Hoppa yfir valmynd
22. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri 22. maí 2014

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Heil og sæl öll.

Ágætu ársfundargestir og starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri.

Ég þarf vart að lýsa því hvað mér finnst ánægjulegt að fá tækifæri til að hitta ykkur sem hér eruð saman komin, segja nokkur orð og ekki síður að fá tækifæri til að heyra hvað þið hafið að segja sem eigið heiðurinn af öflugu starfi þessa næststærsta sjúkrahúss á landinu.

Sem Norðlendingur, íbúi hér á Akureyri til margra ára - og bæjarstjóri um alllangt skeið – tel ég mig vita nokkuð vel hvað þessi stofnun skipar stóran og mikilvægan sess, ekki aðeins hjá íbúum hér á Akureyri, heldur í öllu heilbrigðisumdæmi Norðurlands – sem er svo sannarlega víðfeðmt.

Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir raunar enn stærra hlutverki. Þjónusta þess er ekki aðeins bundin við umdæmið, heldur veitir það sérhæfða sjúkrahúsþjónustu á landsvísu, það er kennslusjúkrahús og líkt og kveðið er á um í lögum er það varasjúkrahús Landspítala. Það er ekki síst í því ljósi sem Miðstöð sjúkraflutninga er einnig staðsett hér á Akureyri. Læknavakt fyrir sjúkraflugið hefur verið starfrækt frá sjúkrahúsinu frá árinu 2002 – og síðast en ekki síst annast sjúkrahúsið rekstur Sjúkraflutningaskólans sem hefur það hlutverk að skipuleggja og annast menntun  þeirra sem starfa við sjúkraflutninga, hvar sem er á landinu. Þar með er talin framhalds- og símenntun fyrir sjúkraflutningamenn og aðra þá sem vinna við aðhlynningu sjúkra og slasaðra utan sjúkrahúsa. – Ég kem aðeins nánar að málefnum Sjúkraflutningaskólans hér á eftir, því hlutverk hans og mikilvægi á eftir að aukast á komandi árum.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð hve miklu skiptir fyrir Norðlendinga að geta sótt almenna og jafnframt margvíslega sérhæfða þjónustu hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsemi þess snýst um öryggi, greiðan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu og í þessu felst jafnframt mikilvæg forsenda fyrir búsetu fólks á svæðinu. Hér er þó langt í frá allt talið. Eins og ég nefndi áðan er Sjúkrahúsið á Akureyri kennslusjúkrahús. Það annast starfsnám háskólanema í heilbrigðisvísindagreinum við Háskólann á Akureyri, tekur þátt í starfsnámi annarra háskóla- og framhaldsskólanema í grunn- og framhaldsnámi á heilbrigðissviði í samvinnu við Landspítalann, Háskóla Íslands og aðrar heilbrigðisstofnanir og skóla. Við sjúkrahúsið eru stundaðar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og fagfólk hér á þess kost að sinna fræðastörfum við Háskólann á Akureyri og eftir atvikum aðra háskóla.

Við sjáum það vel í samstarfi og samspili Sjúkrahússins á Akureyri og Háskólanum hér hvernig eitt styður við annað og hvernig sameinaður styrkur stuðlar að frekari vexti, uppbyggingu og framförum. Í senn er þetta akkeri landsbyggðarinnar og lyftistöng.

Í desember síðastliðnum var ég svo heppinn að vera meðal gesta þegar haldið var upp á að 60 ár voru liðin frá því að starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri fluttist í nýtt húsnæði á núverandi stað. Það gaf mér tilefni til að rifja upp sögu sjúkrahúss hér í bæ, sem að stofni til er 140 ára gamalt, því sjúkrahús var fyrst stofnað á Akureyri í Aðalstræti 14 í húsi því sem Friðrik C.M Gudmann kaupmaður gaf í þessu skyni og hefur síðan borið nafn gefandans; Gudmanns Minde. Í því sama húsi fór fram fyrsta skurðaðgerðin hér á landi þar sem sjúklingurinn var svæfður meðan á aðgerð stóð, fyrir 157 árum, hvorki meira né minna. Það er því ekki að sökum að spyrja: Við Norðlendingar höfum löngum verið í fararbroddi á svo mörgum sviðum.

Í ljósi langrar sögu og farsæls starfs þarf engan að undra hvað sjúkrahúsið er mikilvægt í lífi fólks hér og íbúarnir bera hag þess fyrir brjósti. Um árabil hefur verið rætt um að koma á fót Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri og þau áform urðu að veruleika í lok síðasta árs. Það styrkir sjúkrahúsið þegar velvild fólks og traust til sjúkrahússins raungerist í slíkum samtökum og stofnun þeirra er því einkar ánægjuleg.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þungan rekstur, niðurskurð og aðhald liðinna ára, sem Sjúkrahúsið á Akureyri hefur ekki farið varhluta af, frekar en aðrar stofnanir. Þið þekkið þær aðstæður á eigin skinni og vissulega hefur þetta verið erfitt og reynt á alla þætti rekstrarins. En nú er land tekið að rísa og tími sóknar og uppbyggingar framundan. Alþingi samþykkti í fjárlögum þessa árs auknar fjárveitingar til sjúkrahússins, með 200 milljónum króna til að styrkja rekstrargrunninn, 150 milljónir króna til tækjakaupa og 144 milljónir króna til viðhaldsframkvæmda, eða samtals nærri 500 milljónir króna. Það munar um þetta og mér skilst á forstjóranum að með því að halda vel á spöðunum náist það markmið að skila hallalausum rekstri í árslok.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka forstjóranum, Bjarna Jónassyni, fyrir gott samstarf og styrka stjórn. Bjarni starfaði sem settur forstjóri frá því í mars 2012 í fjarveru Halldórs Jónssonar, en var skipaður forstjóri  í september á liðnu ári. Ég þekki Bjarna vel frá fyrri störfum og treysti honum því sérstaklega vel vel til að leiða sjúkrahúsið áfram með því góða fólki sem hér starfar. Hér er fyrir hendi metnaður og vilji til þess að gera gott sjúkrahús enn betra og öflugra. Það sést glöggt á þeirri framtíðarsýn sem hér hefur verið mótuð, þar sem meðal annars er stefnt að því að Sjúkrahúsið á Akureyri verði fyrsta sjúkrahúsið á Íslandi til að öðlast alþjóðlega vottun.

Hér eru uppi áform um að koma á fót líknardeild, fyrir liggur þarfagreining og mat fagaðila á staðsetningu slíkrar deildar – en ljóst er að það mun kalla á ýmsar breytingar á skipulagi húsnæðis sjúkrahússins og jafnvel einhverjar byggingaframkvæmdir. Annað mál sem er í undirbúingi er rekstur sjúkrahótels í tengslum við sjúkrahúsið hér á Akureyri. Það leikur enginn vafi á því að sjúkrahótel mun styrkja reksturinn og bæta til muna þjónustu við þá sem hingað sækja um lengri veg. Þetta mál er til skoðunar í ráðuneytinu og hjá Sjúkratryggingum Íslands. Það verður að segjast sem er að fjármögnun til reksturs sjúkrahótels liggur ekki fyrir, en viljann vantar ekki af minni hálfu og ráðuneytisins, því kostirnir eru augljósir.

Það gladdi mig mjög að frétta skömmu fyrir þennan fund að nú hefur ræst úr stöðu geðheilbrigðismála hér með samningi sem tekist hefur milli Sjúkrahússins á Akureyri, Landspítalans og Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Ég bind vonir við að með þessu komist þessi mál í viðunandi horf þannig að íbúum hér sé tryggð þessi mikilvæga þjónusta. Þessi samvinna Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, undir forystu Páls Matthíassonar og Bjarna Jónassonar, er til eftirbreytni og til fyrirmyndar um hvernig öflugustu heilbrigðisstofnanir landsins geta unnið saman við að efla þjónustuna við landsmenn. Á komandi árum eigum við eftir að auka samstarfið innan heilbrigðiskerfisins um allt land enn frekar og munu Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri leika þar lykilhlutverk.

Ég nefndi áðan Sjúkraflutningaskólann – sem rekinn er hér við sjúkrahúsið og þjónar landinu öllu. Nú liggur fyrir ákvörðun um að efla skólann – sem tvímælalaust mun styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri og undirstrika sérstöðu þess sem annað stærsta sjúkrahúsið á landinu. Hingað til hefur kostnaður við menntun þeirra sem sækja skólann fallið á einstakar heilbrigðisstofnanir. Nú verður breyting á þessu. Efla á námið til að koma til móts við auknar kröfur sem fylgja sífellt miðlægari starfsemi stærri sjúkrahúsa og þar með auknum kröfum til sjúkraflutninga.

Kostnaður vegna umfangsmeira náms mun aukast – en til að mæta því hef ég ákveðið að veita auknu  rekstrarfé til skólans. Samhliða þessu verður samningur ráðuneytisins og skólans um reksturinn endurskoðaður með áherslu á aukið hlutverk hans og starfsemi. Þar verður skilgreint hvaða skyldur skólinn skuli hafa gagnvart einstökum heilbrigðisumdæmum og kaupstöðum og er markmiðið að mæta þörf fyrir eflingu heilbrigðisþjónustu í héraði, sérstaklega í dreifðari byggðum landsins.

Með þessu móti verður skotið styrkari stoðum undir starfsemi sjúkraflutningaskólans.  Þó svo að sjúkraflutningaskólinn sinni öllu landinu og ekki síst höfuðborgarsvæðinu í menntunarmálum sjúkraflutningamanna verður vaxandi sérstaða Akureyrar sem miðstöðvar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni styrkt enn frekar.  Í því sambandi má nefna núverandi miðstöð sjúkraflutninga á landinu, þátttöku Háskólans á Akureyri í norðurslóðaverkefni um heilbrigðisþjónustu og áhugaverðum og framsæknum hugmyndum um upptöku náms innan heilbrigðisvísinda á vettvangi héraðsheilbrigðisþjónustu. Hér eru því mikil tækifæri fyrir Akureyri sem vaxandi miðstöðvar heilbrigðisþjónustu í dreifbýli í samstarfi við sambærilega stofnanir og staði í nágrannalöndum okkar á norðurslóðum.

Góðir ársfundargestir.

Þau eru mörg og margvísleg verkefnin sem heilbrigðisþjónustan þarf að fást við á hverjum tíma – miserfið eins og gengur. Þegar á reynir standa stórar stofnanirnar líkt og Sjúkrahúsið á Akureyri eins og klettur í hafinu. Það er til mikils ætlast af ykkur sem hér starfið – og saman fara væntingar og traust almennings til öruggrar og góðrar þjónustu, alltaf þegar á reynir. Ég veit þið standið undir þessum væntingum og fyrir það er ég þakklátur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum