Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Aðalfundur Læknafélags Íslands 2015

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Sveinn Magnússon flutti ávarpið fyrir hönd ráðherra
1. október 2015

Ég heilsa ykkur öllum og færi hingað í hús góða kveðju Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra sem hefði viljað vera á tveimur stöðum í dag. En tæknin leyfir víst ekki slíkt en sem komið er og hann nú staddur á öðrum fundi austur á landi. Ég mæli hér fyrir munn ráðherra.

Síðustu misseri hafa verið róstursöm í heilbrigðiskerfinu þar sem gengið hefur á með alvarlegum vinnudeilum, verkföllum og uppsögnum heilbrigðisstarfsfólks í ákveðnum greinum. Það hefur verið hart tekist á um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og áherslur í þeim efnum og deilur um uppbyggingu Landspítala, einkum varðandi staðsetningu hafa verið með ólíkindum. Það sem er einkennilegast varðandi umræðu um staðsetningu sjúkrahússins er að andstæðingar uppbyggingar við Hringbraut halda áfram að karpa, þrátt fyrir að skýr vilji og lögmætar ákvarðanir allra þar til bærra aðila liggi fyrir. Nú verður þessu að linna og þrautsegir andstæðingar að sæta fenginni niðurstöðu þar sem byggt hefur verið á faglegri vinnu og ákvörðun tekin samkvæmt leikreglum lýðræðisins af kjörnum fulltrúum almennings.

Það er kunnara en frá þarf að segja að samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna nýs Landspítala við Hringbraut var undirritaður í byrjun september, í samræmi við fjárlög ársins 2015 og lög um skipan opinberra framkvæmda. Allar skipulagsáætlanir hafa verið samþykktar vegna verkefnisins, þ.e. svæðaskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag lóðarinnar við Hringbraut.

Nú stendur yfir útboð vegna framkvæmda við sjúkrahótelið sem verður hluti af nýjum Landspítala og verða tilboð opinuð 20. október næstkomandi. Áætluð verklok við byggingu sjúkrahótelsins eru áætluð í lok mars 2017.

Í ræðu heilbrigðisráðherra á aðalfundi ykkar í fyrra fór hann yfir ýmsar helstu áherslur sínar í heilbrigðismálum og kynnti þá áætlun sína sem hefur yfirskriftina Betri heilbrigðisþjónusta og tekur til mjög stórra verkefna sem sett hafa verið í forgang. Þar vegur þyngst efling heilsugæslunnar, uppbygging rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu og mótun og innleiðing á nýju samræmdu greiðsluþátttökukerfi sem tekur tillit til allra heilbrigðisútgjalda sjúklinga og setur hámark á kostnað þeirra. Þessar áherslur endurspegluðust í fjárlögum þessa árs og í fjárlagafrumvarpi næsta árs má enn sjá þessum áherslum stað.

Gangi frumvarpið eftir verða heildarútgjöld til heilbrigðismála tæpir 162 milljarðar króna á næsta ári og nemur aukningin 10% eða 14,5 milljörðum króna þegar launa- og verðlagsbreytingar eru meðtaldar. Að raungildi nemur aukningin 4,4 milljörðum króna eða 3,0%. Framlag til heilsugæslu og heimahjúkrunar verður aukið um tæpar 500 milljónir króna með áherslu á ýmis ný verkefni. Sérfræðingum í heimilislækningum verður fjölgað, stöðum sálfræðinga verður fjölgað til muna og framlög verða aukin til að bæta við námsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun.

Ríflega 1.800 milljónir króna eru í fjárlagafrumvarpinu eyrnamerktar uppbyggingu Landspítala við Hringbraut vegna fullnaðarhönnunar meðferðarkjarnans og framkvæmda við byggingu sjúkrahótelsins sem ég gat um áðan.

Ég vil líka geta um það hér að stjórnvöld hafa ákveðið að setja um 1.260 milljónir króna í sérstakt átak til að vinna á biðlistum eftir tilteknum skurðaðgerðum til að mæta uppsöfnuðum í kjölfar verkfalla heilbrigðisstarfsfólks. Þetta er í samræmi við tillögu Embættis landlæknis um sértækar aðgerðir til að takast á við brýnasta vandann.

Góðir gestir.

Heilbrigðismál og rekstur heilbrigðiskerfa eru með stærstu, viðamestu, flóknustu og útgjaldafrekustu viðfangsefnum hins opinbera á Vesturlöndum og margt veldur því að stöðugur þrýstingur er á hlutfallslega útgjaldaaukningu í heilbrigðiskerfum þjóða. Þetta veldur stöðugri glímu um fjármuni og kallar á látlausa endurskoðun einstakra viðfangsefna og heilbrigðiskerfisins í heild og þrotlausa leit að leiðum til að auka skilvirkni og hagkvæmni án þess að það bitni á þjónustunni eða gæðum hennar.

Íslenska heilbrigðiskerfið hefur árum saman verið í sterkri stöðu og komið vel út í alþjóðlegum samanburði og auðvitað viljum við halda sterkri stöðu okkar áfram. Eftir undanfarin mögur ár er nú búið að snúa vörn í sókn, eins og sést meðal annars á þeim verkefnum sem sett hafa verið í forgang og ég ræddi um áðan. Engu að síður blasa við okkur margar og stórar áskoranir sem við verðum að horfast í augu við strax og viðurkenna sem viðvarandi viðfangsefni. Ör breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar þar sem öldruðum fjölgar hratt sem hlutfalli af heildinni er staðreynd sem verður að taka inn í allt skipulag og stefnumótun á sviði heilbrigðismála. Það er jákvætt að margvísleg framþróun undanfarinna áratuga hefur leitt til betri heilsu og lengra æviskeiðs, en ört stækkandi hópi aldraðra fylgir jafnframt vaxandi byrði vegna fjölþættra langvinnra sjúkdóma. Á sviði lýðheilsu sjáum við margvísleg alvarleg heilsufarsvandamál vegna heilsuspillandi lífsstíls sem birtast jafnvel eins og faraldrar, svo sem sjúkdómar tengdir offitu og hreyfingarleysi og sjúkdómar tengdir ofneyslu áfengis og annarra ávanabindandi fíkniefna.

Ör vöxtur útgjalda til lyfjamála er sérstakt mál og alvarlegt sem krefst sérstakrar umfjöllunar. Byltingarkennd þróun hefur átt sér stað í þróun svokallaðra líftæknilyfja á síðari árum og þau hafa svo sannarlega mörg hver leitt til mikilla framfara í meðferð margra sjúkdóma, aukið batahorfur og bætt lífsgæði sjúklinga. Vandinn er sá að verð sumra þessara lyfja er á þeim skala að jafnvel ríkistu þjóðir geta ekki staðið undir kostnaðinum sem fylgir notkun þeirra.

Heilbrigðisyfirvöldum er mikill vandi á höndum að mæta þessari þróun og skapa einhvers konar sátt um leiðir til að ákveða hvenær og hvernig skuli innleiða ný lyf eins og hér um ræðir. Það liggur nú fyrir, staðfest með nýföllnum héraðsdómi í máli einstaklings sem höfðaði mál gegn ríkinu fyrir að synja sér um greiðsluþátttöku í lyfinu Harvoni, að lagaramminn sem unnið er eftir heldur og ekki síst að Alþingi ákveður útgjaldarammann í samræmi við þá meginreglu stjórnarskrár að Alþingi hefur fjárstjórnarvaldið. Niðurstaða dómsins er að þessu leyti mikilvæg en eftir stendur óleystur vandi sem við verðum að takast á við, þ.e. að tryggja greiðari aðgang að mikilvægum lyfjum sem skipt geta sköpum við meðferð alvarlegra sjúkdóma.

Það er ekki á valdi smáþjóðar að berjast um betri verð við lyfjaframleiðendur. Heilbrigðisráðherra hefur því unnið að því að ná samstarfi við nágrannaþjóðir um leiðir til að lækka lyfjakostnað og þar er sérstaklega horft til möguleika á sameiginlegum útboðum, þótt fleiri fletir kunni að vera á samstarfi í þessu skyni.

Góðir fundarmenn.

Það felast tækifærið í hverri áskorun sem við eigum að vera vakandi fyrir. Eins megum við ekki láta góðan árangur íslenskra heilbrigðiskerfisins í alþjóðlegum samanburði letja okkur til að gera breytingar og úrbætur þar sem þeirra er þörf. Við getum gert betur og það er margt varðandi skipulag heilbrigðiskerfisins em þarf að bæta til að auka hagkvæmni, skilvirkni og gæði. Þetta er brýning heilbrigðisráðherra sem jafnframt leggur áherslu á að móta skýrari framtíðarsýn og stefnu á mikilvægum málefnasviðum. Slík stefnumótunarvinna hefur verið sett á oddinn í velferðarráðuneytinu á síðustu misserum. Þar má nefna mótun heilbrigðisstefnu til ársins 2020 sem lögð verður fyrir Alþingi á haustþingi, stefna í geðheilbrigðismálum sem einnig verður lögð fram á Alþingi á næstunni. Stefna í lyfjamálum lítur brátt dagsins ljós og nú er á vegum heilbrigðisráðherra unnið að úttekt á heilbrigðishluta öldrunarþjónustunnar með skýrari sýn að markmiði.

Þótt verkefnin séu ærin frá degi til dags er mikilvægt að rétta úr sér af og til og horfa fram á veginn til að sjá hvað framundan er og rétta af kúrsinn. Það verða mín lokaorð hér um leið og ég ítreka kveðjur ráðherra til ykkar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum