Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala 2016

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala 2016

Góðir gestir, forstjóri Landspítalans, ágæta starfsfólk og aðrir góðir gestir, það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á ársfundi Landspítalans.

Þetta er í þriðja sinn sem ég sæki þennan fund sem heilbrigðisráðherra og þegar ég lít yfir farinn veg þá verð ég að segja að það hefur verið nokkuð stormasamt í kringum Landspítalann á þessum árum. Þrátt fyrir það hefur leiðin samt legið upp á við í kjölfar mögru áranna eftir hrun. Það hafa hins vegar fylgt ýmsir erfiðleikar sem ég held að megi líkja við vaxtaverki eftir að  efnahagur landsins fór að hjarna við og væntingar fólks að aukast í samræmi við það.

Á ársfundi Landspítalans vorið 2014 lýsti ég því yfir að Landspítalinn væri kominn fyrir vind, enda hafði Alþingi þá ákveðið með fjárlögum ársins að styrkja rekstrargrundvöll spítalans og stórauka fé til tækjakaupa á því ári og næstu ár samkvæmt sérstakri tækjakaupaáætlun. Áfram var haldið á þessari braut í fjárlögum 2015 og í fjárlögum þessa árs hafa framlög enn verið aukin verulega til Landspítalans og inn í heilbrigðiskerfið í heild sinni. Alls hafa fjárveitingar á fjárlögum áranna 2014, 2015 og 2016 aukist um 38,5 milljarða.

Ég legg áherslu á að ræða um heilbrigðiskerfið sem eina heild.

Gagnvart Landspítalanum er það mjög mikilvægt að grunnþjónustan, heilsugæslan, heilbrigðisstofnanirnar og sérfræðiþjónustan þjóni hlutverki sínu sem best og það skiptir líka miklu máli fyrir sjúklingana að fá þjónustu á viðeigandi þjónustustigi. Þetta hefur verið ein megináhersla mín sem heilbrigðisráðherra og hún endurspeglast í verkefnum sem ég setti í farveg og unnið hefur verið að sl. þrjú ár undir yfirskriftinni Betri heilbrigðisþjónusta.

Þegar ég sagði Landspítalann kominn fyrir vind vorið 2014, óraði mig ekki fyrir því að framundan væru svo erfiðar kjaradeilur að rekstur spítalans myndi raskast verulega eins og raunin varð, þegar hvert verkfallið rak annað, fyrst verkfall lækna, síðan hjúkrunarfræðinga, þá annarra háskólamenntaðra stétta og loks verkföll sjúkraliða og starfsfólks í SFR. Það er óþarfi að rekja þetta í löngu máli, þið þekkið þá sögu manna best og hve þessi tími var erfiður.

Góðir fundarmenn.

Öll él styttir upp um síðir og þannig fór með kjaradeilurnar að þær leystust að lokum, þótt vissuleg hafi verið miður að gerðardómur þyrfti að úrskurða í deilu ríkisins og aðildarfélaga BHM og hjúkrunarfræðinga. En nú ríkir vinnufriður á Landspítala þar sem starfsfólkið er vonandi sáttara við sitt en áður.

Nýir kjarasamningar fólu í sér mikla innspýtingu í heilbrigðiskerfið og þeir fjármunir trúi ég að skili sér í þeim mannauði sem er grundvöllur heilbrigðisþjónustunnar.

Við sjáum þessu til dæmis stað í því að auðveldara reynist nú að manna sérfræðistöður lækna en áður og eitthvað er um að sérfræðingar sem starfað hafa erlendis hafa ákveðið að snúa heim. Samkeppnishæfnin varðandi laun hefur aukist.

Ég nefni hér líka samstarfsverkefni Landspítalans og Sjúkrahússins á akureyri við Royal College of Physicians í London um eflingu framhaldsmenntunar í almennum lyflækningum. Þetta er mjög lofandi verkefni og hefur velferðarráðuneytið stutt við það fjárhagslega.

Sjúklingurinn í öndvegi er yfirskrift þessa ársfundar og það finnst mér góð og rétt nálgun í allri umræðu um heilbrigðisþjónustuna. Liður í því að tryggja sjúklingum þann sess er að geta mannað heilbrigðisþjónustuna með vel menntuðu og færu starfsfólki. Launin skipta miklu máli en fleira kemur til og þar á ég ekki síst við húsakost, tækjakost og starfsumhverfið almennt séð. Aðbúnaður og vinnuskilyrði hafa áhrif á störf fólks og getu þess til að leysa úr flóknum verkefnum og um mikilvægi þess að búa vel að fárveikum sjúklingum þarf ekki að ræða í löngu máli.

Ég vil skjóta því að hér, að eins og vænta má heyri ég oft í fólki sem hefur þurft á þjónustu Landspítalans að halda og ég get sagt að nánast undantekningalaust lýsir það fólk yfir mikilli ánægju með þjónustuna sem þar er veitt.

Fólk talar jafnan alveg sérstaklega um starfsfólkið, bæði fagmennsku þess og hæfni og ekki síður um hvað það leggur mikla alúð í störf sín þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður.

Sjúklingarnir eru í öndvegi hjá því öndvegisfólki sem starfar á Landspítalanum og fyrir það ber að þakka. Starfsfólkið er auður spítalans og störf þess ráða mestu um hvernig til tekst, þótt auðvitað komi fleira til.

Það dró til tíðinda í langþráðri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut þegar verkefnið komst á framkvæmdastig og hafist var handa við byggingu sjúkrahótelsins sem tekið verður í notkun á næsta ári. Það er stígandi í þessu máli.

Í fjárlögum 2015 samþykkti Alþingi að veita einum milljarði króna til verksins. Árið 2016 eru tæpir tveir milljarðar ætlaðir í Nýjan Landspítala og nú stefnir í stórtíðindi, því fimm ára fjármálaáætlun ríkisins verður kynnt á næstu dögum og ég get sagt það strax að þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum við meðferðarkjarna nýs spítala sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut í samræmi við áætlanir og ákvarðanir stjórnvalda og fyrirliggjandi skipulag. Í áætluninni er tryggt fjármagn sem gerir kleift að bjóða út framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna strax og hönnunarferlinu lýkur árið 2018.

Góðir gestir.

„Að vona, vilja og að stefna að“ er algengt orðalag í ræðum ráðherra og það er eðilegt til að byrja með, en þegar frá líður verður maður ef vel gengur þess aðnjótandi að sjá vonir rætast og áform verða að veruleika. Ég er svo heppinn að vera í þeim sporum núna og mér finnst afar gleðilegt að sjá hvert verkefnið á fætur öðru raungerast, ekki síst hér á Landspítalanum, eins og ég hef þegar getið um.

Í janúar síðastliðnum var ég viðstaddur þegar tekin var formlega í notkun ný flæðilína sjúkrahússins vegna rannsókna sem unnið hefur verið að því að skipuleggja, þróa og setja upp um árabil. Í þessu verki fólst endurnýjun tækjabúnaðar og endurskipulagning húsnæðis þar sem ávinningurinn er bætt starfsumhverfi, aukin sjálfvirkni, aukin afköst, skjótari rannsóknarniðurstöður, bætt smitgát og aukin hagkvæmni í rekstri.

Fleira markvert gerðist á Landspítalanum í janúar. Þá var til að mynda tekin fyrsta skóflustunga að húsi undir jáeindaskanna, sem er stórgjöf Íslenskrar erfðagreiningar til þjóðarinnar. Árum saman hefur verið rætt um nauðsyn þess að koma upp jáeindaskanna hér á landi en þeir fela í sér tækni sem hefur valdið byltingu í greiningu og meðferð sjúkdóma. Áætlað er að skanninn verði kominn í notkun um næstu áramót.

Og við skulum áfram halda okkur við janúar, því þá hófst stórmerkilegt verkefni sem skapar okkur Íslendingum algjöra sérstöðu á heimsvísu.

Hér á ég við samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi og stemma stigu við útbreiðslu sjúkdómsins. Þetta er meiriháttar forvarnar- og lýðheilsuverkefni þar sem öllum sem greinst hafa með veiruna er boðin besta fáanlega lyfjameðferð við þessum alvarlega sjúkdómi, auk fræðslu og eftirfylgni. Þetta verkefni felur í sér einstakt tækifæri sem verður ekki metið til fjár. Ég nota tækifærið hér til að færa þakkir því góða teymi fagfólks hér á Landspítala sem um skeið lagði nótt við dag til að vinna þessu verkefni framgang með samningi við Gilead, í góðu samstarfi við Embætti landlæknis, sóttvarnalækni og fulltrúa ráðuneytisins.

Ég held að öllum hafi verið létt, jafnt innan Landspítala sem utan hans, þegar upp var kveðinn sýknudómur yfir hjúkrunarfræðingi í máli þar sem ákært var vegna alvarlegs atviks í starfsemi spítalans sem leiddi til dauðsfalls. Þetta var í fyrsta skipti í sögu spítalans sem kæra var lögð fram á hendur sjúkrahúsinu og starfsmanns hans á grundvelli hegningarlaga.

Ég vona okkar allra vegna að þetta sé í fyrsta og jafnframt síðasta sinn sem kemur til málaferla af þessu tagi. Ef upp koma mál þar sem grunur leikur á mistökum eða vanrækslu við meðferð sjúklings þarf að vera fyrir hendi skýr farvegur um málsmeðferðina á öllum stigum.

Það þarf að leiða í ljós hið rétta í málinu og það þarf að fyrirbyggja að eitthvað sambærilegt endurtaki sig.

Með þetta að markmiði skipaði ég í byrjun síðsta árs starfshóp til að gera tillögur í þessum efnum. Ég fékk í hendur tillögur hans í september síðastliðnum og nú er unnið að því að koma þeim tillögum áfram og í framkvæmd. Mestu máli skiptir auðvitað að draga úr líkum á óvæntum atvikum í meðferð sjúklinga sem ógnað geta lífi og heilsu og ég veit að á Landspítala, líkt og á sambærilegum sjúkrahúsum eru gæða- og öryggismál meðal þeirra verkefna sem mikilvægust eru talin í rekstrinum.

Gott fólk.

Ég eins og svo margir aðrir byrja jafnan daginn á því að kveikja á útvarpinu, fletta blöðunum og jafnvel að skanna helstu fréttir vefmiðlanna. Ég neita því ekki að ég hef stundum undrast hvað Landspítalinn er stöðug uppspretta frétta og fjölmiðlaumfjöllunar. Fyrir þessu eru eflaust ýmsar ástæður, en kannski segir þetta mest um það hvað málefni sjúkrahússins snerta okkur öll og starfsemin skiptir alla landsmenn miklu máli.

Til fróðleiks gerði ég smátilraun með hjálp Fjölmiðlavaktarinnar sem vaktar alla helstu fréttamiðla og kannaði hve margar fréttir hefðu birst síðastliðna 12 mánuði þar sem heiti Landspítala kemur fyrir. Þetta voru samtals 1.530 fréttir, eða að meðaltali 4,2 á dag.

Ég lét mér nú ekki detta í hug að reyna að meta innihald fréttanna að neinu leyti en eins og vænta mátti var staðsetningarumræðan áberandi sem og biðlistar, mönnun, álag, fjármögnun og öll þau verkefni sem ég hef gert hér að umtalsefni komu líka við sögu ásamt mörgu öðru.

Ég get ímyndað mér að það sé stundum erfitt fyrir starfsfólk og stjórnendur Landspítalans að vinnustaður þeirra sé sífellt til umfjöllunar opinberlega – og auðvitað hefur þetta áhrif á okkur öll, því Landspítalinn er mikilvægur í lífi okkar landsmanna allra einhvern tíma á lífsleiðinni auk þess að vera stærsti vinnustaður landsins þar sem viðfangsefnin eru flókin og varða líf og heilsu fólks.

Það þykir ekki fréttnæmt þegar allt gengur sinn vana gang og því er það ekki frétt þótt á Landspítala sé mannslífum bjargað á hverjum degi og margvísleg kraftaverk unnin, bæði stór og smá. Það er samt ástæða til að halda á lofti öllu því góða starfi sem hér er unnið og koma því á framfæri, bæði innan spítalans og utan hans því það er af mörgu að taka og þar eigum við sem höfum tækifæri og aðstöðu til að gera hvað best við getum.

Við eigum að hafa það hugfast að Landspítalinn stendur fyllilega fyrir sínu, hann hefur á að skipta vel menntuðu og öflugu starfsfólki og er á sumum sviðum í fremstu röð, þótt vissulega sé sitthvað sem betur má fara.

Já, sitthvað má betur fara – og margt er verið að vinna sem til úrbóta horfir.

Orðið fráflæðisvandi er þeirrar gerðar, bæði að efni og útliti, að okkur hlýtur öll að langa til að útrýma því úr tungumálinu. Það verður best gert með því að takast á við vandann sem því er ætlað að lýsa. Að þessu er unnið í góðu samstarfi spítalans og velferðarráðuneytisins.

Liður í því er opnun útskriftardeildar á Landspítala, fjölgun endurhæfingarrýma, efling heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og helgaropnun á Hjartagáttinni. Þessi vinna heldur áfram og þar mun einnig skipa máli til lengri tíma litið, áætlun sem ég kynnti í upphafi árs um byggingu 214 nýrra hjúkrunarrýma en tvö ný hjúkrunarheimili munu rísa á höfuðborgarsvæðinu og eitt í sveitarfélaginu Árborg.

Annað stórt úrbótaverkefni er skipulagt átak til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum samkvæmt samningum sem ég undirritaði fyrir um mánuði síðan við fjórar heilbrigðisstofnanir þessa efnis. Áformað er að verja 1663 m.kr. til þessa verkefnis á árunum 2016 – 2018, þar af um helming fjárins á þessu ári. Markmiðið er að þegar frá líður verði hámarksbið sjúklinga sem bíða eftir aðgerð ekki lengri en 90 dagar.

Á þessu ári eru það liðskiptaaðgerðir, hjartaþræðingar og augasteinsaðgerðir sem átakið tekur til. Liðskiptaaðgerðir verða um 530 fleiri en annars hefði verið, augasteinsaðgerðir á þessu ári verða tæplega 2.900 fleiri en ella og loks verða gerðar um 50 fleiri hjartaþræðingar. Að þessu er nú unnið hjá þeim stofnunum sem samið var við, en það eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fyrirtækið Sjónlag hf.

Góðir gestir, ég fer nú að stytta mál mitt en vil þó ekki hætta öðru vísi en að nefna stöðuna á innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar í bráðaþjónustu samkvæmt svokölluðu DRG kerfi líkt og notað er í flestum nágrannalöndum okkar. Það hefur verið lögð í þetta mikil vinna en nú sjáum við til lands og ég reikna með að fljótlega verði gerður samningur sem kveður á um innleiðinguna. Til að byrja með verður kerfið prufukeyrt án rauntengingar við fjármögnunina en á næsta ári ætti þetta að verða virkt fjármögnunarkerfi á Landspítalanum.

Ég get heldur ekki sleppt því að nefna nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæsluna sem nú er tilbúið, byggt á aðferð sem þróuð hefur verið og notuð í Svíþjóð. Þetta varðar ekki Landspítalann beint – en ég bind miklar vonir við að áform um úrbætur í heilsugæslunni sem ég hef verið að kynna að  undanförnu séu til þess fallin að styrkja þjónustu hennar til muna og að það muni m.a. draga úr álagi Landspítalanum.

Enn eitt verkefni sem ég vil geta um hér í lokin er nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir notendur heilbrigðisþjónustu sem hefur þau markmið að skapa 1) einfaldara kerfi, 2) að verja þá sjúklinga sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum, 3) að draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og 4) loks að styrkja hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.

Til marks um núverandi flækjustig má nefna að kerfið er samsett úr mörgum tugum mismunandi greiðslukerfa sem enginn hefur yfirsýn yfir og veldur því að okkar veikasta fólk er illa og í sumum tilfellum alls ekki tryggt gagnvart óheyrilegum kostnaði vegna veikinda sinna.

Frumvarp um nýja greiðsluþátttökukerfið liggur fyrir Alþingi og ég vona að þaðan verði það samþykkt sem lög áður en langt um líður.

Ég eins og þið, ágæta starfsfólk Landspítala, legg áherslu á að þegar við fjöllum um heilbrigðismál og tökum ákvarðanir þá eiga þær alltaf að vera með hagsmuni sjúklinganna að leiðarljósi.

Sjúklingurinn í öndvegi er góð yfirksrift þessa málþings og þannig á það að vera, í dag og alla aðra daga.

Um leið og ég þakka ykkur áheyrnina óska ég ykkur allra heilla í ykkar vandasömu störfum.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum