Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ný almannatryggingalöggjöf í smíðum

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að endurskoða almannatryggingakerfið. Hópnum er ætlað að skila drögum að frumvarpi að nýjum lögum um lífeyristryggingar fyrir lok þessa árs. 

Viðamiklar upplýsingar og greiningar á almannatryggingakerfinu liggja fyrir og mun hópurinn nýta sér þau gögn. Til undirbúnings fyrir vinnu hópsins hefur í velferðarráðuneytinu verið mótaður rammi um helstu efnisþætti nýs frumvarps til laga um lífeyristryggingar. Þar er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um elli- og örorkulífeyri almannatrygginga, sérstakar greiðslur til að mæta þörfum eða útgjöldum í ákveðnum tilvikum eða til varnar fátækt og um stuðning ríkisins við barnafjölskyldur.

Miðað er við að áfram verði byggt á grunni tveggja stoða tryggingakerfis þar sem einstaklingar á vinnumarkaði greiða í og safna réttindum í lífeyrissjóðakerfi annars vegar en hins vegar veiti almannatryggingakerfið lágmarkstryggingavernd þeim sem á þurfa að halda.

Árni Gunnarsson formaður starfshópsinsÁhersla er lögð á að í nýrri löggjöf verði kveðið skýrt á um markmið og tilgang tryggingakerfisins, um réttindi og skyldur hinna tryggðu, málsmeðferð, stjórnsýslu og kæruleiðir. Einnig verði uppbygging laganna gerð skýrari, löggjöfin einfölduð og framsetningu breytt frá því sem nú er. Gengið er út frá því að sett verði sérlög um slysatryggingar sem nú er kveðið á um í almannatryggingalögunum.

Árni Gunnarsson er formaður hópsins sem í eiga sæti fulltrúar Landssambands eldri borgara, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands og allra þingflokka.

Árni segir lög um alþýðutryggingar Íslands einhverja merkustu löggjöf sem sett hefur verið hér á landi en hún er 75 ára gömul að stofni til: „Núgildandi lög um almannatryggingar eru undirstaða velferðarkerfisins, sem allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að beri að treysta og viðhalda. Það er  mjög tímabært, að endurskoða lögin, einfalda þau, gera þau gagnsærri og skiljanlegri öllum notendum. Vonandi tekst það í góðri samvinnu við þau heildarsamtök, sem eiga mestra hagsmuna að gæta. Rauði þráður þessarar endurskoðunar þarf að vera einbeittur vilji til að móta almannatryggingakerfið, svo það megi sem best nýtast borgurum þessa lands, stuðla að jöfnuði og öryggi og veita áfram lágmarkstyggingavernd vegna elli og örorku.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum