Hoppa yfir valmynd
28. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

72 milljónum króna úthlutað úr Forvarnasjóði

GH-afhending-styrkjar-ur-Forvarnarsjodi-2011
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra við afhendingu styrkjanna.

Velferðarráðherra úthlutaði í gær styrkjum úr Forvarnasjóði, samtals 72 milljónum króna, til fjölbreyttra verkefna og rannsókna á sviði forvarna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og bættrar lýðheilsu. Þetta er í síðasta sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum. 

Alls voru veittir styrkir til 102 verkefna en umsækjendur voru tæplega 170. Hæstu styrkina hlutu Fræðslumiðstöð um forvarnir, 5 milljónir króna, Ungmennafélag Íslands fékk 4 milljónir, Háskólinn á Akureyri 3,5 milljónir, Rannsóknir og greining 3 milljónir og Vímulaus æska 3 milljónir króna.

Forvarnasjóður var stofnaður árið 1995 með ákvæði í lögum um gjald af áfengi og tóbaki og árið eftir var styrkjum úthlutað úr honum í fyrsta sinn. Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að stuðla að forvörnum á sviði áfengis- og vímuvarna en tekjur sjóðsins eru áfengisgjald, fjárveitingar af fjárlögum og frjáls framlög.

Í ávarpi sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flutti við kynningu á úthlutun styrkjanna í gær sagði hann að lýðheilsustarf væri í sókn og skilningur á mikilvægi forvarna og lýðheilsustarf færi vaxandi: „Sífellt fjölgar í öflugum hópi vel menntaðs fólks með þekkingu í mikilvægum greinum lýðheilsufræða eins og faraldsfræði, líftölfræði, félags- og atferlisfræði, heilsuhagfræði og svo mætti áfram telja. Öll þessi þekking skiptir miklu máli og eins þverfaglegt samstarf vel menntaðs fólks sem er fært um að beita vísindalegum aðferðum í störfum sínum á þessu sviði.“

Samhliða sameiningu Lýðheilsustöðvar og embætti landlæknis sem ákveðin var með lögum fyrr á þessu ári hefur Forvarnasjóður verið lagður niður en til verður nýr lýðheilsusjóður sem hefur það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf í landinu. Hlutverk sjóðsins er víkkað út í samræmi við þær faglegu áherslur að heildræn nálgun í forvarnastarfi skili mestum árangri og einnig í samræmi við þróun fjárveitinga til Forvarnasjóðs síðastliðin ár með sérstöku framlagi til heilsueflingar og lýðheilsustarfs. Um leið verður ákveðinn faglegur mælikvarði settur til hliðsjónar er kemur að úthlutun styrkja úr sjóðnum og mun sá mælikvarði meðal annars ákvarðast af lýðheilsumarkmiðum stjórnvalda hverju sinni.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum