Fréttir
  • Þorsteinn Víglundsson og Soffía Lárusdóttir
    Þorsteinn Víglundsson og Soffía Lárusdóttir

Fundað með forstjóra Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar

2/2/2017

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra átti í dag fund með Soffíu Lárusdóttur, forstjóra Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, sem kynnti honum starfsemi stöðvarinnar, helstu verkefni, faglegar áherslur og nýmæli sem unnið er að.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er sérhæfð stofnun, svokölluð þriðja stigs þjónustustofnun, sem starfar á landsvísu og hefur það hlutverk að tryggja að börnum og unglingum  með alvarlegar þroskaraskanir og fatlanir bjóðist greining, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að auka möguleika þeirra til sjálfstæðis á fullorðinsárum. Hjá stofnuninni vinna sérfræðingar á breiðu sviði, s.s. atferlisfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, leikskólasérkennarar, læknar og læknaritarar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, talmeinafræðingar og þroskaþjálfar.

Árlega er á bilinu 250 – 350 börnum vísað í þverfaglega greiningu hjá sérfræðingum Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og er algengasta ástæða tilvísunar grunur um röskun á einhverfurófi. Soffía segir stofnunina leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun, þ.e. að gripið sé sem allra fyrst inn í aðstæður barnanna sem þangað er vísað og þeim og fjölskyldum þeirra veitt einhver úrræði strax. Í þessu skyni var nýlega tekið upp það verklag í samstarfi við Reykjavíkurborg að greina reglubundið biðlistana hjá stofnuninni. Þannig eru aðstæður barna sem bíða greiningar skoðaðar sem fyrst og kannað hvort og þá hvaða þjónustu er hægt að veita þeim á fyrsta og öðru þjónustustigi. Til fyrsta þjónustustigs teljast skólar, félagsþjónusta sveitarfélaga og heilsugæslan, en til annars stigs telst þjónusta Þroska- og hegðunarstöðvarinnar, sérfræðiþjónusta sveitarfélaga, þjónusta barnadeilda sjúkrahúsa og sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Soffía ræddi við ráðherra um leiðir til að stytta bið eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar þar sem hún sagði tvímælalaust hægt að ná árangri með því að efla þjónustuna á fyrsta- og öðru þjónustustigi sem væri jafnframt æskilegt þar sem hún væri í nærumhverfi barnanna og fjölskyldna þeirra. Ráðherra vísaði í þessu samhengi í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hann sagði falla vel að þessari áherslu, þar sem sett er fram stefna um að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars með sálfræðiþjónustu í heilsugæslu og í framhaldsskólum, jafnframt því að stuðningur verði aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.

Til baka Senda grein