Hoppa yfir valmynd
8. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Félagsfundur Samtaka heilbriðgisfyrirtækja

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Heil og sæl öll.

Takk fyrir gott boð og tækifæri til að eiga við ykkur nokkur orð.

Ósk um að ég kæmi hér fylgdu ábendingar um umfjöllunarefni, þar sem beðið var um að ég ræddi málefni Landspítalans, stöðuna þar og byggingaráformin en einnig málefni heilsugæslunnar og mögulegar breytingar á rekstrarformi. Þetta eru stór mál sem þarf mikinn tíma til að gera góð skil, en ég skal gera mitt besta til að draga upp stóru myndina eins og hún blasir við mér. Ég ætla að vera stuttorður og vonandi gagnorður, enda vil ég eiga tíma hér á eftir til að svara fyrirspurnum og taka við athugasemdum ykkar.

Í vikunni var haldinn ársfundur Landspítala þar sem eðli málsins samkvæmt var farið yfir stöðuna á spítalanum eins og hún er núna, auk þess sem húsakosturinn og áform um uppbyggingu voru í brennidepli.

Eins og fram kom hjá forstjóra Landspítala á fundinum munaði miklu í rekstri spítalans að fá það aukna fjármagn sem fjárveitingarvaldið ákvað að leggja honum til í fjárlögum þessa árs. Þessu fé hefur í fyrsta lagi verið varið í endurbætur á tækjakosti, starfsumhverfi og starfsaðstöðu, auk þess sem aukið hefur verið við ákveðna þjónustuþættir í samræmi við mat á því hvar þörfin var mest.

Um leið og ég tók við embætti heilbrigðisráðherra lagði ég áherslu á að koma fjárveitingum til tækjakaupa og viðhalds í eitthvert horf til lengri tíma.

Eftir mat á stöðunni var gerð áætlun til fjögurra ára um aukið fé til tækjamála, jafnt hjá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Við lok áætlunarinnar er markmiðið að framlögin uppfylli árlega þörf fyrir viðhald og endurnýjun tækja miðað við 1,8% af heildarveltu.

Eins og ég sagði í ávarpi á ársfundi Landspítalans er hann nú að mestu kominn fyrir vind og róðurinn að léttast. Varnarbaráttan er að baki og tími sóknar og uppbyggingar tekin við.

Ef ég vík að byggingaráformunum þá hefur þeim verið haldið lifandi, þótt núverandi ríkisstjórn hafi sett sem forgangsverkefni að leggja fram hallalaus fjárlög. Það er ekki í digra sjóði ríkisins að sækja til að fjármagna tugmilljarða framkvæmdir – allra síst á neðan við náum tökum á ríkisfjármálunum. Vandinn snýst hins vegar ekki um fjármögnun. Það er hægt að ganga frá henni á nokkrum dögum. Vandinn snýr því að ríkissjóður hefur ekki bolmagn til að standa undir fjármagnskostnaði og greiða til baka það fé sem fengið er að láni.

Þið sem hér eruð vitið að við Íslendingar höfum ekki efni á að gera allt sem hugurinn girnist og við verðum að velja og hafna. Við þurfum t.d. að velja á milli þess að halda í ýmsar eigur ríkisins eða byggt nýtt þjóðarsjúkrahús. Við eigum að  ræða opinskátt og án fordóma hvort ekki sé skynsamlegt að losa um eitthvað af  eignum ríkisins í fyrirtækjum og fasteignum og nýta til uppbyggingar Landspítala – þjóðarsjúkrahússins okkar. Þið sem hér eruð getið lagt lið í þeirri umræðu.

Að lokum ætla ég að víkja nokkrum orðum að heilsugæslunni. Þar er ýmislegt í skoðun og undirbúningi.

Í byrjun þessa árs kynnti ég áætlun um ýmsar breytingar og úrbætur í heilbrigðismálum undir yfirskriftinni Betri heilbrigðisþjónusta. Yfirskriftin vísar til þess að nokkur stór og mikilvæg verkefni hafa fengið formlegt utanumhald og skipulegan farveg þar sem þau verða unnin í samhengi sem ein heild. Meðal þess sem þarna fellur undir er innleiðing þjónustustýringar, sameining heilbrigðisstofnana og endurskoðun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Við eigum þá sérstöðu meðal nágrannaþjóða að beita lítið sem ekkert markvissri stjórnun á því hvert fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu. Þessu skipulagi – eða segjum heldur þessum skorti á skipulagi – fylgja margvíslegir annmarkar. Þetta er ekki í þágu sjúklinga, þetta stuðlar að ómarkvissri þjónustu, þetta ýtir undir sóun og dregur úr skilvirkni. Við vitum þetta og höfum vitað það lengi. Innleiðing þjónustustýringar er eitt þeirra verkefna sem fellur undir áætlun um Betri heilbrigðisþjónustu.

Á síðustu áratugum hefur verið unnið að því að sameina heilbrigðisstofnanir og mikið hefur unnist í þeim efnum. Enn eru sóknarfæri og ákvörðun liggur fyrir um að sameina heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þannig að ein stofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi. Við sameininguna fækkar yfirstjórnum heilbrigðisstofnana úr ellefu í þrjár. Reynslan sýnir okkur að sameining heilbrigðisstofnana eflir bæði faglegan og fjárhagslegan styrk þeirra.

Endurskoðun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar snýr að því markmiði að byggja skynsamlega hvata inn í kerfið, meta árangur á nýjan hátt miðað við ávinning af þjónustunni og ákveða rekstrarframlög til heilbrigðisþjónustu út frá íbúafjölda á viðkomandi þjónustusvæði og ýmsum lýðfræðilegum og félagslegum þáttum. Fyrstu skref á þessari leið verða breytingar á greiðslukerfi heilsugæslunnar sem fyrirsjáanlega mun taka breytingum samhliða innleiðingu þjónustustýringar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er stór og mikil stjórnsýslueining en starfsstöðvarnar margar og sumar tiltölulega litlar. Það hefur vakið athygli hve mikill munur er á afköstum hjá  þessum stöðvum. Hann verður ekki skýrður með ólíkri íbúasamsetningu á upptökusvæðum þeirra. Einnig er athyglisvert  hve mikill munur er á kostnaði að baki hverrar heimsóknar sjúklings. Vandinn virðist liggja í skipulaginu en ekki ytri þáttum og því vil ég endurskoða innviðina og einfalda stjórnkerfið. Við þurfum að innleiða fjölbreyttari rekstrarform enda hefur rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu gefið góða raun. Ég hef einnig hafið undirbúning að því að gefa heimilislæknum kost á því að starfa sjálfstætt með svipuðum hætti og aðrir sérfræðingar. Með öðrum orðum ég vil auka möguleika þeirra sem ákveða að leggja heimilislækningar fyrir sig sem sérgrein – gefa þeim tækifæri á því að vera eigin herrar, hvort sem þeir búa hér á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu. Ríkið ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu í landinu – um það er enginn ágreiningur. En við eigum að nýta alla möguleika sem fyrir hendi eru og fela einstaklingum, fyrirtækjum og sjálfseignarstofnunum að sinna ákveðnum þáttum. Við eigum að ýta undir samkeppni, aukna hagkvæmi og betri þjónustu. En í öllu starfi megum við ekki missa sjónar af meginmarkmiðum: Að tryggja öllum landsmönnum góða og trygga heilbrigðisþjónustu, óháð fjárhag eða búsetu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum