Hoppa yfir valmynd
8. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Málþing vegna heilsudags í Mosfellsbæ

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra

Velkomnir góðir gestir á málþing um heilsu og hollustu fyrir alla hér í Mosfellsbæ – og til hamingju með þennan fallega dag sem nú er að kvöldi kominn. Mosfellsbær tekur sem kunnugt er þátt í þróunarverkefni með heilsuklasanum Heilsuvin og Embætti landlæknis og vinnur markvisst að því að byggja upp heilsueflandi samfélag.

Ég met þetta mikils, því það leikur enginn vafi á því að ákvörðun sem þessi getur haft mikil og jákvæð áhrif á daglegt líf íbúanna, vellíðan þeirra og heilsu. Mosfellsbær hefur mikið að byggja á, því samfélagið býr að langri reynslu – og þar með þekkingu á sviði heilsueflingar og einnig endurhæfingar. Á þeim grunni var heilsuklasinn Heilsuvin einmitt stofnaður, í því skyni að byggja upp og efla enn frekar alla starfsemi á þessu sviði.

Það var vel við hæfi hjá Mosfellsbæ að tileinka þennan dag sérstaklega heilsu og heilsueflingu, en ég veit að fyrirtæki og stofnanir voru í dag sérstaklega hvött til að bjóða starfsfólki sínu upp á holla næringu, fræðslu um hollustu og hvaðeina sem getur stuðlað að heilsueflingu. Í dag hófst einnig hið árlega hvatningarátak; hjólað í vinnuna sem hófst með opnunarhátíð sem ég var viðstaddur í Laugardalnum klukkan hálfníu í morgun. Reyndar er ég alltaf kominn úr íþróttagallanum á þessum tíma dags og búinn með mína daglegu líkamsrækt – en engu að síður brá ég mér í stuttan hjólreiðatúr í jakkafötunum. Það var ekki laust við að ég öfundaði þá sem gátu haldið áfram og lengra á hjólunum sínum út í sumarið.

Veðurguðirnir hafa verið okkur hliðhollir í dag og gert sitt til að ýta undir útivist og hreyfingu. Annars erum við Íslendingar óðum að átta okkur á því að veðrið er sjaldnast of slæmt fyrir útiveru, málið er bara að klæða sig rétt.

Ég veit að þróunarverkefni ykkar um heilsueflandi samfélag skiptist í fjóra þætti þar sem unnið verður með hvern þátt eitt ár í röð. Í ár verður áherslan lögð á næringu og mataræði en aðrir þættir eru hreyfing og útivist, líðan og geðrækt og loks lífsgæði með forvörnum og fleiri þáttum.

Það er stundum sagt að maðurinn sé það sem hann etur og raunar mikið til í því. En maðurinn er líka það sem hann hugsar og aðhefst – og hvernig við högum þessum þáttum hefur allt áhrif á heilsu okkar og líðan í nútíð og framtíð.

Mig langar að segja frá vorfundi Landssambands heilbrigðisstofnana sem ég sat í liðinni viku, en þar var yfirskrift fundarins sett fram í spurnarformi og snérist um það hvort öldrun á Íslandi sé stærsta vá heilbrigðisstofnana eða verðugt verkefni framtíðar. Ég fékk tækifæri til að ræða þetta frá ýmsum hliðum – og verð að segja að mér finnst fráleitt að tala um vá í þessu samhengi. Við vitum vissulega að öldruðum mun fjölga hratt á næstu árum og áratugum – en það er ekki vá heldur til marks um velmegun, þar sem lífslíkur hér á landi eru með því besta sem þekkist í heiminum.

Við skulum hins vegar hafa það hugfast að það skiptir miklu máli hvaða lífsstíl við temjum okkur hvernig okkur reiðir af þegar árin færast yfir. Með hollum lifnaðarháttum alla ævi aukast verulega líkurnar á því að við getum lifað góðu lífi við ágæta heilsu á efri árum.

Það er stórt hagsmunamál allra að skapa aðstæður sem ýta undir heilbrigði og virkni alla ævi. Einstaklingar bera sjálfir ríka ábyrgð á eigin velferð og heilsu og geta sjálfir haft mikil áhrif með heilbrigðum lífsstíl. Við sjáum þann mikla samfélagslega ávinning sem orðið hefur af stórminnkuðum reykingum fólks og bættri heilsu vegna þess. Ef við náum sambærilegum árangri í baráttu gegn offitu, ofneyslu áfengis og margvíslegum tengdum lífsstílstengdum sjúkdómum leiðir það til bættrar lýðheilsu þjóðarinnar – og þar með einnig heilbrigðari öldrunar. Við þurfum að höfða til ábyrgðar fólks í þessum efnum og jafnframt að beita markvissum forvörnum.

Góðir gestir.

Ég fagna þeim áformum Mosfellsbæjar að byggja upp heilsueflandi samfélag og styð þau heilshugar. Þetta er merkilegt og gott framtak og ég vona svo sannarlega að önnur sveitarfélög muni eitt af öðru fylgja ykkar góða fordæmi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum