Fréttir
  • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO)
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO)

Heilbrigðisráðherra ræddi um jafnrétti og heilsu kvenna á fundi smáríkja í Monakó

12/10/2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra er fulltrúi Íslands á fundi smáríkja sem haldinn er í Mónakó á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og lýkur í dag. Á fundinum er meðal annars fjallað um hvernig smáríki geta skapað fordæmi og verið fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærra verkefna í þágu velferðar og heilsu.

Þetta er í þriðja sinn sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stendur fyrir fundi smáríkjanna átta sem eru Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Maríno og Ísland og eiga það sameiginlegt að íbúafjöldi hvers þeirra er innan við milljón. Fjölmargt annað er sameiginlegt með þessum ríkjum, meðal annars margvísleg verkefni og áskoranir á sviði heilbrigðismála og annarra velferðarmála og um það fjallaði fundurinn.  

Á fundinum í gær tók Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þátt í umræðum um heilsu og velferð kvenna og hvernig best megi bæta aðstæður kvenna í samfélaginu á grundvelli stefnu WHO sem kynnt var á fundi stofnunarinnar í Kaupmannahöfn fyrr í haust. Ráðherra lagði ríka áherslu á jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og gerði grein fyrir góðri stöðu kvenna á Íslandi, meðal annars á sviði menntunar, stjórnmála og á vinnumarkaði. Engu að síður væru ýmsar áskoranir sem takast þyrfti á við, þar sem meðal annars þyrfti að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi, launamunur kynja væri enn staðreynd sem yrði að vinna gegn og að ýmsu leyti þyrfti enn að efla efnahagsleg og pólitísk völd kvenna til jafns við karla.

 - Nánari upplýsingar um samstarf smáríkja á vef WHO 

Til baka Senda grein