Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp ráðherra á málþingi fagfólks um endurhæfingu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraÁvarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á málþingi Félags fagfólks um endurhæfingu. Norræna húsinu 21. janúar 2011.


 Ágætu fundargestir – fagfólk sem starfar við endurhæfingu.

Ég var beðinn um að fjalla hér um áhrif sameiningar heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins í nýtt velferðarráðuneyti á málefni endurhæfingar og ræða um framtíðarstefnu stjórnvalda á þessu sviði. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við þessari ósk, enda málefnið mikilvægt og að mörgu að hyggja.

Ráðuneytin tvö sem nú hafa sameinast hafa lagt umtalsverða vinnu í þennan málaflokk á liðnum árum. Áður en lengra er haldið vil ég einnig nefna skýrslu nefndar forsætisráðuneytisins um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar frá árinu 2007 en auk fulltrúa stjórnvalda sátu í nefndinni fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, Landssamtaka lífeyrissjóða og Öryrkjabandalagsins. Skýrsla nefndarinnar er mikilvægt stefnumótunarskjal sem þið þekkið eflaust vel.

Um verkefni ráðuneytanna á liðnum árum

Á hendi heilbrigðisráðuneytisins hefur verið endurhæfing fólks sem hefur orðið fyrir færniskerðingu eftir veikindi og slys og einnig ábyrgð á meðferð og endurhæfingu fólks með áfengis- og fíkniefnavandamál.

Endurhæfing unglinga sem hafa ánetjast fíkniefnum hefur verið á hendi félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þar hefur einnig verið ábyrgð á atvinnutengdri endurhæfingu sem er sérstaklega ætluð fólki sem staðið hefur utan vinnumarkaðar af einhverjum ástæðum eða er talið í hættu á að detta út af vinnumarkaði vegna fötlunar eða veikinda. Í ársbyrjun 2008 fluttist ábyrgð á lífeyrisþætti almannatrygginga frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og þar með ábyrgð á málefnum öryrkja.

Eins og þið sjáið í hendi ykkar hefur ekki alltaf verið einfalt að greina mörkin milli ráðuneytanna í endurhæfingarmálum og stundum verið tekist á um hver ætti að gera hvað. En nú eftir að við erum komin með eitt velferðarráðuneyti þurfum við ekki lengur að velta fyrir okkur undir hvaða ráðuneyti mismunandi þættir endurhæfingar heyra – þeir eru hjá okkur í velferðarráðuneytinu.

Þetta veitir tækifæri til að setja ný markmið og nálgast þennan mikilvæga málaflokk á heildstæðari hátt en hingað til.

Meginmarkmið endurhæfingar er að endurheimta og byggja upp eins góða líkamlega, andlega og félagslega færni og unnt er hjá þeim sem á þurfa að halda og gera fólki kleift að taka virkan þátt í samfélaginu, í vinnu, námi og frístundum. Endurhæfing felur þannig í sér öll úrræði sem miða að þessu. Þátttaka á vinnumarkaði er ekki raunhæft markmið fyrir alla en endurhæfing getur engu að síður skilað þeim aukinni virkni og meiri lífsgæðum sem er mikils virði.

Ábyrgð endurhæfingar hjá velferðarráðuneytinu er víðtæk en við megum ekki gleyma þætti menntunar í þessu samhengi. Oft þarf fólk á endurmenntun að halda eftir að hafa orðið fyrir færniskerðingu sem gerir því ókleift að sinna fyrra starfi. Til að ná árangri og koma í veg fyrir ótímabæra örorku þurfa allir fyrrnefndir þættir að virka og vinna saman.

Á liðnum árum hefur endurhæfing innan heilbrigðiskerfisins í auknum mæli færst yfir í dagþjónustu og göngudeildarþjónustu á kostnað legurýma og er þetta í samræmi við stefnu stjórnvalda síðari ár. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað að töluverðu leyti innan hefðbundinna endurhæfingarstofnana en þó ekki í jafnmiklum mæli, og það þarf að skoða það nánar. Göngu- og dagdeildarþjónusta er bæði sveigjanlegri og ódýrari en legudeildarþjónusta. Eins er horft til þess að oft er æskilegt að endurhæfing fari fram í því umhverfi sem fólk lifir og hrærist í, fremur en í stofnanaumhverfi.

Forvarnir

Mikilvægur þáttur sem snýr að fagfólki í endurhæfingu eru forvarnir og meðferð sjúkdóma sem tengjast lífsháttum. Offita hefur verið vaxandi vandamál um allan hinn vestræna heim og því miður hafa Íslendingar ekki verið neinir eftirbátar í þeirri óheillaþróun. Í þessum efnum skiptir miklu að hafa áhrif á fólk þannig að það temji sér heilbrigðari lífshætti. Með því móti er hægt að draga úr nýgengi ýmissa langvinnra og alvarlegra sjúkdóma, halda þeim í skefjum eða auka lífsgæði þeirra sem eiga í hlut. Hér má til dæmis nefna sykursýki, hjartasjúkdóma, stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma. Þáttur endurhæfingar skiptir einnig miklu í þessu samhengi.

Starfsendurhæfing

Ég nefndi áðan skýrslu frá árinu 2007 sem unnin var undir forystu forsætisráðuneytisins í samvinnu við fulltrúa stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóða og Öryrkjabandalagsins um samræmingu á viðmiðum örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar. Tillögur sem þar voru settar fram hafa verið mikilvægur grundvöllur að frekara starfi og stefnumótun félags- og tryggingamálaráðuneytisins á þessu sviði.

Það er okkur öllum ljósara nú en nokkru sinni að öflug, fjölbreytt og vel skipulögð starfsendurhæfing er brýn samfélagsleg nauðsyn. Atvinnuleysi er mikið, langtímaatvinnuleysi fer vaxandi og ungt fólk á undir högg að sækja. Félagsleg og sálræn vandamál samfara atvinnuleysi eru þekkt og vandi fólks eykst, því lengur sem það er án atvinnu. Þessu fólki getur reynst mjög erfitt að ná fótfestu á vinnumarkaði, jafnvel þótt atvinnuástand batni og næg störf séu í boði. Hér er mikið í húfi.

Við höfum fært margt til betri vegar í starfsendurhæfingarmálum en þurfum að gera betur. Ég legg mikla áherslu á að efla þennan þátt verulega og koma skipulagi málaflokksins í skýrara og skilvirkara horf en nú er.

Sameining ráðuneyta – nýtt velferðarráðuneyti

Í dag eru þrjár vikur liðnar frá formlegri sameiningu ráðuneytanna tveggja og stofnun velferðarráðuneytisins. Ég er bjartsýnn á framtíð verkefna í nýju ráðuneyti þar sem ég tel að í sameiningunni felist fjölmörg tækifæri til að bæta skipulag og auka gæði þjónustu á mörgum sviðum.

Endurhæfing er eitt þessara verkefna sem ég bind miklar vonir við þar sem ég tel tvímælalaust að unnt verði ná betri árangri í einu ráðuneyti en tveimur. Nú er allt ferlið undir: Heilbrigðisþátturinn, starfs- og atvinnutengd endurhæfing og hinn félagslegi þáttur. Þegar tekst að ná fyrri færni með endurhæfingu eru miklar líkur á að fólk nái fullri aðlögun að samfélaginu aftur án verulegra erfiðleika. Hins vegar er rétt að hafa hugfast að ef ekki næst fyrri færni, þrátt fyrir öfluga endurhæfingu, ræður samfélagið, uppbygging þess og viðhorf miklu um það hvort þeir sem búa við skerta færni af einhverjum ástæðum ná að taka eðlilegan þátt í samfélaginu. Með þessu er ég síst að draga úr mikilvægi endurhæfingar heldur aðeins að minna á flókið samspil þeirra fjölmörgu þátta sem varða miklu um andlega, líkamlega og félagslega velferð fólks.

Góðir gestir.

Á næstu mánuðum eru samningar lausir við stofnanir sem sinna endurhæfingu á sviði heilbrigðisþjónustu og starfsendurhæfingar. Í undirbúningi þeirra samninga þurfum við að setja okkur markmið um þjónustu sem við munum byggja samningagerð á. Þetta er umfangsmikil vinna sem við verðum að vanda til. Sem aldrei fyrr verðum við að vera viss um að opinbert fé skili því sem að er stefnt.

Að mínu mati hefur margt verið vel gert við uppbyggingu, skipulag og innleiðingu nýrra áherslna í endurhæfingarmálum á liðnum árum. Endurhæfing er víðtækur vettvangur sem krefst sérhæfingar á ólíkum sviðum. Sá hópur fólks sem þarf á endurhæfingu að halda er breiður og fjölbreyttur með afar ólíkar þarfir, enda getur skert geta og færni átt sér margvíslegar orsakir og ólíkar birtingarmyndir. Endurhæfing þarf því oftar en ekki að byggjast á mjög persónulegri nálgun þeirra vandamála sem við er að fást, virkri þátttöku þeirra sem endurhæfingarinnar þurfa með og oft einnig þeirra nánustu. Í þessu felst ákveðin notendasýn sem tekist hefur að byggja inn í skipulag og fyrirkomulag endurhæfingar í vaxandi mæli á liðnum árum. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut, samhliða frekari uppbyggingu og endurskipulagningu þar sem þess gerist þörf.

Við eigum öflugar stofnanir sem sinna endurhæfingu þar sem mikil þekking hefur byggst upp í gegnum árin. Margir aðilar koma að endurhæfingarstarfi og gera það vel, en meginvandinn hefur falist í múrum milli kerfa, togstreitu og skorti á samfelldri þjónustu við notendur. Nú höfum við tækifæri til að brjóta niður múrana og byggja upp heildstætt kerfi í þágu þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda, hvaða ástæður sem liggja að baki. Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem bíða velferðarráðuneytisins og ég vonast til að eiga við ykkur gott samstarf við frekari uppbyggingu á sviði endurhæfingar á næstu misserum.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum