Hoppa yfir valmynd
17. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Kynningarfundur um mótun geðheilbrigðisstefnu, 17. október 2014

Kynningarfundur um mótun geðheilbrigðisstefnu. Grand hótel 17. Október kl. 13.00.
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra.

Ágætu gestir.

Snemma á þessu ári samþykkti Alþingi ályktun þar sem heilbrigðisráðherra var ásamt félags- og húsnæðismálaráðherra falið að vinna stefnu í geðheilbrigðismálum.

Segja má að stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sé löngu tímabær og hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lagt áherslu á að sérstök stefna sé til í geðheilbrigðismálum þjóða. Nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa brugðist við og sett sér slíkar stefnur en það höfum við ekki enn gert hér á Íslandi.

Heilsan er okkur öllum mikilvæg og þá ekki síst geðheilsan því ef hugurinn býr ekki við ákveðið jafnvægi getur lífið orðið býsna óreiðukennt og erfitt, bæði fyrir þá sem þjást af geðröskunum og þá sem næst þeim standa.

Geðraskanir eru önnur af tveim algengustu ástæðum fyrir örorku hér á landi og reyndar víðast hvar í hinum vestræna heimi.

Um 50% geðraskana koma fram þegar á barns- eða unglingsaldri  og 75% geðraskana eru komnar fram fyrir 25 ára aldur.

Því er afar mikilvægt að við sem samfélag búum eins vel að börnum okkar og ungmennum eins og nokkur kostur er til að fyrirbyggja  að geðraskanir þróist og sinnum vel meðferðarþættinum   þegar veikindi gera vart við sig.

Ítrekað hefur komið fram að skortur sé á samhæfingu í meðferð langvinnra sjúkdóma og það er gert að umræðuefni í þingsályktuninni. Við veitingu gæðastyrkja heilbrigðisráðherra sem verða auglýstir á næstu dögum, leggjum við áherslu á verkefni sem lúta að því að þróa þjónustu þar sem heildstætt mat er lagt á þarfir einstaklinga. Ég bind vonir við að slík verkefni muni skila okkur í átt að heildstæðari þjónustu.

Rannsóknir sýna að hátt í þriðjungur heimsókna á heilsugæslustöðvar eru vegna geðraskanna. Bæði er hér um að ræða íslenskar rannsóknir og erlendar. Því þurfum við, eins og kemur fram í þingsályktuninni, að huga sérstaklega að því hvernig heilsugæslan getur betur unnið að bættu geðheilbrigði. Hluti af verkefni sem ég hef ýtt úr vör undir heitinu Betri heilbrigðisþjónusta snýr að því að efla heilsugæsluna og gera henni betur kleift að sinna því hlutverki að vera fyrsta stigs þjónusta fyrir alla, þar með talið fólk með geðraskanir.

 

 

Innleiðing hreyfiseðla sem lýkur á næstu þremur árum, tel ég að muni líka nýtast okkur í þessari vegferð því eins og þið vitið miklu betur en ég er hreyfing áhrifarík meðferð við vægu þunglyndi og ekki síðri en lyfjameðferð. Og það sem meira er hreyfing kostar lítið.

Í þingsályktuninni er sérstaklega gert að umræðuefni að geðheilbrigðisþjónusta fái ekki fjármagn í réttu hlutfalli við umfang vandans og almennt sér fjárskortur í þeirri þjónustu. Við erum að glíma við fjárskort alla daga en auðvitað þurfum við að vera óhrædd við að skoða hvort því fé sem handbært er sé varið á bestan máta og ég geri ráð fyrir að þið munið koma með hugmyndir og tillögur varðandi þetta atriði.

Eins og við vitum hafa margar stefnur verið samþykktar í gegn um tíðina um fjölmörg mál. Það er til þess að gera einfalt, að setja fram stefnu. Eftirfylgnin getur hins vegar verið mjög snúin. Ein hindrun er að fólk er ekki alltaf mjög áfjáð í breytingar. Hins vegar hefur það verið viðvarandi þegar kemur að opinberum stefnum að þeim fylgir oft ekki nauðsynlegt fjármagn til að hrinda aðgerðum þeirra í framkvæmd.

Við erum meðvituð um það og viljum leitast við að fjármagna og framkvæma þær aðgerðir sem þessi stefna og aðgerðaáætlun mun kveða á um.

 

Í því samhengi er forgangsröðun mikilvæg og að við sammælumst um það sem við teljum við núverandi aðstæður mikilvægast og hrindum því í framkvæmd og gerum það vel.

Ég vil að lokum nefna að verið er að vinna fjölskyldustefnu á vettvangi félagsmálaráðherra og nokkuð augljóst að geðheilbrigðisstefna og fjölskyldustefna geta stutt hvor aðra. Því legg ég áherslu á að stýrihópurinn verði í góðu sambandi við þá sem stýra undirbúningi fjölskyldustefnunnar.

En við erum hér í dag til kynna þá vinnu sem framundan er við að móta geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun. Okkur er ekki ætlaður mikill tími til verksins þar sem þingsályktun að geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun til fjögurra ára á að leggja fyrir vorþing 2015.

Ég vona að þessi fundur verði okkur til gagns í því verki sem framundan er og hvet ykkur öll til að koma á framfæri upplýsingum, ábendingum og vangaveltum sem þið teljið skipta máli í þessu ferli. Þannig tel ég að við náum að finna þá þætti sem mikilvægastir eru fyrir geðheilsu þjóðarinnar.

Gangi okkur vel.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum