Hoppa yfir valmynd
3. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Könnun á húsaleigukostnaði – áhugaverðar en umdeilanlegar niðurstöður

Velferðarráðuneytið lýsir ánægju með nýja könnun Neytendasamtakanna á leiguverði íbúðarhúsnæðis. Ráðuneytið bendir þó á að könnunin byggðist ekki á úrtaki samkvæmt viðurkenndum rannsóknaraðferðum, heldur var óskað eftir þátttakendum. Niðurstöðurnar eru því umdeilanlegar. 

Alls tóku 817 einstaklingar þátt í könnun Neytendasamtakanna. Óskað var eftir upplýsingum frá leigjendum á heimasíðu samtakanna 11. febrúar síðastliðinn og stóð könnunin til 26. febrúar. Í skýrslu um könnunina kemur fram að sérstaklega hafi verið óskað eftir þátttöku fólks á landsbyggðinni og þaðan hafi borist svör frá 132 þátttakendum.

Niðurstöður könnunarinnar eru áhugaverðar og vert að skoða þær nánar, því eins og Neytendasamtökin benda réttilega á skortir ábyggilegar upplýsingar um leiguverð á íbúðarhúsnæði. Við gerð neysluviðmiða sem nýlega voru kynnt var þó reynt að nálgast upplýsingar um húsaleiguverð í gegnum bestu fáanlegar upplýsingar sem eru neyslukannanir Hagstofunnnar. Þar koma fram raunupplýsingar um greidda húsaleigu, þótt vissulega þurfi einnig að skoða þær upplýsingar með ákveðnum fyrirvörum.

Framkvæmd könnunar Neytendasamtakanna er ágæt viðleitni til að nálgast upplýsingar um leiguverð. Það gefur þó auga leið að með því að auglýsa eftir þátttakendum í stað þess að byggja á úrtakskönnun er útilokað að draga stórar ályktanir af niðurstöðunum og augljóst að þær gefa ekki raunhæfa mynd af leigumarkaðnum í heild. Þátttaka fólks byggist á því að það hafi sérstakan áhuga á að koma upplýsingum á framfæri. Ljóst er að samsetning leigumarkaðarins skiptir máli, ekki síst varðandi eignarhald íbúðanna sem eru í útleigu, svo sem hvort þær eru í eigu sveitarfélaga, einstaklinga, fyrirtækja eða félagasamtaka, og hlutfallsleg skipting leigjenda á íbúðir eftir eignarformi. Það vekur til dæmis athygli að aðeins 3% þátttakenda í könnuninni leigja hjá Félagsbústöðum sem er stærsti leigusali landsins.

Neytendasamtökin tengja niðurstöður könnunar sinnar við neysluviðmið stjórnvalda sem kynnt voru nýlega og segja þær sýna svart á hvítu að húsaleigukostnaður eins og hann birtist í viðmiðunum sé óraunhæfur. Ráðuneytið bendir á að í skýrslu um neysluviðmið er skýrt tekið fram að útreikningur á húsnæðiskostnaði gefi í besta falli vísbendingu um dæmigerðan kostnað. Sérstaklega er bent á að húsnæðiskostnaður einstaklinga og fjölskyldna er afar mismunandi, hvort sem um er að ræða greidda húsaleigu eða reiknaða húsaleigu íbúðareigenda. Því er eðilegt að reikna með raunkostnaði húsnæðis þegar neysluviðmiðunum er beitt, enda liggi hann jafnan fyrir þegar mál einstaklinga eru skoðuð. Einnig er bent á að ekkert nágrannalanda okkar hefur gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði í sínum neysluviðmiðum, einmitt vegna þess hve kostnaðurinn er breytilegur milli einstaklinga.  

Á vegum velferðarráðuneytisins er nú unnið að stefnumótun í húsnæðismálum þar sem meðal annars er lögð áhersla á að styrkja stöðu leigjenda og jafna stöðu búsetuforma. Einnig er unnið að því að efla og samræma aðgerðir hins opinbera í upplýsingavinnslu um húsnæðismál og greiningu á húsnæðismarkaðnum. Þekking á stöðu húsnæðismála, sérstaklega tölfræðilegar upplýsingar og greining, er forsenda fyrir mótun öflugrar húsnæðisstefnu.

Velferðarráðuneytið þakkar Neytendasamtökunum fyrir frumkvæðið sem það sýndi með könnun á leiguverði íbúðarhúsnæðis. Það er full ástæða til að skoða niðurstöðurnar, ekki síst með það í huga hvernig megi sem best nálgast upplýsingar sem gefa raunhæfa mynd af húsnæðiskostnaði fólks á leigumarkaði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum