Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Stuttmynd um mörkin milli ofbeldis og kynlífs frumsýnd

Fáðu já - stuttmynd um mörkin milli ofbeldis og kynlífs var frumsýnd Bíó Paradís í dag að viðstöddum ráðherrunum Ögmundi Jónassyni, Katrínu Jakobsdóttur og Guðbjarti Hannessyni, leikurum og öðrum aðstandendum myndarinnar. Í myndinni eru skýrð mörkin milli kynlífs og ofbeldis og er markmiðið að vega upp á móti áhrifum kláms og klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum.

Þrír ráðherrar voru viðstaddir frumsýningu myndarinnar, þau Katrín Jakobsdóttir, Ögmundur Jónasson og Guðbjartur Hannesson.
Þrír ráðherrar voru viðstaddir frumsýningu myndarinnar, þau Katrín Jakobsdóttir, Ögmundur Jónasson og Guðbjartur Hannesson.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, flutti ávarp við frumsýninguna og rakti tilurð vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum en myndin er hluti af því verkefni. Hún sagði myndina þó ekki aðeins lið í þeirri vitundarvakningu heldur að með henni væri stigið nýtt skref í almennum forvörnum gegn kynferðisofbeldi á Íslandi með því að taka til gagnrýnnar umræðu mörkin milli kynlífs og ofbeldis, með því að útskýra með skilmerkum hætti að klám sé ekki kynlíf og að ofbeldi og kynlíf eigi ekkert skylt og með því að draga fram fáránleikann sem er fólginn í því að beita aðra manneskju kynferðislegu ofbeldi.

Handritshöfundarnir ásamt aðstoðarmanni innanríkisráðherra. Frá vinstri: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Páll Óskar Hjálmtýsson, Brynhildur Björnsdóttir og Halla Gunnarsdóttir.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Páll Óskar Hjálmtýsson, einn handritshöfunda.Fengnir voru þrír höfundar til að skrifa handrit myndarinnar og sagði Halla eftirfarandi um þau: ,,Fyrsti fundur verkefnisstjórnarinnar með handritshöfundunum Brynhildi Björnsdóttur, Páli Óskari Hjálmtýssyni og Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur er mér eftirminnilegur. Þar var fyrir að fara krafti og smitandi eldmóði, sem í mínum huga tók af allan vafa um að þau væru rétta fólkið og með réttu hugmyndina. Verkefnisstjórnin ákvað því að verja stórum hluta þess fjármagns sem hún hafði til ráðstöfunar á síðasta ári til gerðar þessarar myndar.  Brynhildur, Palli og Þórdís, þið eigið mikið lof skilið fyrir alla þá vinnu og orku sem þið hafið lagt í myndina og fyrir að hafa fengið allt þetta góða fólk til liðs við ykkur við leik og framleiðslu.

Vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis hefur það markmið að efna samning Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu á börnum og lét gera myndina síðast liðið haust.

Fáðu já er 20 mínútna löng stuttmynd í sex hlutum sem heita: Kynning. Klám. Ofbeldi. Að setja mörk. Hvað ef manni er nauðgað? Fáðu já. Handritið skrifuðu Brynhildur Björnsdóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson og Þórdís Elvu Þorvaldsdóttir í samráði við verkefnisstjórn vitundarvakningarinnar. Halla Gunnarsdóttir frá innanríkisráðuneyti er formaður verkefnisstjórnar en auk hennar eru í stjórninni Þorgerður Benediktsdóttir frá velferðarráðuneyti og Berglind Rós Magnúsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti en þaðan kemur einnig Jóna Pálsdóttir verkefnisstjóri.

Nemendur í 10. bekk allra grunnskóla á landinu og flest allir framhaldsskólanemar eiga þess kost að sjá sýninguna miðvikudaginn 30. janúar og fá umræður í kjölfarið með kennurum og starfsfólki skólanna sem hafa undirbúið atburðinn. Myndin verður aðgengileg á heimasíðunni www.faduja.is ásamt kennsluleiðbeiningum og er frjálst að dreifa henni. Er vonast til að foreldrar nýti sér þann kost að horfa á efnið með börnum sínum.

Upplýsingar um vitundarvakningu stjórnvalda um kynferðislega misnotkun gagnvart börnum eru á vefsvæðinu www.vel.is/vitundarvakning.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum