Hoppa yfir valmynd
22. september 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna Bláa naglans um krabbameinsrannsóknir og meðferð á Íslandi

Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri flutti ávarp á málþingi Bláa naglans 20. september 2014 fyrir hönd Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra.

Góðir gestir.

Ég mæli hér fyrir munn Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, sem gat því miður ekki verið hér í dag en bað mig fyrir góðar kveðjur til ykkar allra.

Mjór er mikils vísir segir orðækið – og það á alveg einkar vel við um Bláa naglann, tilurð hans og hvernig hann er nú orðinn þekkt stærð í samfélaginu sem tákn baráttunnar gegn krabbameinum karla. Það er aðdáunarvert hvernig upphafsmaðurinn að þessu öllu saman, Jóhannes Valgeir Reynisson, hefur skapað Bláa naglanum nafn og tilgang sem landsmenn þekkja og lagt þannig mikið af mörkum til þess að efla almenna vitund og umræðu um krabbamein karla. Blái naglinn leit fyrst dagsins ljós árið 2012 sem heimildamynd um baráttu Jóhannesar Valgeirs og fjölskyldunnar við veikindi hans eftir að hann greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli. Það er ábyggilegt að myndin hefur reynst mörgum í sömu sporum mikilvæg, meðal annars vegna þess að krabbamein karla hafa reynst mörgum feimnismál og því mikil þörf fyrir að brjóta ísinn og opna umræðuna. Það má segja að Blái naglinn hafi vaxið út úr myndinni og öðlast sjálfstætt líf og tilgang sem vakningarátak og einnig sem fjáröflunarleið þar sem allur ágóði rennur beint til tækjakaupa á Landspítala.

Rúmlega 700 karlar á Íslandi greinast með krabbamein ár hvert. Algengust meina eru krabbamein í blöðruhálskirtli, lungum og í ristli. Þetta segir sitt um umfangið og hve mikið er í húfi að beita markvissum leiðum til að draga úr nýgengi þessara meina, bæta greiningu og meðferð og lækka dánartíðnina. Mikið hefur áunnist eins og sést til dæmis á því að um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur – en nú geta um 63% vænst þess að lifa svo lengi. Þrátt fyrir að margir sigrar hafi unnist er krabbamein afar skæður sjúkdómur og alveg sérstakt áhyggjuefni hvað nýgengi ýmissa krabbameina hefur aukist mikið á liðnum áratugum, eins og til dæmis ristilkrabbamein, bæði hjá konum og alveg sérstaklega mikið hjá körlum.

Ég nefndi áðan nauðsyn þess að beita markvissum leiðum í baráttunni við krabbamein – og ætla aðeins að staldra við orðið markvisst hvað það varðar. Krabbameinsfélag Íslands hefur um árabil sótt það fast að heilbrigðisyfirvöld láti vinna sérstaka Krabbameinsáætlun en slík áætlun byggist einmitt á því – að unnið sé skipulega og markvisst og byggt á bestu þekkingu á hverjum tíma. Nú hillir undir að Krabbameinsáætlun líti dagsins ljós – en heilbrigðisráðherra ýtti úr vör vinnu við gerð hennar fljótlega eftir að hann tók við embætti og hefur lagt mikla áherslu á þetta stóra verkefni. Þess ber að geta að margar Evrópuþjóðir hafa á liðnum árum sett sér krabbameinsáætlanir. Norðmenn riðu á vaðið árið 1997 og 25 þjóðir sem aðild eiga að Evrópusambandinu hafa gert hið sama.

Krabbameinsáætlanir vestrænna ríkja eru jafnan sjálfstæðar áætlanir og hafa ákveðinn samhljóm sem nýtist til samanburðar og til að fylgja eftir einstökum aðgerðum. Þessi háttur verður einnig hafður á hér, þótt ráðgert sé að áætlunin falli undir nýja heilbrigðisáætlun sem heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu fyrir áramót. Fjöldi manns hefur komið að gerð Krabbameinsáætlunarinnar, bæði beint og sem ráðgefandi og eins hefur verið haft víðtækt samráð við einstaklinga eða fulltrúa hópa sem greinst hafa með krabbamein.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að Krabbameinsáætlunin verði heildstæð og því mun hún ná til þátta eins og faraldsfræði og skráningar, forvarna og heilsugæslu, rannsókna og gæðastjórnunar, meðferðarþátta og mannafla og loks um eftirmeðferð og líknandi meðferð. Áætlunin verður sett fram sem aðgerðaáætlun með skilgreindum markmiðum.

Það liggur fyrir að í krabbameinsáætluninni verður ályktað sérstaklega um skimanir vegna ristils- og endaþarmskrabbameina og krabbameins í blöðruhálskirtli. Byggt verður á sannreyndum gögnum þar sem ávinningur skimana og snemmgreininga verður metinn í báðum þessum ört vaxandi sjúkdómaflokkum. Enn fremur verða lagðar til aðgerðir til að auka þátttöku í skipulögðum skimunum þar sem sjónum verður beint sérstaklega að þekktum áhættuhópum í samfélaginu. Með þessu móti má bæta enn frekar árangur skimana sem leiðir til lægri dánartíðni og minni sjúkdómabyrði en ella.

Góðir gestir.

Umræða um skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi og einnig í blöðruhálskirtli er ekki ný af nálinni og skoðanir sérfræðinga fara ekki að öllu leyti saman. Árið 2002 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um skimun fyrir ristilkrabbameini. Úr því varð ekki – en málið var aftur tekið upp og samþykkt þingsályktun árið 2007 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra falið að undirbúa skimun sem átti að hefjast árið 2008. Enn er ekki farið að skima fyrir ristilkrabbameinum en heilbrigðisráðherra hefur fullan hug á því að hrinda málinu í framkvæmd. Það verður þó ekki gert fyrr en krabbameinsáætlunin hefur verið lögð fram – en eins og fram er komið er þess ekki langt að bíða.

Síðastliðið vor var svo samþykkt á Alþingi ályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa og hrinda í framkvæmd víðtæku forvarnarstarfi vegna krabbameins í blöðruhálskirtli – og jafnframt tekið fram að þetta mál yrði unnið samhliða gerð krabbameinsáætlunarinnar.

Baráttan gegn krabbameinum mun halda áfram og í þeirri glímu er þekkingin besta vopnið. Þá á ég ekki aðeins við þekkingu læknavísindanna og framfara á sviði greiningar og meðferðar – heldur ekki síður þekkingar sem snýr að margvíslegum áhættuþáttum og áhrifa lífsstíls fólks á nýgengi krabbameina. Margt er þegar vitað í þessum efnum – og þess vegna skiptir einnig miklu máli þekking almennings á því sem hver og einn getur gert til að draga úr líkum á því að veikjast – en einnig er mikill ávinningur fólgin í því að almenningur hafi góða þekkingu á helstu einkennum sem gefa þarf gaum og að fólk leiti læknis verði það einkenna vart.

Áður en ég lýk máli mínu verð ég að nefna nýja línuhraðal Landspítalans sem formlega var tekinn í notkun sl. vor eftir nokkurra mánaða reynslutíma. Það þarf ekki að fara mörgum orðum hér um mikilvægi þessa tækis í meðferð krabbameina og hve miklu máli það skiptir fyrir spítalann og sjúklingana. Það sem mætti hins vegar fara um mörgum orðum er hvað margir lögðu á plóginn til þess að gera kaup á þessu dýra tæki möguleg. Blái naglinn átti þar svo sannarlega hlut að máli, þjóðkirkjan stóð fyrir söfnunarátaki og fjöldi annarra félagasamtaka og einstaklinga gáfu fé til kaupanna. Þetta er ómetanlegt og verður ekki fullþakkað.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri – en þakka fyrir þessa áhugaverðu haustráðstefnu sem Blái naglinn stendur fyrir – og þakka sömuleiðis öllu því góða fólki sem mun miðla af þekkingu sinni í þeim erindum sem hér fara á eftir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum