkun og við þurfum að tryggja góða aðstoð og þjónustu við þá sem misnota áfengi eða þurfa að fást við afleiðingar þess í daglegu lífi vegna sinna nánustu. SÁÁ hefur í gegnum tíðina hjálpað mörgum, bæði til þess að sigrast á fíkninni og eins með stuðningi við aðstandendur.

Ég hvet landsmenn til þess að taka vel á móti sölumönnum Álfsins í fjáröflunarátaki SÁÁ sem nú er að hefjast. Álfasalan er mikilvægasta fjáröflun SÁÁ og ágóðinn af henni hefur til dæmis staðið undir uppbyggingu unglingadeildarinnar að Vogi, starfsemi fjölskyldumeðferðarinnar og gert SÁÁ fært að þróa úrræði fyrir börn alkóhólista, ungmenni og fjölskyldur.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum