Hoppa yfir valmynd
30. mars 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Sameining landlæknis og Lýðheilsustöðvar samþykkt á Alþingi

Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð sameinast 1. maí 2011 samkvæmt nýjum lögum um embætti landlæknis sem samþykkt voru á Alþingi í dag. 

Hlutverk hins nýja embættis er að efla lýðheilsu og tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar. Embættið mun taka við öllum verkefnum sem landlæknir sinnir samkvæmt núgildandi lögum, svo sem leyfisveitingar, sóttvarnir, ráðgjöf, eftirlit, upplýsingasöfnun, gæðamál og skýrslugerð. Þar verður einnig sinnt verkefnum á sviði forvarna, heilsueflingu og lýðheilsu sem nú eru á ábyrgð Lýðheilsustöðvar.

Landlæknir hefur frá öndverðu sinnt ráðgjöf til stjórnvalda og tekið þátt í uppbyggingu á skipulegri heilbrigðisþjónustu hér á landi, meðal annars með eftirliti með heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðisstarfsmönnum, eins og bent er á í greinargerð með frumvarpinu. Með tímanum hafa málefni sem snerta lýðheilsu landsmanna og heilsuvernd þróast og aukist og voru þau orðin drjúgur þáttur í starfi landlæknisembættisins þegar Lýðheilsustofnun var sett á fót árið 2003. Með stofnun hennar fluttust ýmis verkefni tengd lýðheilsu á vegum landlæknisembættisins þangað og í dag sinna báðar stofnanirnar ráðgjöf um heilbrigðismál til stjórnvalda og almennings, gefa út leiðbeiningar um vinnulag og framkvæmd verkefna og sinna rannsóknum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að því sé raunsætt að sameina þessar stofnanir og þannig skapa tækifæri til að styrkja og efla starf þeirra enn frekar en nú er. Samhliða verði unnt að auka hagkvæmni í rekstri, draga úr yfirbyggingu og samnýta mannafla betur en hingað til, sérstaklega í verkefnum sem snúa að forvörnum, og koma í veg fyrir skörun verkefna.

Við lokaumfjöllun Alþingis á lögum um sameiningu stofnananna tveggja var samþykkt breyting á fyrirliggjandi frumvarpi varðandi heiti hinnar nýju stofnunar og mun hún heita embætti landlæknis.



 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum