Hoppa yfir valmynd
12. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Afmælisráðstefna Krabbameinsfélags Íslands, 9. maí 2014

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Heil og sæl öll og til hamingju með tvöföld tímamót – annars vegar 50 ára starfsafmæli Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og hins vegar 60 ára afmæli Krabbameinsskrárinnar.

Það er merkilegt til þess að hugsa að heil 60 ár eru liðin frá upphafi krabbameinsskráningar á Íslandi, en Krabbameinsskráin hóf starfsemi í maí 1954 og hefur alla tíð verið starfrækt af Krabbameinsfélaginu. Helsti hvatamaður að stofnun skrárinnar var Níels Dungal, en Ólafur Bjarnason var fyrsti yfirlæknir hennar. Níels skrifaði grein um nauðsyn þess að hefja skipulega skráningu krabbameina í Fréttabréfi um heilbrigðismál árið 1949 og skrifaði þar orð sem vöktu eftirtekt, eða eitthvað á þá leið að til þess að vinna sigur á óvini sínum þurfi maður að þekkja hann. Níels var framsýnn, því ekki aðeins lagði hann áherslu á að fá ljósa mynd af ástandinu í þessum efnum á sínum tíma, heldur dró hann skýrt fram mikilvægi þess að gera samanburð mögulegan síðar meir. Því væri nákvæm skrá yfir alla krabbameinssjúklinga mikilvægur grundvöllur að starfsemi Krabbameinsfélagsins.

Við höfum auðvitað ekki sigrast á krabbameinum – en það er með sanni hægt að segja að margir áfangasigrar hafi náðst. Greiningu og meðferð hefur fleygt fram og batahorfur þeirra sem greinast hafa stóraukist, þótt vissulega sé það misjafnt eftir því um hvaða mein er að ræða.

Mér er sagt að þær séu fáar upplýsingaveiturnar sem oftar er vitnað til í fræðigreinum Læknablaðsins en Krabbameinsskráin.

Hún er mikilvæg starfsemi Krabbameinsfélagsins til forvarna og fræðslustarfs, heilbrigðisyfirvöld sækja í hana margvíslegar upplýsingar til að byggja á spár og áætlanir og síðast en ekki síst er hún ómetanleg forsenda rannsókna. Norðurlandaþjóðirnar færa allar vandaðar krabbameinsskrár sem haldnar hafa verið í áratugi og ná til allra íbúa landanna. Þarna gefst kostur á samanburði milli landa, t.d. um nýgengi mismunandi krabbameina, lífslíkur og þar fram eftir götunum. Allar svona upplýsingar eru mikilvægar og hafa margvíslegt notagildi.

Krabbameinsfélag Íslands nýtur trausts og virðingar hjá þjóðinni. Það gegnir ómetanlegu fræðslu- og forvarnarstarfi og um störf Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins þarf vart að fjölyrða. Það veldur þó áhyggjum hvað dregið hefur úr mætingu kvenna í leghálsskoðun á undanförnum árum. Fyrir tuttugu til þrjátíu árum var mætingin yfir 80% en er nú komin niður fyrir 70% eftir því sem ég veit best. Kannski skýrist þetta að einhverju leyti af þeim góða árangri sem náðst hefur sem gerir það að verkum að konur eru síður á varðbergi gagnvart sjúkdómnum en áður – en hvað sem veldur þá er þetta áhyggjuefni.

Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að minnast hér á forvarnir og lífsstíl, þar sem margir áhættuþættir krabbameina eru vel þekktir og því augljóst hvernig breyttir og bættir lifnaðarhættir geta haft áhrif til góðs og dregið úr nýgengi krabbameina. Þetta hefur auðvitað sýnt sig glöggt varðandi reykingar sem eru sterkur áhættuþáttur. Baráttan gegn reykingum hefur svo sannarlega skilað miklum samfélagslegum ávinningi.

 En það eru víðar verk að vinna á sviði fræðslu og forvarna, gagnvart áhættu af áfengi, mataræði, ofþyngd og hreyfingarleysi svo eitthvað sé nefnt.

Góðir gestir.

Krabbameinsfélag Íslands hefur lengi ýtt á eftir því að stjórnvöld vinni heildstæða Krabbameinsáætlun. Eins og þið eflaust vitið er nú unnið að gerð slíkrar áætlunar. Þetta umfangsmikla verkefni er nú óðum að taka á sig mynd og ég bind vonir við að hægt verði að leggja fram Krabbameinsáætlun undir lok þessa árs. Gert er ráð fyrir að setja fram markmiðsmælda og tímasetta aðgerðaáætlun til þriggja eða fimm ára. Verkefninu hefur verið skipt upp í fimm afmarkaða verkþætti sem unnið hefur verið að í jafnmörgum vinnuhópum. Þetta eru vinnuhópar um faraldsfræði og skráningu, forvarnir og heilsugæslu, rannsóknir og gæðastjórnun, meðferðarþætti og mannafla og loks hópur um eftirmeðferðarþætti og líknandi meðferð. Þvert á þessa hópa starfa tveir rýnihópar sem í eiga sæti fulltrúar fullorðinna sem greinst hafa með krabbamein og fulltrúar krabbameinsgreindra barna og aðstandenda þeirra.

 

Eins og ég sagði áðan, þá höfum við ekki sigrast á krabbameinum – en við búum hins vegar að viðamikilli þekkingu og upplýsingum sem byggst hafa upp í gegnum árin og áratugina – meðal annars með markvissri skráningu krabbameina og upplýsinga um þau. Þessi þekking hefur skipt sköpum í baráttunni, líkt og Níels Dungal batt vonir við, og hún mun nýtast okkur áfram. Ég bind vonir við að Krabbameinsáætlunin muni einnig vega þungt í þessu efni og stuðla að enn betri árangri á komandi árum.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum