Hoppa yfir valmynd
23. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

37. þing Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra 23. - 25. maí 2014

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Heilir og sælir gestir og góðir þingmenn á 37. þingi Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra. Það er ánægjulegt að fá heiðurinn af því að setja þingið og ég óska ykkur árangursríkra þingstarfa þessa daga sem framundan eru.

Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, á sér orðið langa sögu, en félagið var stofnað þann 4. júní 1959. Margt hefur gerst og margt hefur breyst á þessum 55 árum og flest á hinn betri veg í lífi fatlaðs fólks. Sjálfsbjörg á þar stóran hlut af máli, því samtökin eru ekki aðeins öflug baráttusamtök, þau eru einnig hugmyndasmiðja, þau koma góðum og þörfum málum á framfæri og þau veita stjórnvöldum aðhald og oft leiðsögn líka, sem faglegt og ábyrgt félag.

Þegar ég var beðinn um að flytja hér ávarpsorð fór ég að velta fyrir mér hvaða málefni það eru sem helst varða félagsmenn Sjálfsbjargar. Eftir nokkra umhugsun sá ég að það eru ekki einhver nokkur mál, í raun og veru er það allt sem lýtur að því að vera þátttakandi í samfélagi. Eðli málsins samkvæmt eru aðstæður fólks til virkrar samfélagsþátttöku misjafnar – og þá þarf að aðlaga samfélagið þörfum fólks og ryðja úr vegi hindrunum. Kannski er það verkefnið sem í hnotskurn lýsir verkefnum Sjálfsbjargar.

Ég get ekki sleppt því að fara með vísu sem ég rakst á á vef Sjálfsbjargar, þar sem lýst er Sjálfsbjargarferð árið 1964, þar sem haldið var á nýjar og erfiðar slóðir; Borgarvirki í Húnaþingi. Vísunni á vefnum fylgir mynd sem sýnir Guðríði Ólafsdóttur á ferð um Borgarvirki, en Guðríður varð seinna formaður Sjálfsbjargar. Þetta ferðalag var um slóðir sem fyrirfram hefðu verið taldar óyfirstíganlegar hreyfihömluðu fólki – en vísan lýsir því hvernig hægt er að yfirstíga erfiðustu hindranir þegar saman fer vilji, kjarkur og þrautseigja:

Þau bröltu í Borgarvirki
og blöskraði ekki hót
höltruðu með hörku
og hækju lömdu í grjót.
Seigir þóttu forðum þeir
Suðurnesjamenn,
en táp og fjör og frískar konur
finnast hér enn.

 

Það má segja að í gegnum tíðina hafi margt virkið sem staðið hefur í vegi fatlaðs fólks verið fellt – en auðvitað eru enn ýmsar óunnar orystur. Ég vil gjarna leggja baráttunni lið og leggja mitt af mörkum sem heilbrigðisráðherra til þess að auðvelda fötluðu fólki virka þátttöku í samfélaginu.

Ég nefndi áðan að þau málefni sem varða fatlað fólk – og þar með Sjálfsbjörgu – varða öll helstu svið samfélagins. Í grófum dráttum eru þetta atvinnumál, ferlimál, heilbrigðismál, húsnæðismál og menntamál. Kannski má kalla þetta allt aðgengismál, þ.e. að fatlað fólk hafi öruggt og gott aðgengi að öllum þessum þáttum. Það sem einkum snýr að mínum verkefnum eru heilbrigðisþjónustan og hjálpartæki. Þetta eru mikilvæg mál og ég geri mér vel grein fyrir því hvað miklu skiptir að aðgangur fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu sé greiður í öllum skilningi þess orðs. Í því sambandi skiptir miklu máli að heilbrigðiskostnaður verði ekki íþyngjandi og standi í vegi fyrir því að fólk sæki sér nauðsynlega þjónustu. Þess vegna legg ég mikla áherslu á endurskoðun á þátttöku fólks í greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu. Markmið mitt er að fella kostnað vegna heilbrigðisþjónustu undir eitt kerfi, hvort sem um er að ræða kostnað sem fellur til vegna læknisþjónustu, lyfja, rannsókna, sjúkraþjálfunar eða annars, undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag. Þannig er stefnt að því að þátttaka fólks í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð, hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf þess fyrir heilbrigðisþjónustu er.

Við þurfum að ná víðtækri sátt um greiðsluþátttökukerfi – ekki aðeins pólitískt heldur sátt meðal alls almennings. Markmiðið er að verja þá sem mest þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda og það markmið næst ekki nema allir séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum.

Ég legg einnig mikla áherslu á forvarnarstarf í heilbrigðismálum almennt og allir landsmenn eiga að njóta góðs af markvissu forvarnarstarfi og heilsueflingu. Með sameiningu heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum tel ég að efla megi og bæta heilbrigðisþjónustu, nýta betur þann mannafla sem fyrir er, styrkja faglegt starf og þar með bæta þjónustu.

Verkefni og viðfangsefni á sviði heilbrigðismála eru óþrjótandi. Margt er vel gert, en margt þarf líka að bæta. Breytingar og úrbætur vil ég vinna í víðtækri samvinnu og góðri sátt og því legg ég mikið upp úr því að eiga samstarf og samráð við þá notendahópa sem mikið þurfa á þjónustunni að halda, líkt og félagsmenn Sjálfsbjargar.

Áður en ég lýk máli mínu verð ég að skjóta að hamingjuóskum til Sjálfsbjargar fyrir það að í gær var það gert heyrinkunnugt að Sjálfsbjargarheimilið er fyrirmyndarstofnun ársins samkvæmt könnun sem SFR, stéttarfélag í almannaþjónustu stendur fyrir árlega. Þetta er svo sannarlega ánægjulegt og ástæða fyrir hlutaðeigandi að vera stolt af því.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, en ítreka óskir mínar til ykkar um gott og gagnlegt þing.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum