Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Almenn bólusetning ungbarna gegn pneumókokkum er hafin

Ungbörn verða framvegis bólusett við pneumókokkum samhliða öðrum ungbarnabólusetningum. Þess er vænst að með bólusetning muni draga stórlega úr alvarlegum afleiðingum sýkinga af þeirra völdum hjá börnum.

Í upplýsingum sóttvarnalæknis til foreldra segir: „Pneumókokkar eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum, svo sem heilahimnubólgu, blóðsýkingum, lungnabólgu, eyrnabólgu og kinnholusýkingum, einkum hjá yngstu börnunum. Hættulegastir þessara sjúkdóma eru heilahimnubólga og blóðsýkingar, en árlega greinast um 11 börn hér á landi með slíkar sýkingar. Með því að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar má koma í veg fyrir allt að 90% þessara sjúkdóma. Einnig má ætla að bólusetningin dragi úr bráðum og þrálátum miðeyrnabólgum og lungnabólgum hjá ungum börnum. Þá er þess vænst að árleg sýklalyfjanotkun hjá þessum hópi minnki um allt að fjórðung, en það myndi draga úr hættu á útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka.“

Börn sem fæðast á þessu ári og síðar verða bólusett við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur samhliða öðrum ungbarnabólusetningum. Börn sem fædd eru fyrir árið 2011 falla ekki undir almenna bólusetningu gegn pneumókokkum. Foreldrar þeirra eiga þess hins vegar kost að láta bólusetja börn sín en þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði bóluefnisins.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum