Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Málþing Tannlæknafélags Íslands um tannheilsu aldraðra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Góðir gestir.

Ég þakka Tannlæknafélagi Íslands fyrir að efna til málþings um tannheilsu aldraðra á Íslandi og bjóða fjölbreyttum hópi fólks að borðinu.  Málefnið er mikilvægt og umræðan þörf.

Á dögunum rakst ég á brot úr Alþýðubók Halldórs Kiljans Laxness frá árinu 1929, en þar segir hann að menn ættu að huga betur að tannhirðu. Eftir að hafa farið yfir hreinlætismál líkamans snýr hann sér að tönnunum: „Það er einn átakanlegastur misbrestur í uppeldi íslenskrar alþýðu að hún lærir ekki að hirða tennur sínar. Hvar sem ég hef verið samvistum við fólk sömu stéttar í Evrópu og Ameríku, hef ég þóst taka eftir því, að eitt af frumboðorðum þess væri tannhirðíng. Það boðorð ætti að standa á fremstu blaðsíðu í hinu kristilega íslenska barnalærdómskveri. Í menníngarlöndum kenna foreldrar börnum sínum hirðíngu munns og tanna um leið og þau kenna þeim að baða sig.“

Ef við horfum aftur í tímann getum við sagt með réttu að margt hafi áunnist til að bæta tannheilsu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Til að mynda eru hátt í 70 ár liðin frá því að kennsla hófst í tannlækningum á Íslandi (janúar 1945). Á þeim tíma voru aðeins örfáir tannlæknar í landinu og almennt tannheilbrigði landsmanna afar lélegt. Nokkur tímamót urðu einnig árið 1974 þegar ríkið fór að taka þátt í greiðslum fyrir tannlækningar í gegnum almannatryggingakerfið og miklar framfarir hafa orðið á sviði tannlækninga síðustu áratugi.

Tannleysi er nú blessunarlega á undanhaldi, svo það fer að heyra til undantekninga ef fólk á miðjum aldri er ekki með sínar eigin tennur að mestum hluta til. Í nýjasta Talnabrunni Landlæknis kemur meðal annars fram að tannlausum Íslendingum fækkar hratt.

Það eru mikil lífsgæði að hafa heilbrigðar og góðar tennur.  Við vitum hvað veldur algengustu tannsjúkdómunum og hvernig best er að koma í veg fyrir þá.

Þegar einstaklingur getur ekki, einhverra hluta vegna, sjálfur hugsað um eigin tannhirðu þá flyst ábyrgðin yfir til þeirra sem sjá um aðhlynningu viðkomandi. Þá er mikilvægt að það fólk sé vel menntað til þess að sjá um þennan þátt aðhlynningarinnar og að þessum þætti sé vel sinnt.

Mér finnst áhugaverðar hugmyndir um að senda þá einstaklinga sem innritast á hjúkrunarheimili til tannlæknis áður en þeir koma inn á heimilin og fá leiðbeiningar um tannhirðu þessara einstaklinga. Þannig væri starfsfólk heimilanna með betri upplýsingar og leiðbeiningar varðandi heimilismennina og gætu passað upp á að tannheilsu þeirra hrakaði ekki. Þið þekkið öll dæmin um heilabilaða eða mikið veika einstaklinga sem geta illa eða alls ekki tjáð sig. Síðar áttar fólk sig á því að vanlíðan þeirra stafar stundum af ástandi í munnholi og jafnvel tannpínu sem hægt er að meðhöndla þannig að þessi síðustu ár verði þeim bærilegri.

Það er líka mikilvægt að beina sjónum að næringu aldraðra og huga að mataræði þeirra hvort sem er heima fyrir eða á heilbrigðisstofnunum. Hætt er við að næringu verði ábótavant ef tannheilsan er ekki í lagi og það kemur niður á tannheilsunni ef neysluvenjur fólks eru ekki góðar.

Nú er í velferðarráðuneytinu unnið að gerð nýrrar heilbrigðistefnu sem ég stefni á að leggja fram á þessu þingi. Þar mun birtast framtíðarsýn í heilbrigðismálum landsmanna til ársins 2020 og meðal annars verður fjallað um stefnu í tannvernd aldraðra.

Ég hef lagt sérstaka áherslu á að auka fræðslu til almennings um tannvernd, bæta heimtur barna og ungmenna til tannlækna með samvinnu tannlækna og heilsugæslu. Þá er einnig mikilvægt að sjónum verði nú beint í auknum mæli að tannvernd aldraðra.

Skipulag og starfshættir heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga munu án efa taka verulegum stakkaskiptum á næstu árum. Framþróun í heilbrigðisvísindum, aukin þekking fólks og tækniþróun hefur stuðlað að nýjum og betri aðferðum við meðhöndlun fjölda sjúkdóma. Fyrirsjáanlegar eru umtalsverðar breytingar á aldursamsetningu íslensku þjóðarinnar þar sem eldri borgurum fjölgar. Þessi þróun eykur þörf á að bæta lýðheilsu, vinna gegn sjúkdómum og heilsutjóni en fyrst og fremst eigum við að reyna að tryggja að sem flestir geti varðveitt getu sína til sjálfbjargar eins lengi og kostur er.

Ég vona að þið eigið gott og gagnlegt málþing.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum