Hoppa yfir valmynd
25. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla um áhrif efnahagshrunsins á velferð kvenna

Út er komin skýrslan „Konur í kreppu?“ Samantekt á opinberum tölulegum gögnum um áhrif efnahagshrunsins á velferð kvenna. Skýrslan var unnin fyrir stýrihóp velferðarvaktarinnar sem skipaður er af velferðarráðherra. 

Hlutverk velferðarvaktarinnar er að fylgjast á markvissan hátt með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum efnahagsástandsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að fylgjast með þeim hópum fólks sem líklegir eru til að verða hvað harðast úti og koma með tillögur að aðgerðum til að mæta aðstæðum þeirra. Í öllu starfi velferðarvaktarinnar eru sjónarmið jafnréttis höfð í huga og meðal annars skoðuð áhrif aðgerða eða aðgerðaleysis á stöðu kynjanna. Með þetta að leiðarljósi ákvað velferðarvaktin að láta skoða sérstaklega áhrif efnahagshrunsins á velferð kvenna og eru niðurstöðurnar birtar í meðfylgjandi skýrslu.

Í skýrslunni er fjallað um heimili og fjölskyldu, vinnumarkaðinn og atvinnuleysi, kynbundið ofbeldi og heilsufar. Fjallað er um ólíka stöðu kynjanna á hverju sviði og hvernig hún veldur því að kreppan bitnar á mismunandi hátt á konum og körlum. Ólíkt staða kynjanna endurspeglast meðal annars í misskiptri fjölskylduábyrgð og er sjónum til dæmis beint að breytingum sem gerðar hafa verið á fæðingarorlofslögum í kjölfar kreppunnar, einstæðum mæðrum og eins er fjallað um fjárhagsvanda heimilanna í þessu ljósi. Þá eru teknir fyrir þættir sem rannsakaðir hafa verið í beinum tengslum við kreppuna og reynt að varpa ljósi á kynbundið hlutfall fólks í vanskilum, þeirra sem þiggja matarúthlutanir og fólks með tekjur undir lágtekjumörkum. Einnig er fjallað um hversu kynjaskiptur vinnumarkaðurinn er sem óhjákvæmilega veldur kynjamun á þróun atvinnuleysis í kjölfar hrunsins. Þá er farið yfir gögn um þróun kynbundins ofbeldis í kjölfar kreppunnar; heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis og í málum barnaverndarnefnda. Loks er fjallað um heilsu fólks og litið yfir breytta tíðni fæðinga, fóstureyðinga og ófrjósemisaðgerða og um kynbundinn mun á lyfjaneyslu Íslendinga.

Konur í kreppu? Samantekt á opinberum tölulegum gögnum á áhrifum efnahagshrunsins á velferð kvenna.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum