Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Endurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2001-2002

Þann 14. febrúar 2001 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, en kaflinn fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nefndinni var jafnframt falið að endurskoða reglugerðir sem byggðar eru á ákvæðum þessa kafla tekjustofnalaganna.

Í nefndina voru skipuð Arnbjörg Sveindóttir alþingismaður, Gísli S. Einarsson alþingismaður, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, Jóhann Sigurjónsson bæjarstjóri, Valgarður Hilmarsson oddviti og Jón Kristjánsson alþingismaður, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Magnús Stefánsson alþingismaður tók við formennsku í nefndinni vorið 2001 er Jón Kristjánsson tók við embætti heilbrigðisráðherra. Starfsmenn nefndarinnar voru þau Elín Pálsdóttir og Hermann Sæmundsson, deildarstjórar í félagsmálaráðuneytinu, og Gunnlaugur Júlíusson, sviðstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá störfuðu Jóhannes Á. Jóhannesson, starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðni Geir Einarsson, starfsmaður Jöfnunarsjóðs, með nefndinni.

Nefndin hefur nú skilað félagsmálaráðherra skýrslu með greinargerð og tillögum. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Jafnframt verður skýrslan send til allra sveitarfélaga. Nefndin skilaði áfangatillögum til félagsmálaráðherra í febrúar 2002 en þar voru lagðar til breytingar á reglugerð um jöfnunarframlög sjóðsins til reksturs grunnskóla, nr. 653/1997, með síðari breytingum. Að fengnum þeim tillögum nefndarinnar gaf félagsmálaráðherra út nýja reglugerð sem þegar hefur tekið gildi og er hún nr. 351/2002. Nefndin taldi að líta beri áfram á framlög vegna yfirfærslu grunnskólans sem sérstakt verkefni þar sem verkefnið er fjármagnað með sérstökum hætti og stutt er síðan samningur milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu og fjármögnun grunnskólans var gerður.

Í skýrslunni eru tilgreind þau markmið sem nefndin hafði að leiðarljósi við endurskoðun á starfsemi sjóðsins. Þau voru einkum eftirfarandi: Í fyrsta lagi að gera aðferðir við útreikning og úthlutun framlaga almennari en nú er. Í því gæti falist sú viðleitni að draga enn frekar úr eyrnamerkingu við útreikning framlaga og takmarka eins og hægt er sértækar aðgerðir. Sjónarmið sem hér koma við sögu eru styrking á sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Í öðru lagi að stilla framlögum sjóðsins upp á nýjan og aðgengilegri hátt þannig að betri yfirsýn skapist yfir hlutverk og framlög hans. Markmiðið er að sveitarstjórnarmenn og aðrir hafi góða yfirsýn yfir starfsemi Jöfnunarsjóðs. Í þriðja lagi að gera nauðsynlegar breytingar á tilteknum reglum sjóðsins til þess að mæta breyttum forsendum m.a. vegna sameiningar sveitarfélaga. Þá hafa verkefni sveitarfélaga og tekjustofnar þeirra einnig tekið breytingum. Í fjórða lagi að tryggja réttláta jöfnun meðal sveitarfélaga. Í því felst það sjónarmið að sveitarfélög fái ekki meira en þau þurfa vegna tekju- og útgjaldaþátta, en njóti engu að síður ávinnings af hagkvæmni í rekstri. Í fimmta lagi að skoða möguleika á að styrkja enn frekar hlutverk sjóðsins í tengslum við sameiningu sveitarfélaga. Til dæmis með því að veita framlög til endurskipulagningar á þjónustu í kjölfar sameiningar sveitarfélaga og draga úr líkum á að framlög skerðist verulega í kjölfar sameiningar.

Meginniðurstaða nefndarinnar er að það sé ekki tímabært að gera róttækar breytingar á núverandi uppbyggingu og gerð framlaga Jöfnunarsjóðs, en aðlaga frekar núverandi fyrirkomulag nýjum sjónarmiðum og breyttum forsendum. Rök nefndarinnar fyrir niðurstöðunni eru m.a. þau að Jöfnunarsjóður gegni svo þýðingarmiklu hlutverki varðandi fjármögnun minni og tekjulægri sveitarfélaga að lengri aðlögunar sé þörf eigi að gera róttækar breytingar á fyrirkomulagi jöfnunarkerfisins. Þá bendir nefndin á að mörg verkefna Jöfnunarsjóðs séu tilkomin vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga eða séu liður í breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Yfirfærsla grunnskólans er dæmi um hið fyrrnefnda og breyting á álagningarstofni fasteignaskatts er dæmi um hið síðarnefnda. Nefndin telur að þar sem sum þessara verkefna byggja á nýlegum samningum milli ríkis og sveitarfélaga verði að líða lengri tími þar til fyrirkomulag jöfnunar varðandi þessi verkefni er stokkað upp og sett í annan farveg. Þá telur nefndin að unnt sé að ná settum markmiðum með því að gera breytingar á núverandi kerfi og því sé óþarft að ganga lengra að sinni.

Skjal fyrir Acrobat ReaderSkýrsla vegna endurskoðunar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2001 - 2002 (800 KB)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum