Fréttir
  • Heilsuefling
    Heilsuefling

Heilbrigðisstefna til ársins 2022 lögð fram til umsagnar

13/9/2016

Heilbrigðisráðherra leggur hér með fram, til kynningar og umsagnar, drög að tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2022 . Markmið stefnunnar er að treysta heilbrigðisþjónustuna, efla lýðheilsu og stuðla að heilbrigði og vellíðan landsmanna.

Heilbrigðisstefnu til ársins 2022 er ætlað að verða grunnur að aðgerðaáætlun sem varðar úrbætur í heilbrigðisþjónustu og skipulag hennar um allt land og undirstaða verkefna sem styðja við heilsu landsmanna.

Miðað er við að velferðarráðuneytið hafi yfirumsjón með framkvæmd heilbrigðisstefnunnar, vinni að nánari útfærslu einstakra þátta hennar og sjái um endurskoðun eftir því sem ástæða þykir til. Áfram verður unnið að sérstökum áætlunum sem varða þau verkefni sem brýnust eru á hverjum tíma. Lögð verður áhersla á að tengja stefnuna við áætlana- og fjárlagagerð. Þannig verði á hverju ári farið yfir forgangsmál samhliða vinnu við fjármögnun komandi árs.

Gert er ráð fyrir að settur verði á fót hópur fagfólks til að hafa umsjón með framkvæmd heilbrigðisstefnunnar með áherslu á víðtæk samráð svo þekking og reynsla nýtist sem best. Þess er vænst að öll vinna sem tengist framkvæmd heilbrigðisstefnunnar leiði til skipulegri vinnubragða, skýrari verkaskiptingar, aukinnar samhæfingar og samvinnu við að efla heilsu og auka vellíðan almennings og draga úr áhrifum ójafnaðar á heilsu.

Umsagnir um drög að heilbrigðisstefnu skal senda á netfangið postur@vel.is og skrifa í efnislínu: „Umsögn um drög að heilbrigðisstefnu“

Frestur til að senda inn umsögn rennur út: 27. september 2016

Til baka Senda grein