Fréttir

Jóhanna Fjóla sett forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands

1/2/2017

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur sett Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til eins árs, frá 1. febrúar 2017. Jóhanna var önnur tveggja umsækjenda sem lögskipuð hæfnisnefnd mat vel hæfa til að gegna starfinu. Jóhanna Fjóla er sett í embættið í fjarveru skipaðs forstjóra, Guðjóns S. Brjánssonar, sem tók sæti á Alþingi að loknum síðustu Alþingiskosningum.

Jóhanna Fjóla hefur frá árinu 2012 verið framkvæmdastjóri hjúkrunar- og rekstrar við Heilbrigðisstofnun Vesturlands og árin 2010 – 2012 var hún verkefnastjóri þróunar- og gæðamála við sömu stofnun. Hún var verkefnastjóri hjúkrunar árin 2000 – 2009 en fyrir þann tíma starfaði hún við Sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hún var m.a. hjúkrunarforstjóri um eins árs skeið.

Í mati hæfnisnefndar segir m.a. að Jóhanna Fjóla hafi mikla þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á stjórnun og áætlanagerð, auk umtalsverðrar reynslu af rekstri. Þá hafi hún sýnt á ferli sínum hæfni til að takast á við krefjandi verkefni þar sem m.a. reyni á mannleg samskipti og loks er í matinu getið um aðkomu hennar að stefnumótun og gerð þjónustusamninga auk þess að leiða ýmis umbótaverkefni á sviði heilbrigðisþjónustu. Jóhanna sé því mjög vel hæf til að gegna starfinu.

Til baka Senda grein