Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Spítalinn okkar - málþing í Ráðhúsi Reykjavíkur 27. nóv. 2014

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Góðir gestir.

Það fellur í minn hlut að segja nokkur orð að lokum þessa málþings hér í dag, þótt viðburðinum sé ekki lokið, því hér í Ráðhúsinu verður  opið hús til 29. nóvember þar sem staðan á nýbyggingaráformum í tengslum við endurbætur á Landspítala verður kynnt.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka samtökunum „Spítalanum okkar“ fyrir þetta framtak, en markmið þeirra er að afla stuðnings almennings og stjórnvalda við nauðsynlegar úrbætur á Landspítala, kynna fyrirliggjandi áætlanir og draga fram valkosti við fjármögnun og framkvæmd.

Ég ætla ekki að æra óstöðugan með upprifjun sögu áforma um byggingu nýs Landspítala, en segja má að málið hafi verið í undirbúningi allt frá sameiningu Landpítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000. Hart hefur verið tekist á um marga þætti þessara áforma frá upphafi: Það hefur verið deilt um þörf fyrir nýjan spítala, um skipulag, um byggingamagn, um kostnaðaráætlanir og síðast en ekki síst um staðsetningu nýs spítala – og er þá enn margt ótalið.

Flest hefur verið mótdrægt í þessu máli og efnahagserfiðleikar haustið 2008 settu auðvitað hvað stærst strik í reikninginn. Eftir alþjóðlega samkeppni um hönnun á 120.000 fermetra húsnæði fyrir nýjan Landspítala og að lokinni forhönnun stöðvaðist allt vegna efnahagsástandsins og taka var málið allt til endurskoðunar.

Ég sýti það raunar ekki að upphafleg áform hafi verið tekin til rækilegrar endurskoðunar sem leiddi til þess að sú hönnun sem nú liggur fyrir miðast við 77.000 fermetra byggingu þegar frá er talið bílastæðahús. Forhönnun samkvæmt þessari hönnun lauk undir lok árs 2012 og nú er stóra málið að fjármagna framhaldið þannig að við komumst af undirbúningsstigi á framkvæmdastig og nýr spítali rísi.

Góðir gestir.

Sem betur fer hefur það vit og strit sem lagt hefur verið í þennan langa aðdraganda ekki farið í súginn. Ekki er lengur deilt um þörf, skipulag, byggingamagn eða staðsetningu. Deiliskipulag, svæðisskipulag og aðalskipulag Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt miðað við uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Staðfesting Skipulagsstofnunar liggur fyrir og vilji Alþingis er skýr hvað þetta varðar, sem m.a. var innsiglaður í vor þegar ráðist var í útboð á fullnaðarhönnun sjúkrahótels við Hringbraut.

Það er öllum ljóst að Landspítalinn getur ekki búið mikið lengur við núverandi aðstæður, hvorki sjúklinganna né starfsfólksins vegna. Lélegur húsakostur er farinn að standa starfseminni fyrir þrifum, meðal annars vegna þess að nútímaheilbrigðisþjónusta á sérhæfðum sjúkrahúsum gerir allt aðrar kröfur til umhverfis og aðstæðna en áður. Eins verðum við að horfast í augu við áhrif þeirra breytinga sem eru að verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar en sú þróun er býsna hröð og verður það á komandi árum.

Góðir gestir.

Það vantar ekki viljann til framkvæmda – en hingað til hefur vantað fjármagn - eða öllu heldur færar leiðir til að fjármagna framkvæmdirnar á skynsamlegan hátt þannig að stöðu ríkissjóðs væri ekki stefnt í voða. – Og nú hefur dregið til tíðinda og birt til í þessum efnum, eins og fram kom í fréttum gærdagsins.

Í maí síðastliðnum samþykkti Alþingi samhljóða ályktun um að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.

Þann 1. september á síðasta ári tóku gildi lög um byggingu nýs Landspítala sem kveða á um að þungi verksins skuli vera opinber framkvæmd. Í því felst að finna þarf fé til verksins og merkja á fjárlögum hvers árs þá fjármuni sem til þess eiga að renna. Ríkisstjórnin hefur unnið í samræmi við þetta og í gær voru kynnt þau ánægjulegu tíðindi að ríkisstjórnin hyggst bæta inn í fjárlagafrumvarpið 875 milljónum króna til uppbyggingar Landspítala – og ég á ekki von á öðru en að Alþingi samþykki þessa breytingu. Þetta þýðir að í fjárlögum næsta árs verða 945 milljónir króna til verksins sem gerir kleift að bjóða út fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans, bjóða út gatna- og lóðaframkvæmdir við sjúkrahótelið og bjóða út framkvæmdina við sjálfa byggingu sjúkrahótelsins.

Samkvæmt uppfærðri framkvæmdaáætlun og miðað við verðlag núna er heildarkostnaður við sjúkrahúsbyggingarnar; þ.e. meðferðarkjarnann, rannsóknarhúsið og sjúkrahótelið, rúmir 48 milljarðar króna sem dreifist á sjö ár.

Gott fólk.

Íslenskt efnahagslíf er á uppleið – við höfum komið böndum á rekstur ríkissjóðs og afkoman fer batnandi. Svigrúmið sem skapast nýtum við í mikilvæg verkefni og þar er uppbygging Landspítalans forgangsmál.

Þakka ykkur fyrir.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum