Fréttir

Heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands

23/9/2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fjallað um áherslur sínar og framgang þeirra verkefna sem hann setti í forgang þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra árið 2013, á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn var í gær.

Ráðherra sagði m.a. í upphafi ræðu sinnar: „Það hefur mikið vatn til sjávar runnið frá því ég hitti ykkur fyrst sem heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélagsins 2013. Ég vísaði þar m.a. Kristján Þór Júlíussontil viðtals sem Læknablaðið hafði átt við mig þar sem ég var m.a. spurður að því hvort mér þætti heilbrigðiskefið of dýrt. Eins og ég sagði þá finnst mér það ekki og sé ekki eftir sköttunum mínum í heilbrigðisþjónustuna. Ég sagði hins vegar að við gætum örugglega farið betur með fjármunina sem við leggjum til kerfisins með betra skipulagi og að ég vildi vinna að því. Á fundinum þá talaði ég m.a. um að efla heilsugæsluna sem grunnstoð kerfisins, að innleiða þjónustustýringu, vinna að uppbyggingu Landspítala, að gera tækjakaupaáætlun fyrir stóru sjúkrahúsin, bæta stöðu lyflækningasviðs Landspítalans sem var þá í óefni og síðast en ekki síst að koma á heildstæðu greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðiskerfinu. Flest að þessu hefur gengið eftir að meira eða minna leyti og mörg önnur stór verkefni hafa tekið á sig mynd eða eru komin til framkvæmda.

Ég hef nú setið á stóli heilbrigðisráðherra í rúm þrjú ár, framundan eru kosningar og þar með ákveðin tímamót. Mér finnst því liggja beint við að nota tíma minn hér til að líta yfir farinn veg, ræða svolítið um þær áherslur sem ég hef lagt og unnið eftir í embætti, hvað hefur áunnist, ásamt hugleiðingum um það á hverju við eigum helst að byggja til næstu ára."

Til baka Senda grein