Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Sameining St. Jósefsspítala og Landspítala

St. Jósefsspítali og Landspítali sameinast 1. febrúar undir nafni Landspítala. Hjúkrunarheimilið Sólvangur verður skilið frá St. Jósefsspítala og rekið tímabundið sem sjálfstæð stofnun undir velferðarráðuneytinu þar til nýtt hjúkrunarheimili rís í Hafnarfirði. 

Sex manna verkefnisstjórn skipuð fulltrúum Landspítala og St. Jósefsspítala hefur kynnt velferðarráðherra sameiginlegar tillögur sínar um framvindu og fyrirkomulag við sameiningu Landspítala og St. Jósefsspítala. Í tillögum verkefnisstjórnar er áhersla lögð á að sem flestu starfsfólki verði gefinn kostur á að starfa áfram á sameinuðu sjúkrahúsi, að fagleg þekking haldist og að þjónusta við sjúklinga verði áfram góð.

Af hálfu velferðarráðuneytisins liggur fyrir sú ákvörðun að ný sameinuð stofnun verður rekin undir nafni og kennitölu Landspítala. Réttindi starfsmanna við sameiningu sjúkrahúsanna munu byggjast á lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Er því gert ráð fyrir að allir núverandi starfsmenn St. Jósefsspítala, að frátöldum þeim sem starfa á hjúkrunarheimilinu Sólvangi, verði starfsmenn Landspítala við aðilaskiptin.

Í tillögum verkefnisstjórnar er gert ráð fyrir að legudeild almennra lyflækninga verði áfram í húsnæði St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en að skurðstofustarfsemi, handlækningadeild og starfsemi meltingarlækninga flytjist í húsnæði Landspítala í Reykjavík. Stofnaðir hafa verið vinnuhópar um framkvæmd einstakra tillagna.

Hjúkrunarheimilið Sólvangur verður skilið frá St. Jósefsspítala og rekið tímabundið sem sjálfstæð stofnun undir velferðarráðuneytinu þar til nýtt hjúkrunarheimili rís í Hafnarfirði en áætlað er að það verði tekið í notkun í árslok 2012. Á heimilinu eru 55 hjúkrunarrými og verður fjöldi þeirra óbreyttur.

Forstjóri sameinaðrar stofnunar verður Björn Zoëga, forstjóri Landspítala.

Árna Sverrissyni hefur verið falið að gegna starfi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum