Fréttir

Jafnréttissjóður Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki

4/5/2016

Skjaldarmerki velferðarráðuneytisins

Í velferðarráðuneytinu er starfræktur Jafnréttissjóður Íslands sem stofnaður var á grundvelli þingsályktunar nr. 13/144 sem samþykkt var á Alþingi í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Megintilgangur Jafnréttissjóðs Íslands er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 milljónir króna á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Stjórn sjóðsins ákveður fjölda styrkja og gerir tillögu til félags- og húsnæðismálaráðherra um veitingu þeirra hverju sinni.

Hér með er auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum árið 2016. Gerðar eru skýrar faglegar kröfur til umsækjenda. Niðurstöður verkefna og rannsókna, sem styrk hljóta úr Jafnréttissjóði Íslands, verða gerðar aðgengilegar á vefsvæði Stjórnarráðs Íslands í þeim tilgangi að þær nýtist sem best til framfara á sviði jafnréttismála.

Í samræmi við þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands og reglur um úthlutun úr sjóðnum leggur stjórnin áherslu á að veita fé til verkefna sem:

  1. eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu, 
  2. varpa ljósi á samfélagslegan, um· hverfislegan og efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti og styrkja jafnrétti á alþjóðavísu, t.d. með kynningu á íslenskum lausnum og áherslu á bætta stöðu kvenna í þróunarlöndum og á norðurslóðum, 
  3. ætlað er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, 
  4. falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu sem ætlað er að stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd pilta og stúlkna, svo sem með aukinni fræðslu í kynjafræðum, 
  5. eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og stuðla að aukinni kosningaþátttöku þess, 
  6. eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

Umsóknarfrestur rennur út klukkan 16.00 fimmtudaginn 26. maí 2016 og mun félags- og húsnæðismálaráðherra úthluta úr sjóðnum við formlega athöfn 19. júní næstkomandi.

Við ákvörðun um styrkhæfi umsókna leggur stjórnin m.a. mat á gæði verkefnis eða rannsóknar, þ.m.t. markmið og skipulag verkefnis, hagnýtingargildi og mikilvægi með tilliti til reglna og markmiða sjóðsins um að auka jafnrétti kynjanna.

Vakin er athygli á því að umsækjendum er gert að sækja rafrænt um á eyðublaðavef ráðuneytanna á   minarsidur.stjr.is . Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði Jafnréttissjóðs Íslands

Jafnréttissjóður starfar samkvæmt  reglum nr. 365/2016,um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands

Velferðarráðuneytinu, 4. maí 2016

Til baka Senda grein